11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

12. mál, laun sóknarpresta

Ráðherrann (H. H.):

Eg býst við að öllum sé kunnugt, hvernig stendur á þessu frv. Á seinasta þingi var sþ. við einhverja síðustu umr. prestalaunalaganna breyt.till., sem ákveður að sextugur prestur í prestakalli, sem breyting á að verða á eftir lögum, gæti fengið laun sín eftir hinum nýju prestalaunalögum, ef breytingin kemst ekki á fyrir þá sök eina, að hann vill ekki aðhyllast hana, en annar prestur sextugur, sem stendur eins á fyrir, getur ekki orðið aðnjótandi sömu hlunninda, af því að breytingin kemst ekki á fyrir sakir hindrana, sem honum eru ósjálfráðar. Það leynir sér ekki, að þetta er ærið ósanngjarnt og virðist liggja í augum uppi, að í ákvæðum þessum er ekkert samræmi, og því ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt að prestar fái að velja um launakjörin í báðum tilfellum.

Eg hefði ekki álitið þörf að taka þetta fram hér, ef það hefði ekki komið fram við umræður hér í deildinni, að þetta atriði var ekki ljóst fyrir öllum þm. — Eg vona að deildin taki málinu vel og lofi því að ganga til 3. umr.