27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Þorkelsson:

Þótt háttv. 2. þm. Arn. (S. S.) tækist ekki nú heldur en endranær að tala fólk inn í salinn, þá tókst honum þó að fipa mig í ýmsu því, sem eg hafði ætlað að segja. Þó skal eg nú lýsa minni skoðun á málinu. Eg virði verk bindindismanna stórmikils og álít það gott og þarft og hreyfing þá holla, er þeir hafa vakið, á meðan hún gengur í þá átt að hafa áhrif á hugsunarhátt manna og sómatilfinning. En þegar hún tekur að seilast lengra, þá er það álitamál, hvernig meta skuli starfsemi þessa, og hvernig því beri að taka. Að bindindishreyfingin hafi haft mikil og góð áhrif í þá átt, sem eg áður benti á, er augljóst. Áður þótti það höfðingsskapur að drekka mikið og helzt að láta illa. Nú þykir mönnum vanvirða að svifta sjálfa sig vitinu með áfengisnautn, svo mikil eru umskiftin orðin. Þetta er verk bindindishreyfingarinnar, og því neita engir, að hér er gott og mannúðlegt verk unnið. En nú gefur hér á annað að líta og nú kemur annað til skjalanna, sem er það, að banna allan aðflutning áfengra drykkja til landsins. Þetta er önnur hlið málsins. Og kemur þar þá til álita, hvort það verkið geti talist mannúðarbragð, samboðið siðuðum og sjálfstæðum mönnum. Verði aðflutningsbannið sþ. hlýtur bindindishreyfingin, sem svo miklu góðu hefir komið til leiðar, að sjálfsögðu að leggjast niður; þá getur ekkert verið fyrir hana að starfa annað en að gerast uppljóstrarmenn í þarfir aðflutningsbannsins. Því að með frumv. þessu á að löghelga söguburðarmenn, sem sumpart fara vitanlega með rétt og sumpart með rangt mál. Þessir menn eiga að hafa í laun helming sektarfjárins, þeir eiga að vera embættismenn hins opinbera, opinberir njósnarmenn settir á landssjóðs laun. Varla getur hjá því farið, að slíkt hafi siðspillandi áhrif og minki sómatilfinning manna, og virðist varla geta verið réttarbót í slíkum lagaákvæðum. Það munu og flestir sjá, að þessi stefna fer í alveg gagnstæða átt við bindindisstarfsemina, sem hingað til hefir heill mikil og siðbót af staðið. Í staðinn fyrir mannúðar og kærleiksverk eiga nú af hendi bindindismanna að koma harðræði og ofríki með miskunarlausum laga-strangleik og óbilgirni, svo sem þetta frumv. sér líkast sýnir og hermir. Hér er því alvara á ferðum og athugunarefni nóg.

Það var tekið út af dagskrá mál hér í dag, vegna þess að það þótti koma of nærri stjórnarskránni. Eg fæ nú ekki betur séð, en að með sama rétti hefði mátt taka þetta mál út af dagskrá. Hér í tveim greinum þessa frv. er eftir mínum skilningi farið fram á algert brot á 50. gr. stjórnarskrárinnar.

Í niðurlagi 4. gr. frumv. segir á þá leið, að víni því, sem óselt er, þegar lögin ganga í gildi, skuli helt niður. Hugsa flutningsmenn sér, að vín það, sem er lögmæt eign þessara manna, áður en lögin ganga í gildi, skuli eyðilagt, án þess að þeir fái nokkurt endurgjald? Eða ætlast þeir til að þessu sé framfylgt samkvæmt stjórnarskránni og að fult verð komi fyrir? Ekki verður þó séð, að það sé hugsunin, og rekur því að því, sem eg taldi fyrr.

Þá er í 9. gr. farið fram á það, að taka verzlunar- og vínsöluleyfi af mönnum þeim, er það hafa, þegar lögin ganga í gildi og ekki er tekið fram að þeir skuli fá nokkurt endurgjald í staðinn. Nú stendur svo á, að sumir hafa fengið þessi leyfi fyrir löngu síðan og hafa borgað þau offjár og greitt tekjuskatt af þessari eign sinni, er þeir hafa keypt fyrir sína eigin peninga. Er það nú meiningin, að þessir menn eigi að fá endurgjald af fé landsins, eða er það meiningin, að þessi lög eigi að vera nokkurs konar ránsheimildarskrá, er ræni menn rétti þeim, er þeir nú hafa yfir eign sinni að lögum?

