08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

6. mál, aðflutningsgjald

Gunnar Ólafsson:

Háttv. 5. kgk. þm. játaði það, að lögin mundu ná betur tilgangi sínum, ef skattur væri lagður á allar vínbirgðir í landinu, eins og hér er farið fram á, og eins hitt, að lögin kæmu þá ekki sérstaklega ranglega niður á einstökum mönnum. Um þetta hvorttveggja er hann mér því alveg samdóma. En háttv. þm. hélt því fram, að það væri ekki rétt, sem eg sagði, að þingið 1907 hafi tekið upp alveg sömu stefnu með ákvæði 3. gr. í lögum frá 16. nóv. 1907 um gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á bitter. Með leyfi hæstv. forseta vil eg lesa upp greinina eða það ákvæði í henni, sem hér skiftir máli. Það hljóðar svona: »Af birgðum þeim, er fyrir liggja af innlendum vindlum og bitterum, þegar lög þessi öðlast gildi, skal gjaldið einnig greitt.« Ef þetta fer ekki í sömu stefnu, sem breytingartillaga mín, þá veit eg ekki, hvernig það ætti að vera líkara. Háttv. þm. talaði líka mikið um það, að vínið hækkaði í verði, en drykkjumenn drykkju eftir sem áður, og yrði þetta því til þess að taka brauðið frá börnunum o. fl. því líkt. En þetta er æði hæpin röksemdaleiðsla, eða öllu heldur, þetta er hin mesta firra. Eftir því ætti að vera áríðandi að styðja sem mest að því, að vín fengist í landinu með sem allra lægstu verði, og væri þá rétt að lækka tollinn fremur en hækka. En þetta kemur ekkert því máli við, sem hér er um að ræða, því að menn eru einmitt sammála um að hækka tollinn, en breytingartillaga mín fer aðeins í þá átt, að tollaukinn komi jafnara niður, og lögin nái tilgangi sínum. — Það er ekki rétt að kalla það grimd, þó að skattur sé tekinn af ónauðsynlegri vöru og skaðsamlegri. Ákvæðið, sem farið er fram á, að samþykt verði, kemur sér illa fyrir nokkra menn, sem á óleyfilegan hátt hafa komist að því, að lögin voru í aðsigi, en það á ekki og má ekki taka tillit til þess. Ef sú stefna væri tekin, sem ætti að vera, að ný tolllög eða tollaukalög næðu altaf til birgða þeirra sem fyrir voru, þá væri loku skotið fyrir slíkar »spekulationir« framvegis, sem nú hafa átt sér stað. — Háttv. sami þm. hélt því enn fram, að ekkert fordæmi væri fyrir slíku í íslenzkri löggjöf. Þó svo væri, þá væri það engin ástæða, því að ef aldrei má taka upp neina nýja stefnu, ef aldrei má gera neitt, sem ekki hefir verið gert áður, þá verður lítið um nýmælin og lítið um framfarirnar. Það sjá allir, að það dugar ekki að binda sig við slíkt. En fordæmið er til í þessu efni, svo sem eg benti á áður, og ætti það að vera huggun fyrir þá háttv. þingmenn, er berjast móti breytingartillögu minni sakir vantandi fordæma, sem þeir segja. En sem eg álít að sé af nokkru öðru.