27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

16. mál, aðflutningsbann

Eggert Pálsson:

Eg er einn af flutnm. þessa frv., en eg get hæglega kannast við, að á því kunni að vera ýmsir gallar meiri eða minni. En eg hygg þó, að þeir séu flestir þess eðlis, að auðvelt verði að laga þá í nefnd, sem í málið verður að sjálfsögðu sett. En þótt eg sé einn af flutnm. frumv. ætla eg ekki að halda fyrir því langa meðmælaræðu, þess gerist ekki þörf. Það mælir að minni ætlun bezt með sér sjálft. Mál þetta hefir í raun og veru verið á dagskrá þjóðarinnar fullan aldarfjórðung. Og þessi aldarfjórðungs barátta hefir einmitt sýnt fleiri og fleiri mönnum ótvíræðilega, að bann þetta er með öllu nauðsynlegt. Bindindishreyfingin hefir bjargað mörgum manninum frá skipbroti á ólgusjó freistinganna, það er víst og satt. Hún hefir gerbreytt mjög hugsunarhætti þjóðarinnar. Þótt hún ætti hér á landi fyrst í stað allörðugt uppdráttar, þá eru nú flestir orðnir sammála um það, að hún hafi gert ómetanlegt gagn fyrir land og lýð. En þótt hún hafi þannig miklu og góðu til leiðar komið, þá sýna skýrslurnar það ótvíræðilega, að mikils áfengis er enn þá neytt í landinu og að brýna nauðsyn beri því til að óhikað sé stefnt að aðaltakmarki bindindishreyfingarinnar: útrýmingu als áfengis úr landinu. Þetta takmark hefir líka mikill meiri hluti þjóðarinnar viðurkent gott og göfugt. Með atkv.gr. 10. sept. hefir þjóðin sýnt, hvað hún vill að gert sé í þessu máli. Það er ekki rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þá atkv.gr. hefði ekkert verið að marka, af því að menn hefði brostið þrek til að greiða atkv. á móti aðflutningsbanninu. Á slíku þreki þurfti alls ekki að halda. Við þá atkv.gr. gat hver einstakur látið sína eigin skoðun ráða fyrir sig, einmitt af því að atkv.gr. var leynileg. Og einmitt vegna þeirrar atkv.gr., verður að lögleiða aðflutningsbannið, hvort sem hinum einstöku fellur betur eða ver. Annað væri óafmáanleg lítilsvirðing á vilja þjóðarinnar.

Háttv. þm. Barð. (B. J.) tók það fram með réttu, að stór hluti þjóðarinnar, nefnilega kvenfólkið, sem væri eindregið fylgjandi þessu máli, hefði ekki átt atkv. um það, og víst er um það, að hefði kvenþjóðin tekið þátt í atkv.gr. hefði munurinn orðið stórkostlega miklu meiri en hann varð. Og þegar því tekið er tillit til vilja þessa hluta þjóðarinnar, þá á aðflutningsbannið þeim mun meiri rétt á sér. Mjög hefir verið minst á það, hve miklu landssjóður tapi, þar sem vínfangatollurinn er, ef aðflutningsbann yrði lögleitt, en þess eigi nægilega gætt, hversu mikið græðist líka í raun réttri á hina hliðina við bannið. Menn eyða ekki að eins miklu fé heldur og tíma við nautn áfengra drykkja. Og tíminn, sem til þess eyðist, er peningar, sem ekki verða aftur fengnir. Auk þess mætti líka benda á ýmsa hættulega sjúkdóma, er stafa af vínnautninni, sem valda svo miklu tjóni, er eigi verður með tölum talið. Þá hefir því og verið haldið fram sem ástæðu gegn bannlögunum, erfiðleikarnir er í því lægju að sjá um að þeim yrði hlýtt. En þeir eru ekki eins miklir og margur heldur. Áfenginu er svo varið, að það kemur upp um sig sjálft, þegar þess er neytt. Auk þess hagar svo til hjá oss, að það er als eigi hægt að fremja slík brot, sem hér er um að ræða, nema með samverknaði annara og það því harla ólíklegt að menn vildu gjarna hætta sér út í slíka samvinnu.

Hæstv. ráðh. benti á til hve mikils tjóns slík lög sem þessi gætu orðið, og nefndi í því sambandi, að þau gætu spilt okkar saltfisksmarkaði á Spáni. Hvort hætta er á því eða ekki skal eg ekkert um segja. En þótt svo yrði, sem eg tel fremur ólíklegt, þá yrði þjóðin að sætta sig við það, úr því að eftir eindregnum vilja hennar er farið í þessu máli.

Enn fremur voru þeir sammála um það, hæstv. ráðh. og háttv. 1. þm. S.- Múl. (J. J.), að útlendingar mundu hætta að ferðast hér á landi, eftir að bannlögin gengju í gildi. En eg get ekki með neinu móti talið það sennilegt að svo mundi fara. Eg held þvert á móti, að útlendingar mundu jafnt eftir sem áður ferðast hér, þeir sem oss mega að nokkru gagni verða. Þótt forfallnir drykkjumenn létu bannlögin hindra sig frá að koma eða ferðast hér, getur ekki talist oss til tjóns eða ógagns.

Þá hefir því líka verið haldið fram sem ástæðu gegn bannlögum, að þau mundu hafa siðspillandi áhrif á æskulýðinn, sem er sú mesta fjarstæða, sem hugsað verður, því það er eða á að vera hverjum manni auðsætt, að algert aðflutningsbann áfengra drykkja hlýtur að verða til gagns og sóma fyrir alla, en ekki sízt fyrir hina uppvaxandi kynslóð, er losnar þá við alla þá siðspillingu, sem áfenginu jafnan fylgir meiri eða minni og hlýtur að fylgja.