28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

7. mál, háskóli

Björn Sigfússon:

Eg vil að eins með fáum orðum víkja að því sem frmsm. (J. Þ.) kastaði fram í ræðu sinni, að framkoma þessarar rökstuddu dagskrár ætti að vera hefnd fyrir að annað mál, sem hafði verið felt hér í deildinni; það er víst Thoremálið, sem háttv. frmsm. 1. þm. Rvk. átti við. — Þetta eru svo barnalegar getsakir, að eg er hissa á að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) skuli koma fram með annað eins. Sá maður, sem kemur fram með þessa rökstuddu dagskrá, var einmitt á móti því að þingið gengi að Thore- tilboðinu, og svo á hann að gera þetta til að hefna þess máls. Margt hefir hann sagt skrítið í ræðum sínum, þessi hv. þm. og komið okkur til að hlæja, en nú gerir hann okkur undrandi yfir því hvaða fjarstæður — eg vil ekki segja bull — hann lætur út úr sér, þegar hann reiðist.

Þá var háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) að spyrja flutningsmann rökstuddrar dagskrár um þá galla, sem hann sæi á frumv. Það vill nú svo óheppilega til, að sá þm. mun ekki geta tekið oftar til máls að þessu sinni. Eg skal geta þess að lýsing frmsm. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) á frumv. ætti að vera nóg til þess, að hvorki hann né aðrir, vilji samþ. það. Hann sagði að búningurinn á því — málið, væri svo ilt, að ekki veitti af að breyta því frá upphafi til enda. Sá meðhaldsmaður málsins ætti því eins og aðrir að vilja fresta því til næsta þings, svo það geti þá komið fram í þeim búningi, sem því er samboðinn. Efnisgallarnir eru líka allmargir að ýmsra dómi, t. d. óþarflega margir kennarar og óþarflega há laun.

Þá var hv. þm. Dal. (B. J.) að halda því, fram að samþ. rökstuddrar dagskrár yrði til þess að drepa málið. Á hverju hann byggir það er ekki gott að vita og er slík staðhæfing því einkennilegri sem málið á ekki að koma til framkvæmda fyr en fé er veitt til þess á fjárlögunum, með öðrum orðum, í fyrsta lagi eftir tvö ár. Það er því ekki gott að sjá, hversvegna endilega á að knýa það fram nú með hroðvirkni.