27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

16. mál, aðflutningsbann

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Eg get ekki annað sagt, en að mér hafi þótt það vænt að heyra röksemdir hæstv. ráðgjafa í þessu máli,— þótt það mjög vænt, því að hann hygg eg að muni vera hinn langsnjallasti og rökfimasti málsvari Bakkusar á þessu þingi og á þessu landi. Eg hygg að í hans ræðu hafi verið tjaldað því sem til er af vörn í því máli; hann sé sjálfkjörinn fulltrúi þess málstaðar.

Því var það, er mér þótti vænt að heyra röksemdir hans. Mér þótti vænt að sjá, hve margar af þeim grýlum, er upp hafa verið vaktar í móti aðflutningsbanns-hugsjóninni, hve margar af þeim eru steindauðar. Eg geng að því svo sem sjálfsögðu, að þær séu komnar undir græna torfu, úr því að hann hreyfði ekki við þeim.

Eg minnist þess, að um þetta mál hefir ekki verið rætt svo áður hér á þingi, að ekki væri bannlög á vínflutningi talið óbærilegt haft á persónulegu frelsi manna. Þá grýlu mintist ekki hæstv. ráðgjafi á einu orði. Hann veit að sjálfsögðu, að líf í lögbundnu mannfélagi dregur þá mörgu dilka á eftir sér, er grunnhygnir menn, sérgóðir og ófélagslyndir kalla margir höft á frelsi sínu.

Enn meira gladdi það mig, að honum þótti það engin röksemd í málinu, að landssjóður biði tjón af því, ef bannlög kæmust á. Enda ætti hver maður að sjá, að hér er of fjár fleygt í sjóinn. Hvað kemur í þess stað? Ekki neitt? Jú, það er of gálauslega til orða tekið. Vér fáum í stað þess ólyfjan, eitur, siðspilling, heimilisbölvun, þjóðfélagsmein.

Hans aðalröksemd, ráðgjafans, var — Spánarmarkaðurinn!

Eg ætla að svara smá-atriðunum fyrst, og koma síðast að þessari meginstoð hans málstaðar.

Hann kvað svo að orði, að vér færum að gera oss sjálfir að Eskimóum, ef vér færum að votta það fyrir öllum heimi, að hér væri þeir vesalingar, er ekki gætu stjórnað þessari fýsn sinni, áfengis-ílönguninni, nema með svo ströngu banni.

Eg verð að leyfa mér að segja, að eg ætla að þjóð vorri sé ekki sérlega mikil læging gerð, þó að hún komist í þeirra Eskimóa tölu. Eg veit ekki betur, en að allar þjóðir um norðanverða álfuna og víðar þó miklu (í N,- Ameríku t. d.) vildu fegnar gera sig að slíkum Eskimóum, ef þeir sæi nokkur tök á því, sjálfsagt 9/10 af hverri þjóð. Hverjir eru þeir, sem berjast gegn því? Ekki drykkjumenn. Þeir vildu fegnir losna við það böl mjög margir hverjir, ef þeir gætu; þeir finna þörfina á því manna bezt. Ekki hófsmenn heldur nærri því allir. Að minsta kosti engir hygnir hófsmenn. Þeir hugsa á þá lund, að sá tollur, er þeir eigi litla sök á að sé til, hann komi raunar jafnt niður á saklausa og seka, á alt þjóðfélagið, geri allar álögur á almenningi þyngri en ella, þegar öllu er á botninn hvolft, með því að þyngslin af þeim mönnum, er gera sig ófæra af áfengisnautn, komi ekki hvað sízt niður einmitt á þeim, hófsmönnunum, reglumönnunum, og sé meira en tilvinnandi að neita sér um þann lítilvæga munað, til þess að komast undan þeim álögum.

Nei, mótspyrnan er veitt af hendi auðvaldsins, ölgerðarmannanna, eigenda áfengisstofnananna. Þeir eru aðalþröskuldurinn erlendis. Nú er engri slíkri mótspyrnu til að dreifa hér á landi. Slíkir menn eru hér engir til. Atvinna þeirra er landræk gerð hér fyrir löngu (1900).

Það eru þessir menn, sem látnir eru ráða í öðrum löndum. Tökum t. d. England. Þar mun ekki vera ofmælt, að 9/10 þjóðarinnar vilji afnema áfengisnautn í landinu. En 1/10 er látinn ráða. Og fyrir hvað er það? Mest fyrir þá sök, að þeir búa undir því böli, að hafa tvískift þing, þessu, er hér var rætt um lítilsháttar á dögunum og eg vona um, að eigi eftir að verða afnumið með oss hið bráðasta.

