27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Þótt eg sé á móti þessu máli í heild sinni, er það ekki af því, að eg ekki álíti sjálfsagt að sporna á móti áfengisnautninni. Það er afarnauðsynlegt, það skal eg viðurkenna, en þau ráð, sem hér er farið fram á, eru svo frekleg, að eg get ekki varið það fyrir sjálfum mér að gefa þeim atkvæði mitt og það því fremur, sem eg er sannfærður um, að þessum lögum með öllum sínum harðúðar- og harðneskjuákvæðum mun ekki takast að ná tilgangi sínum.

Það er víst hvorki létt verk né vinsælt, sem eg tekst á hendur, þegar eg nú stend upp til að mótmæla þessu máli, því að undir það eru runnar óvanalega rammar stoðir. Sterkasta félag landsins hefir unnið að því árum saman, fjárveitingarvaldið hefir veitt fé til agítatíónanna, og á marga vegu hefir verið unnið að því að setja það í allra fremstu röð þjóðmála vorra. Þeir sem hafa verið svo djarfir að mæla móti því í blöðum eða á annan hátt opinberlega, hafa þegar verið æptir niður og flestir, sem líka skoðun hafa og eg virðast kjósa að þegja og láta sín sem minst við getið. Það er líkt og með kvenréttindamálið og átrúnaðinn á praktiska og pólitiska þýðing Gamla Sáttmála. Að hafna átrúnaðinum á þetta þrent er hin versta goðgá. Þessi mál má ekki gagnrýna né skýra nema á einn veg.

En eitt getur okkur víst öllum komið saman um, og það er þetta, að hér er um stórmál að ræða, er samkvæmt eðli sínu hlýtur að koma víða við og þarf því að skoðast frá ýmsum hliðum. Það snertir fjárhag vorn, menning og siðferði, og nú vil eg fara nokkrum orðum um hverja þessa hlið, eins og þær koma mér fyrir sjónir við hugleiðing þessa máls.

Það er þá fyrst fjárhagshliðin.

Að undanförnu hefir aðflutningstollur af vínföngum og ölföngum verið ein með drýgri tekju-uppsprettum landssjóðsins. Þessi lind hlýtur auðvitað að þorna, þegar þetta frumvarp verður að lögum og hefir fengið gildi. Ekki má landssjóðurinn við því að missa þetta fé, því að þá yrði óþægileg eyða í hann, og vér verðum að fá það fé á annan hátt, þegar þessi lind er byrgð. Auðvitað er þessu fljótsvarað með því að segja, að ekki verði torveldara að borga sem svarar tollinum í landssjóðinn, heldur en að borga líka verð vínsins fyrir utan tollinn. Teóretiskt er ekki hægt að mótmæla þessu, en í framkvæmd kynni það þó að reynast dálítið óþægilegt, og víst er það, að ráð verður að finna til að auka tekjurnar á annan veg, er tollurinn hverfur. Endurskoðuð skattalöggjöf mun sjá fyrir þessu, munu menn segja, og er vonandi að svo reynist. Og eg skal fúslega játa, að í þessu felst engin veruleg mótbára móti aðflutningsbanninu.

Því er auðvitað haldið fram, að vér mundum spara fé með því að hætta algerlega við að flytja inn vínföng, og hefi eg oft heyrt gert mikið úr þeim sparnaði. En fyrst er þó þess að gæta, að töluvert mun eftir sem áður verða flutt inn með lagabrotum, og í öðru lagi þess, að oft hefir verið gert langtum of mikið úr því, hve miklu fé vér eyðum í að kaupa vínföng frá öðrum löndum. Og hvað er það nú í raun og veru mikið, sem vér borgum árlega út úr landinu fyrir vínföng og ölföng?

Það er auðvitað ekki rétt að taka sem dæmi upp á þetta síðustu árin, árin 1906 og 1907, þegar kaupfýsi Íslendinga hefir staðið sem hæst, því að þá stóð nokkuð sérstaklega á. Þau ár eru því ekki »normal«, ekki meðalár. Eg hefi athugað árin 1901 og 1905 og eftir því sem landshagsskýrslurnar skýra frá, hafa verið keypt vínföng fyrir í alt 1 miljón 82 þúsund krónur. Telji maður nú, að vínsalarnir hafi 40% af sölunni og það er víst ekki of hátt talið og dragi það frá — því að það fer þó ekki út úr landinu, er innlendir veitinga- og vínsölumenn græða — verða 772 þús. eftir. Dragist þar frá tollur og borgun fyrir vínsöluleyfi, sem vera mun 360—370 þús., verða rúm 400 þús. kr. í tvö ár, það er rúmar 200 þús. kr. á ári.

