08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

6. mál, aðflutningsgjald

Lárus H. Bjarnason:

Eg skal nú játa það, að dæmið, sem háttv. þm. V.-Sk. nefndi frá þinginu 1907, er ekki alveg ólíkt því, sem hér er um að ræða. Eg hélt áður að háttv. þm. ætti við lögin nr. 9 31. júlí 1907, en sé nú að hann hefir átt við lögin frá 16. nóv. 1907. En eg skal jafnframt geta þess, að eg var ekki ánægður með þá aðferð, þó að eg léti hana afskiftalausa, af því, að alveg sérstakar kringumstæður voru fyrir hendi, eins og háttv. 3. kgk. þm. hefir svo ljóslega skýrt frá. Og þó að einu sinni hafi verið gert eitthvað varhugavert, er síður en svo ástæða til að gera það endilega aftur.

Það er annars hart, að konungkjörna liðið á þingi skuli þurfa að heyja baráttu gegn þjóðkjörnum þingmönnum, til þess að verja þá grundvallarreglu frjálsrar löggjafar, að ný lög séu ekki látin verka aftur fyrir sig, að konungkjörna liðið skuli þurfa að vernda frjáls viðskifti borgaranna fyrir slíkri ásælni af hendi löggjafarinnar.

Háttv. þm. Ak. sagði að lögin mundu verða gagnslaus, ef breyt.till. yrði ekki samþykt. Þetta er ekki rétt, því að eins og eg hefi áður bent á, geta kaupmenn ekki héðan af pantað og fengið vörur sendar nógu snemma til þess að sleppa við tollaukann, ef lögunum verður hraðað. Það eru að eins 2 menn hér í bænum, sem hafa fært sér í nyt vitneskjuna um að lögin voru í aðsigi. Eg hefi aldrei kallað þetta óleyfilegt atferli af þeirra hálfu, mennirnir voru auðvitað í fullum rétti og gerðu ekki annað en það, sem hverjir aðrir »góðir« kaupmenn hefðu gert. En þar sem aðeins er um 2 menn að ræða, sýnist lítil ástæða til að samþykkja breytingartillöguna af þeim ástæðum. En háttv. þm. V.-Sk. hefir líklega ætlast til, að kaupmenn skelfdust svo við þetta fordæmi, yrði það að lögum, að þeir þyrðu aldrei að »spekúlera« af ótta fyrir því, að svo kynni að verða farið með þá framvegis, sem nú er ætlast til. Og væri það þá ekki ólíkt einum »dómi« Wallensteins. Til hans var færður maður, sem var ákærður um að hafa stolið hænu. Wallenstein sagði: »Hengið þið hann«. Rétt í því kom maður með þær upplýsingar, að hinn ákærði væri saklaus. »Hengið þið hann samt«, sagði Wallenstein, »því að ef saklaus maður er hengdur fyrir stuld, hve miklu hræddari munu þjófarnir þá ekki verða«. — Líkt þessu hugsa þeir, sem vilja beita grimd við saklausa menn, sem ekkert hafa til unnið annað en að kaupa leyfilega verzlunarvöru og borgað fullan toll af, til þess að menn reyni síður framvegis að »spekúlera« í tollhækkununum.

Eg vil enn fremur ráða háttv. deildarmönnum til að athuga það, að ef þeir samþykkja breyt.till., er þar með dregið úr mögulegleikanum til þess, að láta lögin geta komið í gildi sem fyrst, því að þá þyrftu þau ef til vill að hrekjast milli deilda og enduðu kannske í sameinuðu þingi.