26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

7. mál, háskóli

Jón Ólafsson:

Mig furðar satt að segja stórlega á mótstöðu háttv. l. þm. Húnv. (H.G.) móti þessu máli, Hann vill endilega geyma það til næsta þings að samþykkja þessi lög. Mér er ómögulegt að skilja, að það geti gagnað málinu neitt; málið hefir fengið eins góðan undirbúning og kostur er á. Og þótt einhver gæti með rökum sett eitthvað út á málið á frumv., þá skil eg ekki, að það sé svo mikið atriði, að nokkur, sem málinu ann, vilji fresta því fyrir þá sök. Og eg hefi nú ekki betur vit á, en að málið á frumv. sé gott. Þá var sagt, að háskólalög ætti að vera þannig úr garði gerð, að ekki þyrfti að breyta þeim síðar — ef til vill í margar aldir. Eg býst við, að við stöndum ekkert nær því 1911, heldur en nú, að búa til óumbreytanleg háskólalög. Okkar háskóli hlýtur að verða mörgum og miklum breytingum háður. Eg vona, að hann verði háður breytiþróunar-lögmáli framfaranna; og þó að þessi lög væri ekki eins ákjósanleg eins og hægt væri að óska eltir — og hygg eg þó, að þau sé góð og mætavel samin —, þá eru þau þó nægileg til þess, að koma stofnuninni á fót. viðvíkjandi húsrúmi er ekkert á móti því, að skólinn geti tekið til starfa á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. Eg veit ekki betur, en að þeir skólar, sem nú eru hér, hafi húspláss, og þá ætti ekki að vera mikill vandi að bæta við húsrúmi fyrir 1 eða 2 deildir, t. d. í á efra lofti mentaskólans. Það er mjög víða, að háskólar hafa ekki allar kenslugreinar í sama húsi — má þar til nefna t. d. Lundúnaháskóla. Mér er óskiljanlegt, hvers vegna menn vilja draga málið — eftir hverju er að bíða? — og það er kynlegt, ef þingið nú fer að fussa við þessari stofnun, sem það hvað eftir annað hefir óskað eftir að fá í fulla hálfa öld.