05.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

9. mál, ellistyrkur

Ráðherrann (H. H.):

Frumv. þetta er kunnugt hér í deildinni áður, var lagt fyrir þing 1907 og þá rætt ítarlega.

Þeir hv. þm., sem þá voru á þingi og nú eiga hér sæti muna sjálfsagt eftir því, að frumv. var nokkuð breytt í deildinni, og fyrir ellistyrk í fyrirsögninni var sett: öryrkjastyrk.

Tími vanst ekki til að útkljá það í Ed. og þar dagaði það uppi.

Stjórnin sá ekki, að breytingar þær, er Nd. gerði væri til bóta, þó að æskilegt væri að hafa grundvöllinn sem víðtækastan. eg álít heppilegast að halda sér við ellistyrkinn fyrst í svipinn og hafa hann þó svo verulegan, að hann komi að tilætluðum notum.

Nokkrar breytingar Nd. frá 1907 hafa þó verið teknar til greina.

Háttv. Ed. hefir nú haft frv. til meðferðar, og hefir það þar verið samþ. óbreytt, að öðru en því, að skotið hefir verið inn í 14. gr., að þegar sérstakar knýjandi ástæður séu fyrir hendi, sé sveitarstjórnum heimilt að veita styrk af sjóðnum einnig til manna, sem ekki hafa náð sextugsaldri.

Þetta verð eg að telja varhugaverða breyting, því að hún gæti orðið til þess að sveitarstjórnir færu að nota sjóði þessa til þess að létta skyldubyrðum af sveitarsjóðunum. En það er ekki meiningin með frv., heldur hitt, að styrkja þá, sem ekki leita til sveitarsjóðanna. En þó að þessi breyting sé ekki til bóta að minni hyggju, vil eg samt ekki leggja á móti henni, ef þd. skyldi þykja frumv. aðgengilegra með svo feldu móti. Vona eg að hv. deild taki málinu vel, og geng að því vísu, að nefnd verði sett í það.