26.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Þetta er mjög stutt og óbrotið frumv. og vona þessvegna, að það gefi ekki tilefni til andmæla í háttv. þd.

Eg vil þegar taka það fram, að það er leyft að fá undanþágu frá lýsingum, þegar menn kvongast, ef það er presturinn, sem gefur hjónin saman. En um borgaralegt hjónaband er öðru máli að gegna, því að þar er engin lagaheimild til að veita slíkar undanþágur, og verður því að festa upp um það auglýsingar t. d. á götuhornum, svo að heita má að hjónaefnin verði »að hengja sig« í þrjár vikur, áður en þau eru gefin saman. Þetta frumv. fer fram á, að menn fái leyfisbréf til borgaralegs hjónabands með sömu reglum og borgun, er tíðkast við önnur hjónabönd. Einnig finst mér sanngjarnt, að ósk hjónaefnanna um það, hvenær brúðkaupið skuli fara fram, sé af yfirvaldinu tekin til greina eftir föngum. Eg vona að það sem farið er fram á í frv. sé svo sanngjarnt, að það mæti ekki mótmælum.