15.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

11. mál, fiskimat

Framsögumaður (Benedikt Sveinsson):

Nefnd sú, sem kosin var til að íhuga þetta mál, hefir ekki fundið ástæðu til að koma með neinar breytingar við stjórnarfrumv. Hún hefir átt allrækilegt tal við yfirfiskimatsmanninn hér í Reykjavík, og kom henni ásamt við hann um það, að varla væri að ræða um neinar breytingar á frumv. til verulegra bóta, enda var stjórnarfrumv. í öndverðu samið með hans ráði. Nefndin leyfir sér því að mæla með því óbreyttu.

Við 1. umr. hér í deildinni var því hreyft, að hér væri verið að stofna ný embætti og það bryti bág við þá meginreglu, sem deildin ætti að fara eftir. En engin regla er án undantekningar og deildin getur með góðum og gildum ástæðum vikið frá þeirri reglu, þegar um jafnmikið nauðsynjamál er

að ræða. Hér er mikið í húfi, því að hagur allra þeirra, er stunda og láta stunda fiskiveiðar er mjög undir því komin, hve vel vér getum trygt oss markað á saltfiski erlendis. Frá Íslandi er árlega fluttur fiskur til útlanda fyrir 5—6 miljónir kr., og sú reynsla, sem fengin er fyrir því, hve miklu þeir tveir fiskimatsmenn hafa áorkað, sem við höfum haft að undanförnu, bendir sannarlega á, að þessu fé muni ekki kastað á glæ. Eg hygg einmitt, að þeim peningum muni mætavel varið, er ganga til þess að hafa fleiri fiskimatsmenn, enda hafa stjórnarráðinu borist bréf frá fiskikaupmönnum á Spáni, er telja mjög nauðsynlegt, að fleiri fiskimatsmenn yrðu skipaðir í landinu. — Hér er ekki smáræði í húfi, að markaður á þessari vöru sé sem bezt trygður, og skal eg rétt til dæmis benda á það, að 10 króna verðhækkun á hverju skip-pundi, sem héðan flytst af landinu þessi árin mundi nema nær einni miljón króna árlega. Og það er engin fjarstæða að ætla, að vöndun vörunnar og trygging sú, er fiskikaupmenn á Spáni og Ítalíu fá með þessu fyrir því, að þeir kaupi ósvikna vöru, muni tryggja verðhækkun og verðlag á fiskinum sem þessu svarar.

Eg vona því, að háttv. deild taki máli þessu vel, og láti það hindrunarlaust ná fram að ganga.