27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

16. mál, aðflutningsbann

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Mér er það mikið fagnaðarefni, að eiga kost á að flytja þetta mál hér á þingi. Það hefir lengi verið á dagskrá hjá bindindisliðinu, aldarfjórðung eða ríflega það, og gert ómetanlegt gagn. Hefir áður (1900) verið bannaður allur tilbúningur áfengis í landinu, en nú er farið fram á, að þessu böli, áfengisnautninni, sé útrýmt með öllu úr landi voru. Vona eg fastlega, að þetta geti orðið að lögum frá þessu þingi.

Málið er þaulrætt og um það hefir einnig mikið verið ritað, svo að almenningi og þingmönnum sérstaklega mun nú vera það full-ljóst.

Röksemdir með og móti vínnautninni hafa margar verið tilfærðar um dagana.

Bannið á að meina mönnum að ná í áfengið, það á að firra þjóðina öllu því böli, er af vínnautninni leiðir.

Gladstone, hinn merkasti stjórnmálamaður og einn mesti stjórnvitringur á öldinni sem leið, hefir komist svo að orði, að áfengisnautnin, eins og hún gerist í heiminum um vora daga og hefir lengi tíðkuð verið, væri meira heimsböl en allar styrjaldir og drepsóttir, er yfir mannkynið hafa gengið. Og þetta var ekki mælt út í bláinn, heldur hefir það sannast æ betur og betur.

Frumv. þetta er að ýmsu leyti samhljóða frumv. því, er fyrir nokkrum árum (1905) lá fyrir þinginu, þó með breytingum og viðaukum. Er ekki ætlast til, að frá því verði gengið til fullnustu nú, heldur mun því verða vísað til nefndar og hún rannsaki það til hlítar.

Auk venjulegra mótbára gegn aðflutningsbanninu: að það skerði persónulegt frelsi manna, að erfitt muni reynast að fá lögunum hlýtt o. s. frv., skal eg drepa á þá mótbáruna, sem yngst er og nú efst á baugi. Það er tekjutjónið, sem á að leiða af banninu og ekki sé auðgert að bæta.

Mótbáru þessari er margsvarað, enda mjög auðsvarað: Ef þjóðin getur lagt á sig aukagjöld með vínkaupunum, þá getur hún það þeim mun betur án þeirra. Með áfengiskaupunum fleygja menn fé sínu í sjóinn.

Bóndi, sem verzlar í kaupstað fyrir 1000 kr. og kaupir áfengi fyrir 200 kr., hann yrði betur úti, ef hann slepti þessum áfengiskaupum, en greiddi að eins 50 kr. í landssjóð.

En nú verður mönnum á að spyrja: Hvernig verður það skarð fylt, er í tekjugrein landssjóðs hlýtur að koma sakir bannsins?

Flutningsmenn þessara laga hafa ekki gengið gruflandi að þessu; þeir hafa hugsað sér þetta, og leiðin virðist furðu greið.

Gjöldin verða mönnum að sjálfsögðu léttbærari, að sama skapi og eyðslan er minni; þau verða eins ótilfinnanleg og auðið er.

En þetta atriði liggur ekki fyrir nú, og mun eg ekki fara frekar út í það að sinni.

Þá vildi eg drepa lítilsháttar á erfiðleikana, sem taldir eru á því, að lögunum geti verið framfylgt. Mér finst það ofurljóst, að vér Íslendingar stöndum betur að vígi í þessu efni, en flestar aðrar þjóðir. Aðal-ástæðan er sú, að landið er svo afskekt; það eru að eins hafnirnar, er sérstaks eftirlits þarfnast. Og eins og tekist hefir að koma við tollgæzlu, þannig má einnig hafa nákvæma umsjón með aðflutningi öllum.

Samkvæmt lögunum má áfengi hvergi flytjast til landsins nema til Reykjavíkur; alstaðar annarstaðar er það óheilagt og skal gert upptækt. Þó má það ekki flytja til Reykjavíkur öðruvísi en til lyfsala og handa verksmiðjum.

Þm. rekur víst minni til þess, að málið var stöðvað á þingi 1905, það dagaði þar uppi. En jafnframt var skorað á landstjórnina að hlutast til um, að þjóðin greiddi atkvæði um þetta stórmál.

atkv.greiðsla fór svo fram um leið og kosið var til alþingis í haust sem leið (10. sept.). Með banninu greiddu atkv. nál. 4900 kjósendur, en móti 3250.

Þetta var geysimunur, nægur til þess að sýna ótvíræðan vilja þjóðarinnar. Auk þess er það ekki venja að bera mál, þótt stórmál sé, þannig undir þjóðina sérstaklega, áður lögleidd séu.

Málið er því betur undirbúið, en ella gerist; og þeim mun öruggari eru flutningsmenn þess um, að því reiði vel af.

Þess má geta hér, að enda þótt mál þetta snerti alla þjóðina í heild sinni, þá hefir samt ekki nema örlitlum hluta hennar gefist kostur á að greiða atkv. um það. Kvenþjóðin hefir þar ekki fengið að neyta eðlilegs réttar síns, og varðar hana þó málið ekki síður en karlmenn. Á henni lendir alla jafna þyngsta bölið, er hér ræðir um. Það voru heldur ekki nema eldri karlar, hinn rosknari hluti þeirra, sem atkv. greiddu. Og ganga má að því alveg vísu, að kvenþjóðin hefði einróma orðið banninu fylgjandi, ef til hennar kasta hefði komið.

Eg skírskotaði áðan til Gladstone, máli mínu til stuðnings. Vil eg gera það enn, og tilfæra orð hans er kemur til tekjuhalla landssjóðs. Þessi einn hinn mesti fjármálavitringur í heimi á öldinni sem leið, sagði svo: að vandalítið væri að sjá borgið fjármálum þjóðar, sem neytti ekki áfengis.

Auðvitað eru ekki allir Kára líkir, og fæstir jafnmiklir snillingar og Gladstone. Skotaskuld ætti þó engin að verða úr þessu, því að þótt þjóðin íslenzka sé fátæk og miklar kvaðir hvíli á henni, þá verða henni þó byrðarnar léttbærari en öðrum þjóðum flestum, fyrir þá sök, að ekkert hefir hún að segja af kostnaði þeim hinum mikla, er allmörgum öðrum þjóðum háir svo mjög, en það er herkostnaðurinn. Sá kostnaður nemur víða helmingi, sumstaðar miklu meira en helmingi af ríkistekjunum, ef með eru taldir vextir af ríkisskuldum, sem stafa langmest af hernaði og vígbúnaði.

Fylgjendur þessa máls og frumkvöðlar leggja öruggir og ókvíðnir úti þetta, en varlega hefir þó verið farið að öllu. Fresturinn er tiltekinn hátt upp í 3 ár, til þess að nægur tími vinnist til að gera fulla skipun á skattamálum landsins. Og því ætti að verða lokið 1911. Ef þingið 1911 skyldi ekki geta aflokið skattamálum, þá mætti færa tímabilið (frestinn) lengra fram. Við höfum tiltekið áramótin 1911—1912, en hinsvegar mætti þetta vel orðast þannig, að fresturinn skyldi útrunninn, þegar skattamálunum væri komið í kring. En þjóðinni er það áhugamál, að lögin öðlist gildi sem allra fyrst, og fyrir því þótti ekki hlýða að hafa frestinn lengri en til nýárs 1912.

Eg vil svo, að umræðum loknum, leggja til, að málinu sé vísað til 7 manna nefndar, er taki það til gaumgæfilegrar íhugunar.