16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

9. mál, ellistyrkur

Ólafur Briem:

Það eru breyt.till. mínar á þingskj. 469 og 483, sem eg ætla mér að gera grein fyrir. 1. br.-till. á þgskj. 469 fer fram á það, að gjaldskyldan til ellistyrktarsjóðanna sé ekki takmörkuð við menn yngri en 60 ára. Eftir alþýðustyrktarsjóðslögunum, sem nú eru í gildi, er gjaldskyldan bundin við 2 stéttir, vinnufólk og lausamenn, en nú er henni ætlað að ná til allra stétta. Aftur er aldurstakmarkinu að ofan haldið óbreyttu. Eg þykist vita, að ástæðan fyrir því, að 60 ára aldurstakmarkinu sé haldið, sé sú, að menn á þeim aldri séu miður færir um að bera gjaldið. En þegar þetta nær til allra stétta, þá sýnist ekki vera ástæða til að skilja þessa menn undan, því að fjöldi manna er svo efnum búinn, að gjaldþol þeirra skerðist ekkert, þó þeir nái 60 ára aldri, en séu þeir efnalausir, er þeim veitt sérstök undanþága samkvæmt lögunum.

2. breyt.till. fer fram á, að feldur sé burt stafliður d. í 2. gr., er kveður svo á að þeir sem hafa trygt sér fé til framfærslu eftir 60 ára aldur, að upphæð 150 kr. á ári að minsta kosti, skuli ekki vera gjaldskyldir til ellistyrktarsjóðanna. Ástæðan fyrir þessari undanþágu virðist vera sú, að þessir menn hafi ekki þörf fyrir styrk úr þessum sjóði, og því sé ekki rétt að gera þá gjaldskylda. En þessi ástæða á ekki fremur við um þá menn, sem hér ræðir um, en marga aðra með því að segja má um allan fjölda manna, að þeir hafi hvorki þörf fyrir eða geti gert sér von um styrk úr sjóðnum. Eg ímynda mér, að þessi ákvæði hafi slæðst inn úr öðru frumv., sem hafi verið bygt á alt öðrum grundvelli nfl. að sjóðurinn sé skoðaður sem tryggingarsjóður og í hann legðu menn árgjöldin sem iðgjöld, til þess að tryggja sér árlega upphæð eftir ákveðinn tíma. En grundvöllur þessa frv. er allur annar. Þótt menn leggi fé í ellistyrktarsjóð eftir þessu frv. eiga menn að öllum jafnaði engan beinan rétt til styrks úr honum.

3. breyt.till. á sama þgskj. fer fram á að árgjöld kvenna sé fært úr 75 aur. niður í 50 aura. Í alþýðustyrktarsjóðslögunum, sem nú gilda, er árgjald karla 1 kr. og kvenna 30 aurar. Nú er í þessu frumv. gjald karlmanna hækkað um ? úr 1 kr. upp í 1 kr. 50 a. Eftir sama hlutfalli ætti gjald kvenna að vera 45 a. Nú er að vísu minni munur á kaupgjaldi karla og kvenna heldur en fyrir 20 árum, þegar alþýðustyrktarsjóðslögin voru í smíðum, og væri það eitt út af fyrir sig ástæða til nokkru meiri hækkunar á árgjaldi kvenna. En á hinn bóginn er þess að gæta, að nú liggur fyrir þinginu frumv. til laga um sóknargjöld og eru mikil líkindi til þess að það frumv. verði samþ., ef ekki nú, þá á næsta þingi, og þar er persónugjald til prests og kirkju lagt jafnt á alla, bæði karla og konur, þrátt fyrir það þótt gjaldþol kvenna sé minna; þess vegna virðist mér ekki rétt að ellistyrktarsjóðsgjald kvenna, er einnig kemur niður sem nefskattur, sé hækkað eins mikið og gert er ráð fyrir í frumv.

Breyt.till. á þgskj. 483 hlýtur að standa og falla með 1. breyt.till. á þingskj. 469.