27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

16. mál, aðflutningsbann

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Ef eg að dæmi hæstv. ráðh. (H. H.) ætti að fara að tína til sögur um þetta mál, þá myndi dagurinn lítt endast. Sögur um slíkt eru mesta markleysa, oftast tómur heilaspuni, eða ýktar að miklum mun, sumar kunna að vera sannar að einhverju leyti, og er þá haldið mjög á lofti af mótstöðumönnum aðflutningsbannsins Þær fáu sönnu sögur eru því mjög gamlar og sanna ekkert um löghlýðnina nú á dögum, því að það er svo með mörg lög, sem — eins og þessi — þykja grípa inn í frelsi eða sjálfræði einstaklinganna, að menn kunna þeim illa í fyrstu, en fara smám saman að fella sig við þau, af því þeir verða að viðurkenna gagnsemi þeirra frá mannfélagslegu sjónarmiði. Annars er ekkert móti því að segja, þótt lög þessi kunni einhverntíma að verða brotin. Hvaða lög eru til, sem eigi má það um segja? Ráðherrann hélt því fram — eða ímyndaði sér að minsta kosti —, að í Bandaríkjunum væri ekki aðflutningsbann, heldur að eins vínsölubann, en það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þar er aðflutningsbann í fylsta skilningi. Nokkrir Bakkusarvinir, sem eigi vildu hlíta lögunum, sem þeim þótti stríða á móti stjórnarskrá Bandaríkjanna, lögðu málið undir hæstarétt og úrskurðaði hann, að að eins mætti ekki banna að flytja áfengi á járnbrautum gegnum bannríkin, en aðflutningur allur til þeirra (inn í þau til neyzlu þar) er stranglega bannaður. Ráðherra (H. H.) vildi þvínæst ekki snúa aftur með Spánartollinn. Látum vera, að hingað komi einhver ögn af víni frá Spáni. Er það þá nokkur veruleg mótbára gegn þessum lögum? Dettur nokkrum í hug að halda því fram, að það sem vér kaupum af víni frá Spáni, sé svo mikið, að Spánverjar láti sig það nokkru skifta, og allra sízt, að þeir fyrir þá sök myndu hækka toll á íslenzkum saltfiski eða ef til vill banna allan innflutning á honum? Það hygg eg satt að segja nokkuð út í bláinn.

Þá á það að vera ódrengskapur að vilja ljósta upp brotum gegn lögum þessum. En því þá það? því er þá ekki líka ódrengilegt að koma upp um menn brotum gegn öðrum lögum t. d. um þjófnað og gripdeildir? Þau lög eru orðin svo gömul, að það finst mönnum ekki nú, en hafa ekki öll lög í fyrstunni verið ný?