26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

8. mál, laun háskólakennara

Framsögumaður (Jón Þorkelsson):

Það er eins ástatt með þetta frv. og hitt um stofnun háskóla, að nefndin hefir ráðið deildinni til þess að samþykkja það óbreytt. — Við höfðum ekki neitt verulegt við það að athuga; að eins hefði eg fyrir mitt leyti kosið, að minna hefði verið smjattað í athugasemdum stjórnarinnar við frumv. á nafni eins manns, en gert hefir verið. Sá maður á af þessu máli engan sóma skilinn. Hann er einn af þeim fáu, sem gerðu máli þessu ógagn fyrrum, og það skal hér nú sagt, að hann gerði ótilkvaddur á sinni tíð alt sem hann gat til þess að eyða því, og reyndi jafnframt á leiðinlega lúalegan hátt að gera þá menn tortryggilega í augum annara, sem málinu vildu koma fram. Eg hefði því kunnað betur við, að menn hefðu haft þann smekk, að þegja um þann pilt í þessu máli, enda hefði eg þá heldur ekki minst hans nú, þó að nafns hans geti eg hér að engu.

Þá eru breyt.till. komnar fram frá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), og þær talsvert stórkostlegar. Í læknadeildinni gerir hann ráð fyrir 1 prófessor og 1 dósent — og 6 aukakennurum, í guðfræðisdeildinni 1 prófessor og 1 dósent. Það er með öðrum orðum, að hinn háttv. þm. vill draga úr öllum kenslukröftum skólans, en það er hið sama og að þrýsta skólanum niður á við.

Þá eru breytingartillögur við 2. gr. Þar leggur hann til, að hvorki byrjunarlaun prófessora sé eins há og frv. fer fram á, né heldur hámark launanna, og læt eg það að vísu vera — en hitt þykir mér ósanngjarnara, að hann ætlar ekki dósentum meira en 2400 kr. í laun, og ætlast þá líklega til þess, að teknar sé 400 kr., bæði af launum fyrra dósents við prestaskólann og af launum dósentsins við lagaskólann, sem bæði eru áður lögákveðin.

Með frumv. eru laun dósentanna ákveðin 2800 kr. og í athugasemdum við stjórnarfrumvarpið er fyllilega gerð grein fyrir því, að þau megi ekki minni vera. Breytingartillögur hins háttv. þm. eru því kynlegri, sem honum hlýtur að vera kunnugt um það, að þinginu hefir nú borist beiðni um launahækkun frá öllum kennurunum við latínuskólann, en það er vitanlegt, að laun latínuskólakennara eru þó allsæmileg og jafnleg í samanburði við laun margra annara starfs- og embættismanna á landi hér. Og þó er beiðni kennara þessara án efa á rökum bygð. Eg álít því breyt.till. þm. ósanngjarnar og til skaða, og að deildin eigi að fella þær. Þingmaðurinn hefir sjálfsagt ætlað með þessu að sýna landsmönnum að hann vilji spara, og fyrir alla muni láta þá sjá það í þingtíðindunum. En hver veit, nema landsmenn geri honum þann grikk, að vera svo skynsamir að sjá, að of mikill sparnaður, of mikil aðsjálni, er oft stakasta ráðdeildarleysi. Það er því ekki alveg víst, að það sé einhlítt fyrir þingmanninn, að tala alt af hátt um »ný embætti með háum launum«.

Frumv. þetta er svo nátengt frumv. um stofnun háskóla, sem á að ganga fram, að þau verða að fylgjast að; deildin verður því að fella breyt.till. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), ef frumv. á að komast í gegnum þingið. Nefndin hefði sjálf breytt frumv. þessu í ýmsu, ef hún hefði séð sér það fært tímans vegna, en hún vildi ekki tefla málinu í hættu.