Nú er eftir alt það vín, sem útlendingar drekka og það eru þær víntegundir, sem kaupmenn hafa einna mestan hagnað af. Ef vér gerum ráð fyrir, að þeir brúki ? af víni því, sem flytst til landsins — eg hefi borið þá tölu undir ýmsa menn, þar á meðal kaupmenn, og hafa þeir talið það mjög sennilegt— þá væru það rúmar 100 þús. kr., sem útlendingarnir borguðu, því að auðvitað borga þeir ætíð allra hæsta útsöluverðið, en Íslendingar borga sjálfir í raun og veru ekki nema 100 þús. kr. úr sínum vasa til útlanda fyrir áfengi, ekki nema rúm króna á hvert mannsbarn á landinu og sú þjóð, sem ekki ver meiru til áfengisdrykkju er engin drykkjuþjóð. 100 þús. er auðvitað talsverð upphæð — því skal ekki neita, — en þó ekki svo mikil, að vert sé að rísa á móti henni með slíkum harðúðarákvæðum, Þessar tölur mínar mættu ef til vill verða til að skýra þá fjárhagslegu hlið málsins og sýna fram á, að ummæli aðflutningsbannsmanna og fjálgleika-ræður um þann mikla fjáraustur út úr landinu til vínkaupa á ekki við svo mikil rök að styðjast.

Þá skal eg snúa mér að menningarhlið málsins. Það hefir verið barist hér af miklu kappi á móti ofdrykkju og áfengisnautn yfir höfuð. Í þeirri baráttu hefir Good-Templarareglan átt mestan og beztan þátt og fyrir það ber henni miklar þakkir. Hún hefir unnið það þrekvirki að breyta hugsunarhætti almennings til hins betra í þessu máli og gert margan ofdrykkjumanninn að frjálsum og sjálfstæðum manni. Þetta göfuga og þjóðvæga starf reglunnar og annara bindindismanna hefir dregið ákaflega úr vínkaupunum.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að gefa gætur að því, að þennan tíma, sem bindindishreyfingin hefir starfað, eða síðan um 1880, hefir verzlun landsins vaxið afarmikið. Kaup á öllum útlendum varningi hafa vaxið feikilega, og þá ekki hvað sízt kaup á munaðarvöru. Kaffikaup hafa t. d. vaxið um þriðjung og sykurkaup hafa þrefaldast. Hefði ekki bindindishreyfingin verið er óhætt að telja líklegt, að vínfanganautn mundi hafa vaxið nokkurnveginn að sama skapi. En hvernig er það í raun og veru? — Brennivínsnautnin hefir á þessum sama tíma minkað um ¼, og nautn annara vína um ?, og sé miðað við það, hve mikið nautn annarar munaðarvöru hefir vaxið á sama tímabili, verður niðurstaðan sú, að hefði bindindishreyfingin ekki unnið á móti vínnautninni að undanförnu, þá hefðum vér nú neytt helmingi meira víns, en vér í raun og veru gerum. Þetta er fagurt — þetta er þrekvirki. Já, G.-T. reglan hefir unnið mikið og gott verk að meining vorri. Hún hefir sýnt það öllum öðrum félagsskap betur, hvað samvinna og samheldni hinna mörgu megnar mikils, þegar allir leggjast á eitt, og má þar meðal margs annars benda á þær tiltölulega mjög vönduðu byggingar, sem félagið hefir reist á ýmsum stöðum.

En stærsta afrek félagsins í menningaráttina, og sem eg kalla kraftaverk, er það, hvað félaginu hefir tekist að gerbreyta hugsunarhætti almennings, að því er snertir dykkjuskap. Nú er svo komið, að varla mun nú sá unglingur vera til, sem ekki veit það og finnur, að hann má ekki drekka sig fullan, að það er bæði skömm og skaði, og þar með hefir félagið unnið hið göfugasta og þarfasta verk, og nálgast sitt eigið markmið á hinn fegursta hátt og með hröðum skrefum, því að næsta ólíkur þessu var hugsunarháttur manna fyrir 30—40 árum, og veit eg að allir þeir þm., sem teknir eru að eldast, munu sanna þetta með mér. Þá þótti það lítilmenska eða sérvizka ef unglingar, jafnvel milli fermingar og tvítugs gátu ekki »verið með«, og engin eiginleg skömm þótti það, að vera fullur og með hávaða á almannafæri. Þessi breyting er að mestu verk G.-T.-reglunnar. Þessi aðferð, að verka á hugsunarháttinn, hefir tekist svona vel.

En nú á að snúa við blaðinu.

Eg skal ekki fara mörgum orðum það, hvað framkoma þessa bannlagafrumv. ber vott um. Næst liggur að ætla, að nú sé þetta félag, sem hingað til hefir barist með svo miklum eldmóði og áhuga og orðið svo vel ágengt, að gefast upp í baráttunni. Félagið flýr nú til löggjafarvaldsins og biður það að taka við starfinu af sér, og ætlast til að þetta fagra starf sé framvegis falið lögreglumönnum og njósnurum, og frumv. með sínum háu sektarákvæðum og uppljóstrunarákvæðum skapar nýjan, næsta fjárvænlegan atvinnuveg fyrir njósnara og uppljóstrarmenn. —

Enn er eitt, sem eg vil telja að snerti menningarhlið þessa máls, og það er í mínum augum jafnvel hið allra versta og hættulegasta við þessa löggjöf.

