30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður minni hlutans (Jón Jónsson S.-Múl.):

Eg geri ekki ráð fyrir, að það hlýði að lengja umræður um þetta mál; þess væri það þó vert, vegna þess að það gekk nálega umræðulaust í gegn við framhald 1. umr.

Eg er þakklátur háttv. framsögum. meiri hl. (B. Þ.) fyrir hans hógværu orð; ástæður hans voru einkum tvær, hafa þó bannmenn hingað til talið miklu fleiri. Önnur ástæðan var sú, að áfengi væri eitur; hin sú, að þjóðarviljinn vildi, að þessi lög væru samin. Hann tók einmitt svo til orða, að þjóðarviljinn væri aðalatriðið og orsök þessa frumv.

Eg ætla mér ekki og er ekki heldur maður til að færa rök á móti þessari eiturkenningu, sem fitjað hefir verið upp á nú á síðari árum og bannmenn leggja aðaláherzlu á. Ætlun mín er þó sú, að þótt því sé með lagaboði slegið föstu, að áfengi skuli eitur heita, þá þurfi það langan tíma til að festa rætur í meðvitund fólksins, og það þótt háttv. meiri hluti segi, að bannið sé þjóðarvilji. Eg skal ekki fara meira út í það; mig vantar til þess þekkingu, þótt eg sé ekki viss um, að háttv. meiri hluti hafi á því meiri þekkingu en eg.

Annars þykir mér hlýða, að fara nokkurum orðum um málið alment. Fyrst þegar málið kom til umræðu á þinginu skýrði eg afstöðu mína og taldi ástæður mínar fyrir því, að eg teldi mér skylt að berjast gegn þessari lagasetning af fullum vilja, en því miður veikum mætti. Við höfum, háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) og eg, bent á í áliti okkar, hverjar ástæður liggja til þess, að við ráðum háttv. þ.. til þess að fella þetta frumv. Eg skal játa það, að mér þótti það lakara, að háttv. frsm. meiri hlutans (B. Þ.) virti álit okkar ekki svo mikils, að dæma það eða gagnrýna. Eg hefði kosið það, þótt eg ætli mér ekki í neinar kappræður; það hefði orðið til þess að skýra málið.

Áður en eg fer út í málið frá almennu sjónarmiði, skal eg leyfa mér að gera nokkurar athugasemdir við einstök atriði eða setningar háttv. frsm. meira hlutans (B. Þ.) Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir að vísu tekið af mér ómakið að mestu leyti. Eg skal að eins bæta litlu við. Mér finst eg ekki geta látið vera að vekja athygli á því, að við atkvæðagreiðsluna í haust og allan undirbúning undir hana létu bannmenn aldrei í ljósi, hvernig þeir hugsuðu sér bannið í framkvæmdinni. Það er fyrst þegar þetta frumv. kemur fram, að mönnum verður ljóst, hvað fylgismenn og forvígismenn bannstefnunnar vilja í framkvæmdinni. Eg tek þetta fram einungis sem ríka ástæðu til þess að þjóðin fái aftur að greiða atkvæði um málið, ef það verður ofan á í þinginu.

Annað, sem mér kom á óvart í ræðu háttv. framsm. meiri hl. (B. Þ.), var það, að hann kvað aðflutningsbann vera á stefnuskrá ungmennafélaganna, Eg skal játa, að eg er ekki vel kunnugur þeim félagsskap; lög þeirra hefi eg þó séð, og man eg ekki betur, en að í þeim standi, að félagið sé fylgjandi bindindi. Eg minnist þess ekki, að á aðflutningsbann sé minst einu orði, það hefir þá verið tekið upp á stefnuskrána síðan. Ef háttv. framsm. (B. Þ .) kemur ekki með upplýsingar um þetta, sem eg óska fastlega eftir, verður við mína sögu að lenda. En það verð eg að segja, að ef ungmennafélögin, sem hafa menninguna að sínu markmiði, hafa tekið bannið, kúgunarstefnuna upp á stefnuskrá sína, þá geri eg mér ekki miklar vonir um þau.

Þá mintist hinn hv. framsm. meiri hlutans (B. Þ.) á bannlög Finnlendinga. Honum hefir verið bent á það, að á Finnlandi eru engin bannlög og frumv. um þau er ekki samþykt, svo að ekki dugir að vísa til þess. En frumv. það, sem þar hefir komið fram í þessa átt, sannar ekkert annað en það, að nokkurum mönnum þar hefir dottið líkt í hug og nokkurum mönnum hér. Þó hefir þeim ekki komið til hugar, að fara eins langt og hér er gert; hér eru ákvæðin gerð miklu harðari, ómannúðlegri og meira kúgandi.

Þetta er þá það, sem eg hefi sérstaklega að athuga við ræðu h. háttv. framsögum. meiri hlutans (B. Þ.); eg kann honum þakkir fyrir, hve framsetning hans var hófleg, eins og eg tók fram í upphafi ræðu minnar, og eg vil bæta við: óvanalega hófleg, þegar tekið er tillit til þess, hversu bannmenn hafa flutt þetta mál alla tíð. — Eg er ekki viss um, að eg geti stilt orðum mínum eins í hóf, en reyna mun eg það.

