12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

17. mál, kosningar til Alþingis

Einar Jónsson:

Eg álít að breyt. þær, sem frumv. þetta fer fram á, séu kosningalögunum frá 3. okt. 1903 yfir höfuð til mikilla bóta, en hvergi til skaða. Sérstaklega tel eg gott ákvæði 3. gr., að 10. sept, sem sjálfsagður kosningardagur, sé færður til t. d. á fyrsta vetrardag. Úr sjávarplássum eru margir kjósendur burtu frá sínum heimilum 10. sept., ýmist út í sjó, á ferðum eða fiskiveiðum, ýmist við atvinnu á fjarlægum stöðum. Í sveitum er þessi tími einnig álitinn óhentugur vegna heyanna, ferðalaga og annara nauðsynlegra verka, sem ekki standa jafnmikið í vegi, þegar lengra kemur fram á haustið. Hið sama vil eg segja um 4. gr. frumv., að hún miði einnig til bóta og þess sé sannarlega þörf. — Í núgildandi lögum er ekkert nægilegt skýrt ákvæði til um kosningarrétt blindra og fatlaðra manna og hafa þeir því lent í því á sumum stöðum við síðustu kosningar, að vera meinað að greiða atkv., sem þeir að mínu áliti þó eiga jafnmikla heimtingu og sanngirniskröfu til sem hver annar sjáandi og heilbrigður maður. Að lögin séu í þessu falli ekki nægilega skýr, — komi jafnvel í mótsögn við sjálf sig — tel eg að megi sanna með því að athuga nokkrar sérstakar gr. laganna. Í 11. gr. stendur: »Á kjörskrá skal taka alla þá, er heimili hafa, í hreppnum og kosningarrétt hafa, þá er kjörskrá er samin«. Hér er það víst að blindir menn og handarvana geta, sem aðrir, verið sjálfsagðir til að standa á kjörskrá. Og 34. gr. segir: »Engum manni, sem á kjörskrá stendur, má kjörstjórnin meina að greiða atkvæði«. Eftir þessu geta blindir og fatlaðir menn óhikað kosið, en svo koma mótsagnir í 35. og 39. gr., þar sem ákveðið er að kjósandi skuli sjálfur gera kross innan í hringinn við nafn það eða nöfn, sem kjósandi vill velja og láti kjósandi sjá hvað á seðli hans er, er seðillinn ógildur o. s. frv. Hvorttveggja þetta: að gera krossinn í hringinn, og láta eigi neinn sjá hvað á seðlinum er, getur ekki gengið, því að aðstoðarmann hljóta þeir að velja sér til þess að geta kosið. Hér er því um mótsagnir að ræða. Úr þessu bætir áminst 4. gr. frumv. Annars er blindum og fötluðum mönnum óréttur ger með kosningalögunum, gagnvart því sem áður gilti, þegar menn skýrðu frá atkvæði sínu með eigin orðum, en engum mun koma til hugar að þessir menn beri síður skyn á landsmál en aðrir yfirleitt. Eg lengi svo eigi umr. frekar, þar sem háttv. frmsm. (Ó. Br.) hefir svo greinilega skýrt þetta frumv. og rakið efni þess og þýðing.