28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

7. mál, háskóli

Hálfdan Guðjónsson:

Mér er með öllu óskiljanlegt, hvernig þetta mál hefir getað gengið hér í gegnum deildina, í því formi sem það er. Þannig lagað, sem það nú er, hefir það mér vitanlega aldrei legið fyrir neinu þingi. Finst líka engin ástæða til að flýta málinu svo rnjög, þar sem ekki er tilætlast, að stofnun þessi komist upp, fyr en fé er veitt til hennar á fjárlögunum.

Hátttv. framsm. (J. Þ.) sagði við síðustu umr. málsins hér í deildinni, að þetta frumv. væri í marga staði meingallað, og þó ræður hann með mestu rósemi deildinni til að samþykkja það óbreytt, meira að segja, án þess að gerð sé nokkur tilraun til að bæta úr þessum mörgu göllum.

Í þessu sambandi vil eg minnast á hitt frumv., sem er skylt þessu, nfl. um laun háskólakennaranna; eg get engan veginn fallist á, að þau eigi að vera, eins og frumv. fer fram á. Þegar alt er komið í kring með embættaskipun eftir þessum lögum hvorum tveggjum, þá nemur útgjaldahækkunin til kennaranna við háskólann væntanlega 20—30 þús. kr. frá því sem nú er við skóla embættismannaefnanna. Er það allmikill árlegur útgjaldaauki fyrir landssjóð. Og er þó ekki tekið tillit til þess, að sjálfsagt má telja, að nauðsynlegt þyki að reisa sem fyrst mjög dýra háskólabyggingu, þegar háskólinn nýi tekur til starfa. Þessi launahækkun kennaranna þykir mér og líklegt, að dragi annan dilk á eftir sér, því að mér er ekki grunlaust um, að ósk sú um launahækkun, er þinginu barst frá kennurum hins almenna mentaskóla, eigi rót sína að rekja til þessa frumv. um laun háskólakennara. Engin von til þess, að kennarar við þann skóla vilji búa við svo miklu lægri laun, sem nú hafa þeir, en þessir blessaðir háskólakennar eiga að hafa. Vegna þess hvað þetta er merkilegt mál, kom eg ekki fram á móti því fyr. Eg vildi ekki hindra að málið fengi sem beztan undirbúning í þinginu að þessu sinni.