11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

6. mál, aðflutningsgjald

Jón Magnússon:

Eg get tekið undir það með hæstv. ráðherra (H. H.), að töluverð bót hefir orðið af nefndarinnar hálfu, frá því sem áður var. Það er framför, að frumv. öðlast þá fyrst gildi, þegar það er afgreitt frá deildinni, og að tollhækkunin nái til allra vörutegunda.

En það verður þó ekki varið, að orðalagið er mjög óheppilegt, og óhjákvæmilegt, eftir því sem bein orð liggja til, að frumv. reki sig á ákvæði hinna gildandi toll-laga.

Ef greiða á eftir frumv. toll af vörum, sem koma á tímanum frá 12. marz, þangað til það öðlast lagagildi, þá getur verið að búið sé að greiða tollinn áður eftir núgildandi lögum, en samt á eftir hinum fyrirmælum frumvarpsins að greiða tollinn — án frádráttar — eftir þessu frumv., en það sjá allir, að slíkt er harla ósanngjarnt.

Annars hefir verið mjög illa með þetta mál farið, og alt öðruvísi, en venja er til um toll-lög yfirleitt. Ef skynsamlega hefði verið að farið, þá hefði mátt afgreiða málið á 2 dögum, en í stað þess hefir tímanum verið eytt með því, að kasta því milli deildanna. Orsökin er sú, að sérstaklega hin hv. deild hefir farið hér eins á villigötu, og því hefir málið tafist.