08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

6. mál, aðflutningsgjald

Lárus H. Bjarnason:

Eins og Nd. hafði skilið við frumv., áttu lögin að ná gildi frá 24. febrúar, en þrátt fyrir þetta mjög svo athugaverða nýmæli, hefðu lögin þó ekki náð tilgangi sínum. Br.till. háttv. þm. V.-Sk. er að því leyti betri, að verði hún samþykt, þá næst tilgangur laganna, þar sem hún girðir fyrir það, að kaupmenn græði á því að hafa spekúlerað í lögunum. En tillagan hittir ekki aðeins markið, hún fer yfir markið. Eftir henni yrðu allar birgðir, hversu fornar sem væru, tollaðar eftir þessum lögum, sem nú er á ferðinni, en það er ekki að eins harka, heldur er það grimd. Að því leyti til er tillagan miklu verri. Og þó að háttv. þm. kalli gjaldið ekki »toll«, þá er það í rauninni tollur, og því eiga allar þær ástæður við þetta gjald hans, sem eg hreyfði við 1. umræðu. Eg skil annars ekki hvað háttv. þm. gengur til þessarar grimdar. Þessi drekahali, sem háttv. þm. nú er að reyna að klína á frumvarpið, var upphaflega fundinn upp af nefndinni í Nd., en þingmenn þar lögðust svo hart á móti tillögu nefndarinnar, að nefndin sá sér ekki fært að halda tillögu sinni til atkvæða. Tillagan mætti þar svo mikilli mótstöðu, að enda einn háttv. þm. (þm. Vestm.), sem hefði grætt mikið á tillögunni, lagði gagngert á móti henni, áleit hana svo gagnstæða öllu réttlæti og sanngirni, að hún gæti ekki komið til mála.

En hér verður einnig að gæta þess, að þetta gjald er lítilræði fyrir landsjóð, en skiftir hinsvegar miklu fyrir kaupmenn. Aðeins 2 Reykjavíkurkaupmenn pöntuðu vínföng þegar þeir heyrðu að frumvarpið var á leiðinni, og það hæfir ekki að áfella þá fyrir það, þeir gripu að eins það tækifæri, sem hver duglegur kaupmaður mundi hafa notað. Það á því ekki að hegna þeim með háum fjárútlátum. Væri nokkur refsingarverður, væri það þeir, sem ljóstuðu því upp, að frumv. væri á leiðinni. Auk þess sem þetta ákvæði lenti á öllum þeim, sem hafa gamlar birgðir, kæmi það óþarflega hart niður á kaupendum. Það yrði ekki til að draga úr drykkjuskapnum; drykkjumaðurinn myndi súpa sopann sinn eins og áður; það yrði ekki til annars en að minka brauðbita konunnar og barnanna. Mér þykir það ilt, að svona slæm tillaga er komin fram. Rómverjarnir gömlu fóru eftir bono et æquo (sanngirni), þar sem lög náðu ekki til. En hér skal beitt hörku, eða öllu heldur grimd, og slíkur hugsunarháttur er ekki líklegur vottur þess, að vér séum því vaxnir að koma á kviðdómum, sem mig og marga aðra góða menn þó langar til að ætti ekki langt í land. Flutningsmaður till. sagði að tillagan yrði að vera svona, til að girða fyrir, að kaupmenn birgðu sig upp til margra ára. En eg vil segja háttv. flutningsmanni það, að það er óþarfi að setja svo stórt trog undir svo ólíklegan leka, því að skipaferðum er svo háttað nú, að kaupmenn geta ekki dregið að sér meira, þangað til lögin gætu með réttu móti öðlast gildi, sem sé frá og með staðfestingu konungs. Dæmið, sem háttv. þm. nefndi bitterdæmið, er ekki heppilega valið, því að það gjald er framleiðslugjald, enda stóð öldungis sérstaklega á þar, sem voru allar bitterbirgðir Valdimar Petersens, og þau lög áttu ekki að öðlast gildi fyr en eftir venjulegan 12 vikna tíma, svo að þar var leki, sem setja þurfti undir. Eg býst við að ekkert slíkt fordæmi finnist í »det samlede danske Rige«. Því að tilvitnunin í dönsku tolllögin nýju er röng, eins og eg hefi áður drepið á. Það væri jafnmikil grimd að láta tolllög gilda fram fyrir sig, eins og það þykir óhæfilegt, að hegningarlög nái fyrir sig fram. Það væri það sama, og segja kaupmönnum sem nokkrar birgðir hefðu, að hella svo miklu niður af þeim, sem gjaldinu næmi. Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, vona að háttv. deild felli till., en flýti að öðru leyti sem mest fyrir frumv.