Fyrir 2—3 mánuðum eða svo var samþ. í neðri málstofunni í parlamentinu mikil takmörkun á veiting og sölu áfengra drykkja, en var felt í efri málstofunni. Því að þar var fyrir óvígur her vellauðugra ölgerðarmanna og hvers konar áfengis, og sægur annara auðkýfinga, sem eiga eða hafa vald á miklum hluta allrar áfengissölu í landinu. Það atferli mæltist svo illa fyrir alstaðar í landinu, að nú er risinn gegn efri málstofunni nýr stormur, sá er óvíst er hvar lægir.

Því er það, að eg fyrirverð mig ekki, né tel þjóð vora þurfa að fyrirverða sig, þótt talin sé með Eskimóum, ef þetta er Eskimóamark.

Eitt er það, er ekki hefir verið vikið að í þessum umræðum: Hvað skyldi landssjóður hafa þurft og þurfa enn að svara út miklu þeim mönnum, er velst hafa úr embætti og á eftirlaun fyrir þá sök, að áfengið hefir gert þá alsendis óverkhæfa?

Þá er ein röksemd ráðgjafa sú, að aðflutningsbann dragi úr ferðamannastraum til landsins.

Þetta er af tómri vanþekkingu talað og misskilningi.

Eg tel engan vafa á, að ferðamannastraumurinn mundi þvert á móti aukast að miklum mun fyrir þá afarmikilsverðu framför, að áfengisneyzlu væri útrýmt úr landinu. Allir, sem málið hafa kynt sér vita, að það er hugarburður einn, að vínið dragi það mikið að sér ferðamenn. Útlendir ferðamenn koma hingað til að lyfta sér upp. Þeir fara til að losna út úr sukki og svalli stórborgalífsins, norður í himintært fjallaloftið.

Eg skal nefna dæmi, er vér höfum fyrir oss, þá er Þingvallaskýlið var reist, Valhöll. Þá gerði sýslunefndin í Árnessýslu það sómastrik, að hún synjaði eigendum skýlisins um, að mega veita þar áfengi. Þá var ekki grýlan sú sein á fætur, að þessi synjun mundi fæla útlenda ferðamenn stórum frá því, að koma á þann fornhelga, fræga stað.

En hver er reynslan?

Eg var þar á ferð skömmu síðar, og átti tal við útlenda ferðamenn þar. Þeir kváðust vera lifandi fegnir því, að þar væri ekki áfengissala; þeir vissu, hvað það var, að hafa ekki svefnfrið alla nóttina fyrir drykkjuærslum ölvaðra manna. Sama sögðu innlendir ferðamenn.

Sagt var þá um leið, að ekki væri til neins að banna vínsölu þar, því að ferðamenn mundu hafa vín með sér.

Hver er reynslan?

Sú, að slíkt ber varla nokkurn tíma við. Þeir vilja ekki hafa það, finst það raska ferðalífs-yndinu. Og þeir skammast sín fyrir að láta sjá sig með pela »upp á vasann«.

Nei, eg held vér þurfum ekki að óttast neina rýrnun á ferðamannastraum hingað til lands, þótt vér gerum áfengi ekki landvært hér með lögum. Þann mann, sem kann ekki að virða lög og rétt þess lands, er hann vitjar — hann biðjum vér heilan aftur hverfa til síns heima.

Vér sækjumst ekki eftir þeim gestum til lands vors, er geta ekki notið þeirrar fegurðar og als yndis, er íslenzk sumarnáttúra á til, öðru vísi en grómteknir af áfengisólyfjan. Enda mundu þeir verða tærri. Hugsið um alla þá menn útlenda, karla og konur, er hingað mundu vilja senda ástvini sína marga fyrir þá eina sök, að hér væri áfengislaust land.

Hér hafa verið haldnar hrókaræður í dag, fluttar af miklum fjálgleik og heilagri vandlæting, — af mönnum, sem eru þó ekki neitt tiltakanlega kennimannlegir endranær, — hrókaræður um það, hvað það mundi verða til mikillar spillingar sonum þjóðarinnar, æskumönnum hennar, ef vín hætti að flytjast til landsins; þeir mundu sökkva sér niður í áfengisglötunina óðara en til útlanda kæmi — ef þeir þektu hana ekki héðan að heiman! Þar að auki væri landsmenn sviftir ókeypis kenslu í skóla — freistingarinnar!

