08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

6. mál, aðflutningsgjald

Gunnar Ólalsson:

Breyt.till. mín er fram komin af því, að skiftar skoðanir eru hér í deildinni um það, hvenær lögin skuli ganga í gildi. Nd. vildi láta þau ganga í gildi 24. febr., en það ákvæði var felt hér við 2. umr., svo sem sjálfsagt var, og skal eg ekki tala frekar um það. En þar sem þingið hefir nú haft þetta frumv. til meðferðar í nærfelt mánuð og þar með gefið kaupmönnum færi á að flytja til landsins miklar birgðir vínfanga í viðbót við það, er þeir hafa flutt þessir, er vissu af frumv. löngu fyrir þing, þá er þetta eina og sjálfsagða ráðið, að leggja skatt á allar vínbirgðir í landinu, þegar lögin öðlast gildi.

Með því er tilganginum náð, að fá tekjur í landsjóð, og um leið hindrað það misrétti, er fram kemur meðal vínsölumanna, þar sem þeir, er birgðum hafa náð áður en lögin öðlast gildi, geta selt svo ódýrt, að hinir alls ekki geti selt neitt

Það er vitaskuld, að þingið á ekki að sjá um þetta beinlínis, og það er ekkert aðalatriði. En það á ekki að hjálpa mönnum til að skjótast undan réttmætu gjaldi, svo sem hér kemur í ljós, ef frumv. verður samþykt óbreytt. Verði þessi breyt.till. mín samþykt, þá kemur hún í veg fyrir allan órétt. Hún eltir engan sérstakan, en gjörir öllum jafn hátt undir höfði, með því að láta borga af öllum birgðum, sem í landinu eru þann dag, sem lögin öðlast gildi. Þegar tollurinn er kominn á, þá hækka kaupmenn eðlilega verð vörunnar eins fyrir því þótt þeir hafi aflað birgðanna áður en tollur lagðist á. Það er ekki kaupmaðurinn, heldur kaupandinn, sem í raun og veru borgar tollinn, og það er ekki ranglátt, að leggja skatt á þessa vöru, þó að fordæmi finnist ekki fyrir því, eins og svo margir tala um nú. Eg vona að þessi stefna, sem eg fer fram á, verði tekin, þegar tollar eru hækkaðir eða nýir tollar lagðir á í framtíðinni. Þá mundu kaupmenn ekki leggja þvílíkt kapp sem nú á það, að flytja mikið inn í landið áður en lögin ganga í gildi, til þess að smeygja sér hjá tollgreiðslunni. Eg áfelli vitanlega ekki kaupmenn, þó að þeir reyni að komast hjá því, að falla undir nýrri tolllög, en það er þingið sem á að sjá um það, að menn skjótist ekki undan réttmætum gjöldum til almenningsþarfa. Það hlýtur hver maður að játa, að ef helmingur af þessum 22 vínsölum í landinu hafa birgt sig upp til heils árs eða meira, áður en lögin ganga í gildi, að þá er tap fyrir landsjóð sjálfsagt 50 þús. kr. eða meira. En ef tollur yrði lagður á birgðirnar, þá er það þó ekki svo, sem sumir halda fast fram, að kaupmenn verði fyrir fjártjóni, missi af réttmætum arði, heldur hitt, að þingið lætur þá ekki leika með sig, gefur þeim ekki færi á að birgja sig upp, á meðan að verið er að búa til lögin, upp á annað en að þeir borgi af þeim birgðum. Ef menn halda að ekkert fordæmi sé til, og án þess virðist nú ekkert vera gjörlegt, þá má benda á lög 1907 um bitter og vindlagjörð. Þeir sem áttu bitter í verzlunum sínum, urðu að gefa drengskaparvottorð um það, hvað mikið þeir hefðu, og gjalda skattinn samstundis.

Þetta var vitanlega alveg rétt, eftir því sem á stóð, svo sem hæstv. ráðh. benti á við 1. umr. þessa máls hér í deildinni. Og eins og það var rétt að leggja skatt á bitterbirgðirnar, svo er það og rétt og sjálfsagt að leggja nú skatt á vínbirgðirnar í landinu, jafnskjótt og lögin um tollhækkunina öðlast gildi.

Það má ekki taka tillit til þess, þó þessi lög komi ekki öllum vel, því að það verður að líta á hag almennings. Kaupmönnum er engi óréttur gerður; það eru þeir sem kaupa, sem verða að borga brúsann, og það er rétt. í tillögu minni er farið fram á að kaupmönnum sé gefinn all langur gjaldfrestur á skattinum, og er það gjört til þess að hugnast þeim, er mestra birgða hafa aflað sér, sérstaklega þeim er fyrir þeirri náð hafa orðið að fá vitneskju um tollhækkunina, á meðan frumv. var í höndum stjórnarinnar.

Þeir eiga það skilið, eða öllu heldur, þeir þurfa þess með, þar sem þeir hafa svo miklar birgðir!