27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

16. mál, aðflutningsbann

Stefán Stefánsson:

Það er hvort tveggja, að eg hefi verið hlyntur þessu máli nú um nokkur ár, eða frá því eg fyrst fór verulega um það að hugsa, og enn fremur, að mikill meiri hluti þeirra kjósenda í mínu kjördæmi, er atkvæði greiddu um málið á síðast liðnu hausti, voru bannlögum fylgjandi, svo að mér hefir verið það bæði ljúft og skylt, að gerast einn af flutningsmönnum þessa frumv.

Það er sjálfsagt margt í frumv., sem taka þarf til frekari athugunar, en vér flutningsmenn höfum haft kost á að gera, enda væntum vér þess, að nefnd verði skipuð í því augnamiði, og vil eg í því sambandi geta þess, að allmörg ákvæði í frumv. eru jafnvel enn strangari, en hér mun venja til. — Enn fremur vil eg geta þess, að vafasamt er, hvort tíminn til þess, er lögin öðlast gildi er nógu langur. Mér dettur í hug, hvort eigi muni heppilegra að ákveða, að bannið kæmist ekki á fyr en 1914 eða 1915 í stað 1912, vegna þeirra vínsöluleyfa, sem þegar hafa verið veitt, en sem þá í munu all-flest útrunnin.

Hvað undirbúning þessa máls snertir, þá hefir verið að honum unnið af meira frjálslyndi en jafnvel til nokkurra annara löggjafarmála vorra. Hver kjósandi hefir getað öldungis frjáls og óþvingaður lagt sinn úrskurð á það, og frá þeirri hlið skoðað, þá hefir málið nú sín góðu meðmæli. — En þetta atriði er mjög mikilsvert.

Það hefir verið dregin fram sú ástæða, að lögin yrðu óframkvæmanleg og til þess eins að knýja fram þá eiginleika í mannseðlinu, sem væri óheiðarlegastir. Ef barátta góðtemplara og allra manna, sem þetta mál hafa stutt, hefir að þessu miðað, þá væri illa farið. En eg hygg, að það sé þvert á móti. Barátta þeirra hefir miðað að því, að fyrirbyggja þetta. Ef litið er til þess, hversu leyniknæpur eru sagðar að þrífast nú, þá geta sízt orðið meiri brögð að því en er, því það er enginn efi, að vandaminna er að framfylgja þessum lögum, en þeim lögum, sem nú eru. Vér höfum reynsluna um það, sem hefir verið og er og hún er alt annað en góð, en að vísu enga vissu um framtíðina, en líkurnar virðast mér betri.

Ein ástæða mótmælenda þessa frv. er sú, að unglingar muni síður standast freistingar áfengisins, er þeir koma til útlanda, en fyrir því óttast eg ekki svo mjög; bæði fara ekki svo óþroskaðir unglingar til útlanda, að þeir ekki að öllum jafnaði sjái fótum sínum forráð, og auk þess munu foreldrar innræta börnum sínum, hve skaðleg vínnautnin getur verið, engu síður en nú, enda ekki ósennilegt, að þekking á skaðsemi áfengis verði fremur kend og innrætt unglingunum frá hálfu hins opinbera hér eftir, en hingað til hefir átt sér stað.

Þá hefir verið bent á það, að hlunnindi þau, er vér njótum á Spáni á sölu á íslenzkum fiski mundu ekki halda áfram, kæmist í lög aðflutningsbann á áfengi. Þetta virðist mér fremur ólíklegt, vegna þess, að hingað flytst svo sára lítið af spönskum vínum, svo Spánverjar mundu lítils í missa, þótt bannið kæmist á.

Eg minnist þess enn fremur, að á þingmálafundi, sem haldinn var fyrir fáum dögum hér í Reykjavík var því hreyft, að fiskimarkaður mundi ef til vill vera eins góður í Hollandi, og í það minsta hefði íslenzkur fiskur selst þar fult svo vel á síðastliðnu sumri. Hver veit nema markaður opnist í fleiri löndum fyrir þessa aðal-vöru landsbúa, sé vel eftir honum leitað? — Geti aðflutningsbannið leitt til þess, að betur verði eftir þessu grafist og útvegað, þótt óbeinlínis sé, betri markaði, þá kalla eg ekki illa að verið.

Eg er ekki góðtemplar né í nokkurum þess konar bindandi félagsskap, en eg tel málefnið gott og fylgi því með þeirri fullu sannfæringu, að hér sé að vinna fyrir eitt mjög mikilsvert velferðarmál þjóðfélagsins.

Eg vona að lokum og treysti því, að nefndin, sem kosin verður, stuðli að því, að gera frumv. sem allra bezt úr garði, svo þjóðin geti tekið lögunum, sem kærkomnum gesti.