Eg mundi að vísu, samkvæmt atkvæðagreiðslu þeirri, sem framfór síðastliðið haust hér á landi, geta greitt atkvæði með aðflutningsbannslögum, þeim einum þó, sem væru hógvær og skynsamleg. En af þessu frumv., sem hér liggur fyrir nú, stendur mannúðarleysis-gustur, harla ólíkur þeim hugðnæma andvara, sem hingað til hefir staðið af líknar- og mannúðarstarfsemi bindindishreyfingarinnar.

Það eru svo mörg ákvæði um gífurlegustu hegningu og brot í frumv. þessu, að það er útlit fyrir, að landið þyrfti að veita stórfé til þess að byggja viðbætur við tiptunarhúsin í landinu, ef frumv. þetta næði fram að ganga. Það eitt út af fyrir sig gæti orðið útdráttarsamt fyrir landssjóð, þó að ekki væri hugsað til að bæta mönnum það að neinu, að þeir væri ræntir löglegri eign sinni. En það atriði hlyti þó að verða dómstólamál, og þau mál yrðu mörg eftir þessu frumv. að dæma. Mörg ákvæði frumv. eru þannig vaxin, að eg get ekki með neinu móti samþykt þau óbreytt, svo sem það, að jafnvel flutningatæki skuli gera upptæk. Mér er spurn: Gangi maður með »pytlu« í hendinni, á þá að höggva hendina af eða á að gera manninn sjálfan upptækan og selja hann til ágóða fyrir landssjóð? Eða hafi maður pela í buxnavasanum, á þá að gera buxurnar upptækar? Eftir frumv. má ekki einungis gera manninn sjálfan upptækan, ef hann flytur vín milli bæja, heldur einnig hest og vagn, þótt sá, er vagninn og hestinn ætti, vissi ekki til að maður sá, sem hann léði far í vagninum, hefði neitt áfengi meðferðis. Og svona mætti halda áfram að rekja öfgar frumv. á ótal vegu. Frumv. er eins og það liggur fyrir handarskömm og háðung fyrir þingið, að það er komið fram svona úr garði gert.

Eg skal ekki vera beint mótfallinn aðflutningsbanni, ef fundin verður hógvær aðferð. Lögin verða að vera svo hófleg, að góðum mönnum sé vært á eftir í landinu. Eg er ekki bindindismaður, en eg efast þó um, að sumum Good-Templurum þyki verri ofdrykkja en mér. En eg álít, að með þessu frumv. sé málinu stofnað í þann háska, að torvelt mundi verða að koma því aftur á þann rekspöl, er góðir menn mættu við una, nema nú sé þegar gerð gangskör að því að snúa frumv. þessu til þess skynsemdarhorfs, sem þörf er á.

Eg skal ekki fara út í það, hver áhrif lög þessi mundu hafa á verzlun landsins út á við, því hafa háttv. þm. svarað í þessari deild.

Hinir áköfustu aðflutningsbannsmenn telja þjóðsóma við liggja að koma banninu á, telja veg lands og þjóðar mundu vaxa í augum alls heims með því. Mótstöðumenn bannsins telja aðflutningsbannið þjóðarháðung, er merki landslýð allan undir ósvikult skrælingjamark í augum allra siðaðra manna. Þeir um það.

Frá mínu sjónarmiði sýnist mér ekki rétt að meina landsmönnum að reyna sig á aðflutningsbanni, úr því að meiri hluti kjósenda greiddi atkv. með því við síðustu kosningar. En það skil eg undir í þessu máli mínu, að lög þessi — ef úr frumv. þessu verða lög — séu borin aftur undir þjóðina, því að engin lög lágu fyrir í ákveðnu formi, þegar greidd voru atkvæði um málið síðasta haust, heldur að eins hitt, hvort menn vildu aðflutningsbann eða ekki. Ætla eg, að margir muni ekki hafa gert sér aðra grein fyrir því en þá, hvort þeir vildu heldur ofdrykkju eða bindindi, og var svarið þá sjálfgefið. Samþykki landsmenn á nýja leik aðflutningsbann, eftir að hafa séð lögin, er það að mínu áliti hin öflugasta stoð fyrir bannsmenn og lögin réttmæt, og ómögulegt að segja, að þá hafi verið laumast að þjóðinni með málið. Neiti landsmenn við nýja atkvæðagreiðslu aðflutningsbanni, þá eiga lögin aldrei að koma til framkvæmda.