Setjum svo að frumv. nái fram að ganga og verði að lögum, og setjum ennfremur svo, að tilgangurinn náist og ekkert áfengi komi til Íslands. Utanfarir ungra manna til ýmiskonar náms og frama eru mjög að tíðkast, og að líkindum aukast þær, en minka ekki, enda er þess full þörf. Hæstv. ráðherra benti til þess áðan, hvaða augum þeir mundu, þegar fram líða stundir, líta á þetta einræningslega löggjafarstarf vort, forfeðra þeirra. En eg vil halda þessari hugsun nokkuð lengra áfram. Það mundi fara svo eftir eina eða tvær kynslóðir, að óttinn og hryllingurinn fyrir áfengisbölinu mundi verða horfinn úr þjóðarmeðvitundinni, og hvað er þá líklegra, en að þessir niðjar vorir, sem fengið hefðu sinn menningarþroska erlendis, og þá réðu lögum og lofum á landi hér, mundu telja sér skylt að nema þessi bannlög, þetta skrælingjamerki af þjóðinni? — Og hvernig færi þá? Ætli það gæti ekki orðið líkt því, þegar áfengir drykkir hafa verið fluttir inn til þeirra þjóða, sem áður höfðu ekki til þeirra þekt? — Afleiðing þess hefir, eins og allir vita, orðið sú, að þeir aumingja menn hafa fallið unnvörpum fyrir áfenginu, og heilir þjóðflokkar eyðilagst, og þetta, sem eg nú hefi drepið á, er í mínum augum hið versta og hættulegasta af öllu við þessa löggjöf.

Hvernig sem eg því velti þessu efni fyrir mér, þá get eg ekki komist að annari niðurstöðu en þeirri, að hér sé einmitt að ræða um verulegt spor aftur á bak frá sannri menning. —

Þá er siðferðishliðin.

Á þessu tímabili bindindishreyfingarinnar hefir löggjafarvaldið sett ýms ákvæði, til þess að sporna við frjálsri sölu áfengra drykkja. Sú hefir orðið afleiðing þess, að nú eru að eins fáir staðir á landi voru, þar sem heimilt er að lögum að verzla með áfengi. Þessi hlið blasir við öllum, og munu margir telja hana góða. En þetta hefir og aðra hlið, og hún er ekki jafn fögur. Leyni-innflutning, leynisölu og tollsvik hafa menn lært af þessu. Fjöldi manna hefir tekið þátt í þessum lögbrotum beinlínis eða óbeinlínis, og allir þeir menn eru verri menn eftir en áður: þeirra siðferði hefir spilst. —

Verði nú þetta frumv. að lögum, mun freistingin til lögbrotanna margfaldast, því að mannlegu eðli er svo varið, að eftir því, sem fastar er reyrt, því ákafar brjótast menn um í böndunum. —

Það er algerlega röng uppeldisaðferð, bæði við unga og gamla, þjóðfélög sem einstaklinga, að taka freistingarnar af vegi þeirra með banni, og mun ávalt veikla siðferðiskraftinn, og það ekki síður, heldur einmitt miklu fremur, þegar hegningarákvæðin eru hörð og grimm, eins og á sér stað í þessu frv., þessum nýja Stóradómi. Allir kannast víst við sögurnar um Stóradóm gamla á 16. öldinni og afleiðingar hans. —

Eg nefndi áðan hina nýju atvinnu, sem verið væri að stofna hér, njósnaraatvinnuna, sem á að verða vel launuð, eins og sést af sektarákvæðum frumv. Þar er unnið að því, að efla það versta og ódrengilegasta í manneðlinu, beinlínis »spekúlerað« í því.

Verði frumv. þetta að lögum, þá bakar það oss allverulega fjárhagslega erfiðleika; það er spor aftur á bak, að því er menning snertir og hefir í sér fólginn reglulegan voða fyrir menning vora í framtíðinni, og það spillir mjög sönnum siðferðisþroska vorum. Fyrir þessu þykist eg hafa fært allgóð rök.

Eg hafði ætlað mér að minnast á enn eitt verulegt atriði þessa máls, nefnilega framkvæmdarhliðina, einkum um horfur málsins með tilliti til Spánarsamningsins. En eg get að mestu sparað mér það, því að hæstv. ráðh. (H. H.) hefir skýrt það svo vel. Þó vil eg benda á eitt. Mundi ekki geta farið svo, að svo yrði litið á hjá stjórninni í Danmörku, einmitt með tilliti til Spánarsamningsins, að hér væri farið út fyrir takmörk sérmálasvæðisins? — Þá mundi konungur synja lögunum staðfestingar, og ráðherra sá, er bæri málið fram, yrði að fara frá völdum. Stjórnarskifti svona hvað ofan í annað mundi enginn telja æskileg, og heldur ekki að gefa Dönum tilefni til að beita valdinu. —

Þingið á að fella þetta mál hiklaust, og reyna til að láta sem minst á því bera, að því hafi dottið í hug að setja svona lög. Sú niðurstaða væri langbezt fyrir alla, og þykist eg nú hafa gert grein og fært rök fyrir þessari skoðun minni.