28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

7. mál, háskóli

Ráðherrann (B. J.):

Eg ætla ekki að fara að ræða mikið þessa rökstuddu dagskrá, en ætla að eins að lýsa því yfir fyrir mína hönd og stjórnarinnar, að eg tel mjög illa farið, ef hún verður samþ. Þetta kemur ekki fjárhagnum við, það verða einhver ráð til að sjá um að ekki standi á því fé, er nauðsynlega þarf, enda hefir þegar verið hugsað fyrir því. Þetta mikilvæga mál ætti því nú að komast loks til framkvæmdar, eftir margítrekaðar yfirlýsingar þjóðarinnar, og þá verður þessi stofnun reist svo fljótt sem kostur er á. Það má alls ekki sleppa þessu máli eða láta það dragast úr hömlu, því að hér liggur við sómi þings og þjóðar.