28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

7. mál, háskóli

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það var að heyra á hv. 1. þm. Húnv. (H. G.), að hann gæti ekki svarað fyrirspurn þeirri, er hv. l. þm. Eyf. (H. H.) beindi til hans, af því að hann væri »dauður« (?: búinn að tala tvisvar í málinu). Auðvitað stendur í þingsköpum að eins um flutningsmenn og framsögumenn mála, að þeir megi taka oftar til máls en tvisvar, en þá liggur næst að álíta, að sá sem ber fram rökstudda dagskrá í máli, sé flutningsmaður hennar; þótt þetta sé eigi beinum orðum sagt í þingsköpunum, tel eg víst að forseti, sem jafnan hefir sýnt sig mjög frjálslyndan í skilningi og beiting þingskapanna, leyfi hv. 1. þm. Húnv. að taka til máls.

Þess er þörf, að háttv. þm. svari fyrirspurninni; hann telur frumv. meingallað, en hefir ekki sýnt fram á nokkurn galla á því.

Eg hefi ekki getað fundið annað, en að mjög væri vandað til frumv. þessa; það hefir fengið góðan undirbúning sem vænta mátti. Eg verð að ætla, að þar sem eg hefi alt frá þingbyrjun vandlega lesið og hugleitt málið, mál, sem mér er vel ljóst og eg hefi um mörg ár hugleitt — verið flutningsmaður þess eitt sinn á þingi, einnig ritað talsvert um það — eg verð að ætla, segi eg, að þegar eg ekki hefi orðið galla var á þessu frumv. þá séu þeir ekki auðsæir öllum. Hvað málið á því snertir, sem fundið hefir verið að, hefi eg ef til vill ekki síður skyn á en aðrir hér í deildinni um það að dæma, og eg hefi ekkert að því að finna. Mig grunar, að alt það, sem háttv. þm. einn hafði út á það að setja, sé reyndar ekki annað en eitthvað orð eða svo: prófessor, dósent, rektor og doktor. En þótt þessi orð sé útlend að uppruna, þá hafa þau fyrir löngu samlagast málinu, og eigi meiri ástæða til að útrýma þeim, heldur en orðum eins og kirkja, prestur, prófastur, biskup o. fl. orðum, sem alveg eins stendur á með.

En það verð eg að segja, að færi þingið nú að hafna þessu frumv., hvort heldur drepa það berlega með því að fella það, eða launmyrða það með rökstuddri dagskrá, þá væri það hið vindhanalegasta stefnuleysi, eftir að þingið hefir barist fyrir því stöðugt samfeld 28 ár, eða síðan 1881. Það er eins og vér Íslendingar þurfum þá að nota hvert stórmálið á fætur öðru í ár, til að sýna og sanna öllum heimi hve stefnulausir vindhanar og staðfestulausar hræriþvörur vér séum, er vér höfnum, þegar það býðst, hverju því sem vér höfum áður haldið fram og talið oss velferðarmál.

Það er ekki satt, að málið komi flatt upp á þjóðina. Á þeim tíma, sem fyrir því hefir verið barist, hafa komið fram bænarskrár um það eða þingmálafundarsamþ. úr öllum kjördæmum þessa lands, og eg minnist ekki þess, að úr nokkru kjördæmi hafi nokkru sinni komið fram rödd á móti því. Síðasta þing skoraði beint á stjórnina að undirbúa málið og leggja frv. um það fyrir þetta þing.

Enginn þm. dirfist að vefengja, að þessi stofnun muni verða hin mesta andlega lífsuppspretta þjóðinni, hin mesta þroskaefling andlegs lífsgróðurs í landinu. Enginn þorir að vega framan að því. Sjá þá ekki allir, að það er verið að reyna að vega launvíg með því að kviksetja þetta frumv. nú af yfirskinsástæðum, bera fyrir galla á efni og máli frumv., galla, sem enginn treystir sér þó til að tilgreina og benda á, svo að hönd verði á fest. Eg skora á þingdeildina að viðlögðum sóma hennar og drengskap að samþ, nú hiklaust og tafarlaust þetta frumv.