Hvílíkur hégómi! Hvílíkt öfugstreymi í allri röksemdaleiðslu!

Er ekki málstaðnum orðið fallhætt, þegar hann hangir á ekki styrkari stoð en þetta?

Mundu ekki synir vorir, þeir er fæddir eru upp í því þjóðfélagi, er óspilt væri af áfengi — mundu þeir ekki fyllast andstygð, er þeir sæi spillingu þess fyrir sér annars staðar, og þakka forfeðrum sínum fyrir að hafa forðað sér frá þeirri hörmung?

Þá hefir það verið sagt í dag, og gert mikið úr, að lögin yrði brotin. Já, það er í lögum, að ekki megi stela. Brotið er það, og sakast þó enginn um, að lögin séu til. Enginn kemur upp með það, að nema þjófalögin úr gildi. Haldið þér ekki samt, að meira væri stolið, ef þjófnaður varðaði ekki við lög? Eins er um þetta mál, nema hvað þar eru óvenjulega lítil líkindi til, að framin verði lagabrot. Refsingin við því yrði þung. Og hverjir haldið þið svo, að færi að leggja það í kostnað, að halda uppi vínflutningi hingað, úr því að öll vínföng væri upptæk?

Gefið var það í skyn, að bindindishreyfingin væri ekki annað en ofstækisfull stundarhviða, er hjaðnaði brátt niður aftur, eins og öll bráðræðisofstæki gerði.

En hvað er nú þessi hreyfing búin að standa lengi? Hátt upp í ¾ aldar. Og ekkert farin að hjaðna enn þá. Henni er sí og æ að aukast fylgi. Í Bandaríkjunum einum eru 40 miljónir manna, er búa í bannríkjum.

Eitt er það, er borið hefir verið á málstað vorn, að bannlögin í Ameríku hafi verið til bölvunar og ekki annars. Það er ósvinna hrein og bein að láta sér slíkt um munn fara á mannfundum, þegar allir vita, þeir er eitthvað þekkja til og satt vilja segja, að þau hafa gagnbreytt ástandinu þar. Aðrar eins sögur eru ekki annað en 50 ára gamlar múmíur, bábiljur frá þeim tíma, er bindindi fjandsamleg blöð kunnu engan óhróður að flytja nógu gífurlegan um bindindismálið.

Nýjustu og áreiðanlegustu skýrslur um bannlögin í Ameríku votta það, að þeim sé hlýtt engu miður en öðrum lögum.

Það mun mest vera að kenna alvöruleysi löggæzlumanna, ef út af er brugðið, um þau lög, sem mörg önnur. Svo var t. d. í sýslu einni í Norður-Dakota fyrir nokkrum árum, að þar var kvartað sáran um, að lögin væri brotin. En þá verður Íslendingur þar yfirvald, maður, sem nú er nýkominn heim, Skafti Brynjólfsson, og eftir 2— 3 mánaða tíma hætti þeim umkvörtunum með öllu. Það var því að þakka, að hann gekk svikalaust eftir því að lögunum væri hlýtt.

Það flaug út um alt, að bannlögum í ríkinu Kansas væri alls ekki hlýtt. Hvergi gengi betur að selja áfengi en þar. Ölgerðarmaður í austurríkjum fréttir það. Hann skrifar kunningja sínum vestur þangað og spyr, hvort ekki mundi ráð að koma og setja þar á stofn ölgerðarhús. Hann fær það svar aftur: Jú, þú getur reynt, ef þú vilt það kosti þig sama og það kostaði mig. Eg stalst til að selja 26 bjóra. Það kostaði mig 2600 dollara sekt og 8 mánaða fangelsi!

Ein röksemdin gegn aðflutningsbanni er sú hin vesala, að þá hafi Templarafélagið ekkert að gera! Það er af sem áður var í þessum bæ, meðan sá félagsskapur var í æsku, að heldra fólkið kunni ekki að velja honum nógu svæsin óvirðingarorð. En hvað er nú markmið þessa félagsskapar? Að útrýma áfengisbölinu svo freklega sem unt er. Og ekki reyndar því eina böli, heldur sem flestum mannfélagsmeinum. Eigum vér að kosta kapps um að halda sem flestu við, því sem ilt er í heiminum, — til þess að hafa alt af eitthvað til að útrýma!? Nei; enda væri þá nóg eftir, þótt þetta færi. Vér ættum heldur að segja: Góðum guði sé lof, þegar vér þurfum ekki lengur að eyða starfsþreki voru í viðureignina við þennan óvin, þegar vér megum hætta því og snúa oss að öðru.

