25.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

17. mál, kosningar til Alþingis

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Frumv. þetta er stutt og þarf ekki langt um það að tala. Það er hér flutt eftir almenningsósk í landinu. Það kom fram hér á þingmálafundi í Reykjavík og hefir víðar komið fram á þingmálafundum, að hentara væri að flytja kjördaginn eitthvað fram á haustið.

Kjördagurinn fellur á aðalbjargræðistíma manna, og verður mönnum því mjög erfitt að neyta kosningarréttar síns, einkum sjómönnum.

Færsla kjördagsins í þessu frumv. er miðuð við ósk manna hér í Reykjavík. Nú sé eg, að breyt.till. er komin fram um það atriði, þó að ekki liggi hún nú fyrir, og mun síðar verða að því vikið.

Eg tel sjálfsagt, að verða við ósk almennings í þessu máli, en með því að til greina getur komið að athuga kosningalögin frekar, þá skal eg leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd í málið, einkum með hliðsjón af því, að breytt verði þeim ákvæðum kosningalaganna, sem orkað hafa tvímælis hér á þingi nú í vetur.