15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Framsögumaður (Sigurður Sigurðsson):

Það mun þykja betur hlýða að segja fáein orð til þess að skýra og gera grein fyrir br.till. landbúnaðarnefndarinnar við frv. þetta. — Br.till. nefndarinnar eru aðallega orðabreytingar og ákvæði til skýringar, en engar verulegar efnisbreytingar.

Þá vil eg fyrst geta þess, að nefndin hefir lagt það til, að 1. gr. væri orðuð nokkuð á annan veg, en er í frumv. Efnisbreytingar eru þó mjög litlar en breytingarnar aðallega orðabreytingar. Dálítil efnisbreyting er það samt, að í frumv. stendur að ekki megi rífa fjalldrapa, víði, beitilyng, sortulyng, krækiberjalyng, bláberjalyng né mel, en eins og frumv.gr. er orðuð frá nefndinni, þá er leyft að rífa fjalldrapa eða víði en heimilar skógræktarstjóra að banna það, þar sem hætta er á, að það geti valdið tjóni. En annars hagar víða svo til hér á landi t. d. í Þingeyjarsýslum, að þetta rif er jafnvel nauðsynlegt fyrir ábúendur jarðanna og gerir alls engum skaða. — Ef eftirlitið er gott af hálfu þeirra, sem skóggæzlunni stýra, þá fá þeir nægilegt vald í hendur með þessu og um leið er komið í veg fyrir þau óþægindi, sem af algerðu banni leiða, fyrir ábúendur margra jarða.

Nefndin hefir einnig lagt það til að 3. gr. sé orðuð á annan veg en í frv. Breytingarnar eru þó einnig hér aðallega orðabreytingar.

Samkvæmt frv. gr. er ákvæðið það, sem lýtur að skyldu hlutaðeigenda til þess að fylgja skógræktarstjóra, já-kvætt, en samkvæmt till. nefndarinnar um þetta atriði verður ákvæðið nei-kvætt og kurteisara. Nefndin álítur þó að með þessu verði alveg sama tilgangi náð, þeim tilgangi að menn geti ekki skorast undan að fylgja þessum mönnum, sem hér ræðir um, enda mun ekki ástæða til þess að ætla að bændur fari að neita um fylgd eða aðstoð sína í þessu efni. Íslenzk gestrisni er svo alkunn og reynsla þeirra manna, sem ferðast hafa í svipuðum erindum er nægileg trygging fyrir því. Og fyrir því er réttast að orða þetta ákvæði laganna kurteislega og ekki sem beina skipun.

Þá hefir nefndin enn fremur lagt til að 4. gr. sé orðuð á annan veg en í frumv., en sú breyting fer í svipaða átt og breytingin á 3. gr. Enginn getur bannað umferð um land sitt, en orðalagið er að eins viðfeldnara. Yfirleitt lagði nefndin þó enga sérstaka áherzlu á þessa breyt. 3. og 4. gr., en eg fyrir mitt leyti legg allmikla áherzlu á þær. Eins og eg gat um við 1. umr. þessa máls, er sá hugsunarháttur almennur að teljast ekki undan að fylgja og liðsinna ferðamönnum, og allra sízt þá, þegar þeir eiga í hlut, sem eru kvaddir til að leiðbeina öðrum. Mér fundust ákvæðin, eins og þau voru í frumv. miða að því að búa til hugsunarhátt, sem ekki er til í sveitunum. Og hvorki eg eða nefndin vildi neitt hlynna að slíku og breyt.tillögurnar eru því komnar fram til þess að fyrirbyggja þetta og laga málið á þessum greinum frumv.

Breytingin á 5. gr. frumv. er efnisbreyting. Nefndin hefir lagt það til, að í stað 6000 ? faðma komi 10 dagsláttur. Eg færði þetta atriði í tal við skógræktarstjóra, og honum þótti vænt um þessa breyt., taldi hana til bóta.

Breyt. við 6. gr. er að eins óveruleg orðabreyt., sem nefndin taldi til málsbóta.

Eg hljóp yfir það áðan, er eg talaði um breyt. nefndarinnar við 3. gr. frv., að hún hefir lagt það til að land það sem eigandi eða nothafi skóga er skyldur til að leggja fram vinnu við endurgjaldslaust til að höggva rjóður í skógnum sé fært niður úr 200 ? föðmum í 100 ? faðma. Nefndinni sýndist það nægilega stórt svæði til þess að sýna mönnum aðferðina við að höggva og grisja skóginn.

Þessar breytingar nefndarinnar eru, eins og þegar er sýnt, meira fólgnar í breytingum á orðalagi en verulegum efnisbreytingum. Eg vona, að deildin sjái að þær eru til bóta og taki þeim vel. —