28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Jón Þorkelsson):

Hinn virðulegi 1. þm. Húnv. (H. G.), ver ekki vel sínu pundi að nota það til þess að setja sig upp á móti þessu máli, setja sig upp á móti föðurlandinu, setja sig upp á móti guði, hann, sem þó »á að vera útvalinn drottins þjón og verk hans og vilja gera«. Því sannlega, sannlega segi eg yður, að sá maður setur sig upp á móti guði, upp á móti öllum hamingjudísum þessarar þjóðar, sem veita vill þessu máli banatilræði. Að sambandsmálinu einu undanskildu liggur ekkert mál fyrir þessu þingi, er sé jafnáríðandi, jafnmikil lífsnauðsyn fyrir oss sem einmitt þetta mál. Guðrækara verk er því ekki hægt að vinna gagnvart landi og lýð en að vilja skapa þessu máli feigð. Þetta hlutskifti hefir nú hinn háttv. þm. kosið sér að þessu sinni og við þessa athöfnina ætlar hann nú að leggja virðing sína og velsæmi. Háskóli sá, er nú viljum vér koma á fót, á að verða arinn og miðstöð allrar menningar vorrar, sem oss svo lengi og tilfinnanlega hefir vantað og oss svo hörmulega og óskaplega hefir fyrir þrifum staðið. Slíkt miðból hefir hvergi til verið alt til þessa, og fræðadísin íslenzka hefir eiginlega hvergi átt höfði sínu að halla, hvergi átt heima. Miðstöð vors andlega þroska hefir engin verið og hvergi verið, nema ef helzt mætti segja að hún hafi um langan aldur staðið hálf sitt hvorumeginn 300 rasta hafs. Reykjavík og Kaupmannahöfn hafa nú langa lengi verið að togast á um það, hvor þeirra skyldi aðalból íslenzkrar mentunar, og þegar sá dagur er nú að renna upp að Reykjavík megi sigra í skinndrætti þessum, þá er það hart að sjá og heyra að nokkur íslenzkur þm. skuli sá vera til, sem vilji nú höggva sigurinn úr höndum oss.

Það hefir kostað oss langa og harða baráttu að komast það áfram í þessu máli, sem nú erum vér komnir. Vér höfum í því eins og mörgum öðrum málum fyrrum fengið að kenna á lagasynjunum hvað eftir annað, og vér höfum gengið í skrokk á dönsku stjórninni og úthúðað henni fyrir að þverskallast og daufheyrast við kröfum vorum, og landsmenn fyrrum, bæði karlar og konur, hafa lagt hart að sér í þessu máli, stofnað til fjársamskota og lagt fram fé til framgangs þessa máls, sem dæmi eru til um fá mál önnur. Og eigum vér þá eftir þetta alt saman, þegar loksins stjórn vor og konungur verða einug um að veita oss uppfylling þessarar lengi þráðu óskar, að gerast þau ómenni og illfygli, að drita svo hermilega í vort eigið hreiður, að vér nú lýsum því yfir að vér séum ekki menn til þess að taka að oss og halda uppi þessari langþreyðu stofnun? Er það alvara háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) að hann virkilega vilji ljá sig til þessa illvirkis og ómenskuverks?

Hinum háttv. þm. þótti mál þetta illa undirbúið. En má eg spyrja: Hvernig getur hinn háttv. þm. sagt það? Mál þetta hefir fyrst og fremst verið rætt með oss nú um 30 ár og bæði þjóð og þing margoft látið í ljósi skoðanir sínar og vilja sinn í því. því næst hafa nú forstöðumenn læknaskólans, prestaskólans og lagaskólans undirbúið málið eftir þeirri þekkingu og viti, sem þeir höfðu bezt, — og um einn þeirra formann prestaskólans, er mér kunnugt, að hann nýtur fullkomins trausts 1. þm. Húnv. (H. G.). Síðan hefir málið gengið í gegnum hendur stjórnarráðsins og þar enn verið vandað til þess. Mér er nú spurn: Ef þetta mál er ekki sæmilega undirbúið, hvernig á þá að undirbúa mál til þingsins, og hvaða mál eru þá nógu vel undirbúin handa hinum háttv. þm.? Það er að vísu satt, að eg — og fleiri — fann að málinu og orðfærinu á frumv. þessu, en eg gat þess jafnframt, að frágangur á þessu frumv. væri að þessu leyti ekki verri en á svo mörgum lögum öðrum — nema skárri sé.

Eg heyri það sagt, að háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) sé hér á ferðinni með rökstudda dagskrá, sem hann hugsi sér að fá deildarmenn til að glæpast á að samþykkja, og eyða þar með þessu máli. Það virðist nú vera orðinn sá faraldur hér á þinginu, að veifa þessum rökstuddu dagskrám, er menn vilja koma einhverju máli fyrir kattarnef. Fyrir skömmu var einu máli (»Thoremálinu«) einmitt vikið burt með rökstuddri dagskrá hér í deildinni. Og nú er mér sagt, að hefndin fyrir að það tókst, eigi að koma niður á þessu máli, þó að eg viti, að framkoma hins háttv. 1. þm. Hún. (H. G.) stafi ekki af þeim hvötum. Annars hefir það verið talið efasamt, hvort það sé löglegt og þinglega rétt að afleiða frumvörp með rökstuddum dagskrám. Það var eitt sinn gert hér um árið — og þá í fyrsta skifti — á þeim tímum, er þeir konungkjörnu stóðu mjög á móti vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, en illa mæltist það þá fyrir.

Þetta mál er oss í heild sinni svo mikilsvarðandi, og undir því er svo mikið þjóðmetnaður vor, þjóðstolt og sómi, að ekki má nú sleppa tækifærinu, að koma því áleiðis til fulls framgangs. Eg vænti því þess fastlega, að sú rökstudda dagskrá háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) verði feld hér í deildinni, í hvað ærlegri og góðri meiningu, sem hann kann að hafa komið fram með hana.