Fyrstu missirin eftir að aðflutningsbannslögin komast á, verður þess aðalverkefni að gæta þess, að lögunum sé hlýtt. Um þá, sem það ættu að gera, hefir verið talað hér með óvirðing í dag. Það hefir verið litið svo á, sem það sé blettur á manni, ef hann kemur upp lagabroti, — þótt það sé einhver sjálfsagðasta skylda hvers góðs borgara í þjóðfélaginu. Hvað er það meira um þessi lög en önnur?

Allra-síðasta, allra-geigvænlegasta röksemdin á móti aðflutningsbanni — það var Spánarmarkaðurinn. Á hverju er sú röksemd reist? Á himinháum súlum hégóma og vanþekkingar, sem mig langar til að kippa undan henni.

Það var vakið máls á því í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum af hendi Spánverja, hvort Danir mundu vilja fallast á einhverja tilslökun á tolli af spænskum vínum, ef þeir, Spánverjar, hétu Dönum í móti beztu kostum fyrir aðfluttan saltfisk. En ríkisþingið gaf því engan gaum; sagði sem satt var, að það hefði ekkert gagn af neinum vilkjörum fyrir danskan saltfisk, með því að það væri ekki dönsk vara. — Hjáleigan frónska var ekki dönsk þá stundina, ekki óaðskiljanlegur hluti Danaveldis það skiftið!

Þá hugkvæmist Nellemann Íslandsráðgjafa, sem þá var að nafninu, —- og var valinkunnur sæmdarmaður, oss góðviljaður eftir sinni skynsemd, — honum hugkvæmdist að bjóða Spánverjum að semja við þá fyrir Íslands hönd, landsins, sem hafði saltfiskinn á boðstólum. En hverju svara Spánverjar þá? Þeir svara því, að það sé ekki hægt, það geti ekki komið til neinna mála, að þeir fari að bjóða Íslandi nein vildarkjör fyrir saltfiskinn þaðan, vegna þess að það geti enga kosti boðið í móti — það geti enga linun veitt í víntolli, með því að þeir viti ekki til að nokkur ein flaska af spænsku víni flytjist til Íslands. Þar væri fyrir engu að gangast. — Þetta getur vel hafa verið rangt, sprottið af vanþekkingu, og að eitthvað dálítið flytjist hingað af spænskum vínum, þó að mál manna sé, að »spænsk« vín hér í búðum muni vera yfirleitt tilbúin ýmist þar (í búðunum) eða þá í Danmörku eða á Englandi. En nærri má geta, hvað 16— 17 miljóna þjóð muni láta sig muna um vínverzlun við 80 þúsundir manna.

Ráðgjafi hélt því fram, að Spánverjar mundu reiðast svo því hafti á samningi bundnu viðskiftafrelsi við oss, sem fælist í þessu aðflutningsbanni, að þeir hefndu sín á oss fyrir það. Og einhver ræðumaður í hans liði (ráðgj.) gerði ráð fyrir í dag, að konungur kynni að telja sig til neyddan að synja bannlögunum staðfestingar, til þess að vægja til við Spánverja!!

Það er borið í vænginn, að fiskimarkaður á Spáni fari mjög rýrnandi og ekkert megi gera, er spilli fyrir honum. Hvað ber til þeirrar rýrnunar? Það, að Spánverjar eru teknir að veiða sér fisk í soðið, vestan til við Afríku, og er mikill flutningur þaðan til Spánar. Sá afli er alt af að aukast og því meir versnar vitanlega um fiskmarkað annara landa á Spáni. Þetta er ástæðan og ekki annað.

Eg gat ekki að því gert, að mér hálf-blöskraði í dag, þegar eg heyrði ráðgjafann segja, að Spánverjar mundu hætta að eiga nokkur viðskifti við okkur, ef bannlög yrðu samþykt, og gæti svo farið, að vér yrðum að taka slík lög aftur. Er nú ekki nóg, að danska mamma vill skapa og skera um öll vor mál, hafa eftirlit með öllu hér, vill fara það sem fært er í að ráða hér lögum og lofum, — eigum vér nú líka að fara að eignast spanska mömmu, þá er vér þurfum að spyrja að, hvað vér megum gera að lögum í landi voru?