10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

17. mál, kosningar til Alþingis

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Frv. það, um breyting á gildandi kosningalögum, er nefndinni var falið til íhugunar, gekk að eins út á að breyta kjördeginum. En nefndin hefir leyft sér að koma fram með tillögur um ýmsar fleiri breytingar á kosningalögunum. Orsökin er sumpart sú, að ýms ákvæði laganna eru óljós og þurfa frekari skýringar, og sumpart sú, að í lögin vanta ýms ákvæði, sem nefndinni þykir nauðsyn að setja inn. En það getur vel verið, að reynslan sýni, að nauðsynlegt sé að breyta fleiri atriðum í kosningalögunum frá 1903, og fyrir því hefir nefndinni ekki þótt ástæða til, að þessar breytingar, sem nú liggja fyrir, yrðu teknar upp í teksta laganna að svo stöddu og lögin þannig breytt gefin út að nýju í heild sinni. Að vísu er hentugast að hafa slíkan lagabálk, sem þennan í einu lagi, en réttast virðist að láta nýja útgáfu laganna bíða, þar til þau eru komin í fastar skorður.