01.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

6. mál, aðflutningsgjald

Stefán Stefánsson:

Eg hefi leyft mér að koma fram með þá viðaukatill., sem hér liggur fyrir á þgskj. 60, við frumv. það til laga um hækkun á aðflutningsgjaldi, er kemur frá stjórninni, aðallega af þeirri ástæðu, að mér er kunnugt um, að í 2 kauptúnum norðanlands hefir verið notað til drykkjar súr berjasafi, sem er þó hvað áhrifin snertir engu óskaðlegri en hvert annað áfengi.

Á þessum stöðum er aðalsíldveiðiútvegur útlendinga fyrir Norðurlandi, og því mjög mikill mannfjöldi þar saman kominn um veiðitímann og þess vegna góður markaður fyrir þessa vöru, þar sem annað áfengi er ekki selt í kauptúnunum, og reynslan er sú, að ef menn neyta 3—4 glasa af þessum safa, þá verða þeir lítt sjálfbjarga, og margoft með öllu magnþrota.

Eins og kunnugt er ber ekki að greiða neinn toll af þessum súra berjasafa, og væri eiginlega ekki neitt við það að athuga, væri hans neytt að eins til matar, en nú þegar hann er jafnvel mestmegnis hafður til drykkjar, og hefir þá þau áhrif, er eg hefi skýrt frá, þá lít eg svo á, að sjálfsagt sé að greiða af honum toll, sem þá sé í samræmi við víntollinn, eftir áfengisstyrkleika. Hann ætti með öðrum orðum ekki að vera rétthærri en annað áfengi, þar sem hans er neytt á sama hátt. Verði ekkert gert, sem þó að nokkru heftir þessa sölu, þá þyrfti löggæzlan á þeim stöðum, er hér um ræðir, að vera miklu öflugri en hún er, og varið til hennar meira fé en er.

Í sambandi við þetta mál má benda á yfirlýsingu útvegsmanna við Hjalteyri. Þeir álíta þenna súra safa jafnskaðlegan og brennivín eða aðra sterka drykki. Þeir vilja því alt kapp á það leggja, að fá þessu útrýmt og hafa jafnvel boðið að bæta seljanda þann halla, er hann biði við að hætta sölunni. Þeim er þetta svo mikið áhyggjuefni, enda hefir það komið fyrir, að sumir skipverjar þeirra hafa verið svo lamaðir af áhrifum þessarar »saftblöndu« að skip hefir orðið að liggja inni á höfn, að eins þess vegna, því eftir að áfengisvíman er að mestu eða öllu horfin, eru menn svo veikir og slappir, að þeir geta ekki við verk verið. Á þessu ber enn meir en eftir nokkra víndrykkju.

Annars má sjá yfirlýsingu um skaðvæni safans í »Templar«. Hún er frá formanni síldveiðafélagsins Nordsee frá Nordenham á Þýzkalandi og 5 skipstjórum þess félags. Þetta eru alt mjög mætir menn, að því er eg bezt þekki, svo eg fyrir mitt leyti ber fult traust til þeirra hvað þetta snertir. Annars sést það af bréfi, sem prentað er í Stjórnartíðindunum 1904, að þetta er engin nýjung. Bréfið er frá stjórnarráðinu til amtmannsins yfir Suður- og Vesturamtinu út af bréfi sýslumannsins í Vestmanneyjum, þar sem hann skýrir frá því, að við ransókn á súrum kirsuberjasafa, sem flytjist þangað, hafi það komið í ljós að talsvert áfengi, 11,32% (þyngdar) = 14% (fyrirferðar) sé í nefndum vökva, og í annan stað spyrst fyrir um það, hvort eigi beri að skoða nefndan kirsuberjasafa, sem annað áfengi.

Áfengið er að vísu ekki jafnmikið og í brennivíni, en sem sagt afleiðingarnar eru eins skaðlegar.

Vona eg að deildin taki þessa tillögu mína til greina, með því að sþ. tollálagning á þessa vöru, tollhæðin er nokkurnveginn í hlutfalslegu samræmi og á öðru áfengi eftir styrkleika.

Að eg hefi horfið frá hinni fyrri tillögu minni, stafar af því, að í 2., 3. og 4. lið frumv. eru tilgreind þau efni, sem alloft eru flutt í flöskum, en þetta er flutt að eins í stærri ílátum, og þess vegna réttara, að það sé 14. (síðasti) liður tillögunnar.