24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

15. mál, námulög

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Það tekur því ekki að eyða mörgum orðum að frumv. á þessu stigi málsins, þar sem nú er aftur tekin sú regla að fresta 1. umr.

Á þingi 1905 lagði stjórnin fyrir þingið frumv. til námulaga; það frv. var illa undirbúið, þýtt í skyndi eftir norskum lögum að mestu, og þó felt úr þeim mjög bagalega. Nefnd var sett í málið í Nd., og lagði hún til, að gerð æri mikilfengleg efnisbreyting á frumv., sem sé sú, að láta námulögin að eins ná til opinberra jarða, landssjóðs-, léns- og kirkjujarða. Nefndin áleit, að hver einstakur jarðeigandi ætti námuréttinn í sinni jörð, og væri því ekki gerlegt að svifta hann þeim rétti. En málið varð ekki útkljáð í það sinn. Samt lagði stjórnin frumv. óbreytt aftur fyrir Ed. 1907, eins og hún lagði það fyrir þingið 1905. En nefnd sú, sem í það var sett, hélt frv. svo lengi, að enginn kostur var að koma að breyt.till. eða setja málið í nefnd í neðri deild, vegna þess hve naumt var orðið fyrir um tímann. Það var því einkis annar kostur en að fella frumv. eða samþ. það óbreytt, og það kusu menn heldur, þó að menn sæju mikil missmíði á því, til þess að skýr vilji þingsins kæmi fram um það, að það ætlaðist til, að námulögin tæki að eins til landssjóðs- og kirkjujarða, afrétta o. s. frv. í Ed. sátu engir, sem praktiskt skyn báru á málið, og því fór sem fór, að lögin urðu svo gölluð, sem þau eru.

Til þess að bæta úr þessu kem eg með þetta frumv., því að eg álít, að breyta eigi lögum þó ung séu, ef missmíði eru á þeim. Eg hefi rekið mig á margt í lögunum, sem missmíði er á, t. d. um fresti, sem ríða alveg í bág hver við annan og þess konar. Menn, sem leita málma, þurfa að verja til þess talsverðu fé, en enginn þorir að verja fé sínu til þess, nema réttur hans sé skýlaust trygður.

Eg vona, að frumv. fái góðar undirtektir. Í þessu frumv. eru ýmsar smábreytingar til þess að gera fyrirmælin skýrari, og ein stórbreyting, þar sem feldur er úr kaflinn um jarðeignarrétt til námugraftar, því sá kafli átti við á meðan námurétturinn átti að ná til allra jarða landsins, en ekki í því móti, sem lögin eru nú. Í Noregi, Þýzkalandi og víðar eiga jarðeigendur ?10 í námu, af því námulögin þar ná jafnt til jarða einstakra manna og opinberra jarða. Og þó það væri meining núgildandi námulaga að láta landssjóð eiga ? hluta í námunum, þá er sá hængur á lögum þessum, að þau áskilja ekki landssjóði þennan rétt nema í öræfum, afréttum og almenningum. Engin ákvæði um það, að landssjóður eða kirkja eigi hlutdeild í námunni, ef hún liggur í landssjóðs- eða kirkjujörð, sem metin er til dýrleika. Yfirleitt eru lögin víða svo gölluð, að enginn veit, hvernig á að skilja ákvæði þeirra.

Eg vil stinga upp á 5 manna nefnd.