Eg kom á fund í gærkveldi, er haldinn var um þetta mál, og var þar stutta stund. Þá var það tekið fram af aðal-ræðumanni, að nú væru mótstöðumenn bannsins hættir að tala um »princíp« og brot á persónulegu frelsi. Menn þyrðu ekki lengur að koma með þá mótbáru, að hér væri um viðsjárverð löggjafar-princíp að ræða. Þetta er ekki rétt, eins og bent hefir verið á, bæði við 1. umr. þessa máls og í áliti okkar minna hlutans í nefndinni. Eg skal þó ekki vera margorður um þetta nú. Annars hafa á ýmsum tímum komið fram ýmsar setningar frá bannmönnum, sem sýna, að ekki er gott að verja málstað þeirra. Þeir hafa oftlega blandað saman persónulegu frelsi og atvinnufrelsi. Eg er ekki faglærður maður í þessum efnum, en eg skal reyna að skýra sem bezt eg get, hvað eg legg í þessi hugtök. Með persónulegu frelsi, þá á eg við það, að hver einstakur maður er sjálfráður athafna sinna, þeirra er ekki koma í bága við athafnir annara manna. Því er hver maður sjálfráður að eta og drekka það, sem hann lystir, ef hann skerðir ekki rétt annara manna; enginn getur varnað honum þess. Hver maður má t. d. ferðast, tala og segja sínar skoðanir, ef hann skerðir ekki þar með rétt annara manna. Þetta frelsi hafa bannmenn sagt, að væri oft skert með löggjöfinni, t. d. með ýmsum samþyktar-ákvæðum, t. d. ýmsum reglum um fiskveiðar o. fl. En hér er um alveg óskylt mál að ræða. — Slíkar samþyktir eru skerðing á atvinnufrelsi einstakra manna til heilla fyrir heildina. Nú vil eg spyrja hina háttv. fylgismenn þessa máls: Ef það kemst inn í löggjöfina, að banna þeim að neyta áfengis, sem þess æskja, hvar eru þá takmörkin? Er þá ekki ástæða til þess, að verja heilsu landsmanna með því, að banna innflutning á tóbaki? Eitur er í því. Eða mundi ekki ástæða vera þá til þess, að hefta innflutning á kaffi? Þótt kaffi sé að vísu ekki beinlínis eitur, þá eru þó læknar yfirleitt á einu máli um það, að skaðlegt sé, að neyta mikils af því. Eg vildi vita, hvort háttv. fylgismönnum frumv. er ljóst, hvert þeir stefna með þessu frumv. Eg get búist við því, að þeir svari, að hér sé ekki líku saman að jafna, það sé sitt hvað neyzla kaffi og tóbaks og neyzla áfengis. — Eg get búist við þessu svari, því að hér er orðið um eins konar átrúnað að ræða, og það er eðli hvers átrúnaðar, annars væri það ekki átrúnaður, að horfa yfir og fram hjá öllum þeim mótbárum, sem átrúnaðurinn kann að mæta, og að svara þeim með frekyrðum og fullyrðingum. Við fengum að heyra það frá hlið bannmanna um daginn, þegar mál þetta kom fyrst fyrir deildina, hvað ofan í annað orð eins og »mesta fásinna«, »einstakur hégómi«, »stakur þekkingarskortur«, »markleysa«, »fjarstæða« o. s. frv., og í nefndaráliti meiri hlutans gera þeir sér hægt um vik og skifta öllum Íslendingum í 2 flokka, bannmenn og áfengis-átrúnaðarmenn. Þeirra átrúnaður leiðir þá til að ætla, að vér allir hinir trúum á áfengi! Þetta stendur beint í 1. málsgrein nefndarálitsins, þar segir svo: »Ávöxturinn af starfinu (?: starfi Good-Templarreglunnar) er sá, að stórmikill meiri hluti þjóðarinnar hefir horfið frá áfengis-átrúnaðinum«.

Nei, vér trúum ekki á áfengi, það skal eg segja þeim í fullu bróðerni og trúnaði; meira að segja, vér játum fyllilega, að það er hinn mesti viðsjálsgripur, og að starfsemi G.-T., að opna augu manna fyrir skaðsemi ofnautnar áfengis hefir verið lofsverð og blessunarrík. En vér trúum á annað; vér trúum á framþróun sannarlegs siðgæðis og farsældar í skjóli lögbundins frelsis. — Bannmenn trúa á svipuna og lögmálið.

Það er þarna, einmitt þarna í princípinu sjálfu, sem leiðir skilja, og þær leiða í gagnstæðar áttir og geta aldrei mætst, því að þeirra vegur leiðir beint til andlegrar ómegðar, en vor leið stefnir til sjálfsvirðingar og siðferðislegs farsældar-þroska.

Þetta er mín skoðun, og skal eg ekki bera á móti því, að mér er þetta kappsmál, og að eg teldi mig gæfumann, ef orð mín gætu orðið til þess, að fleiri litu á málið frá mínu sjónarmiði.

Það hefir verið minst á þjóðarviljann í sambandi við þetta mál, og bæði meira og minsta hluta nefndarinnar ber saman um það, að þjóðin vilji bannið. Við höfum sýnt fram á það í áliti okkar, því sem prentað hefir verið, að það er alls ekki rétt af hinum háttv. meira hluta, að telja það sem höfuðástæðu fyrir fylgi sínu við þetta mál, að þjóðin vilji það, að það sé þjóðarvilji. — Ástæður þær, sem þar eru færðar af okkar hálfu, hafa ekki verið hraktar og verða ekki hraktar. En eg skal reyna nú að færa fram nýjar skýringar um málið, sem ljóslega benda í sömu átt.

Núna síðan þingd. tók þetta mál til meðferðar hafa bannmenn látið semja ritgerðir, er út hafa komið í blöðum og pésum, til þess að sýna og sanna ágæti bannsins. Nú, eins og svo oft áður, hafa þeir lagt afarmikla áherzlu á það, hvað bannlög hafi reynst ágætlega í Ameríku, einkum í ríkinu Maine, þar sem þeir segja, að þau hafi verið í framkvæmd mjög lengi eða síðan um miðja 19. öld. Þeir fara mörgum fögrum orðum um hið blómlega ástand í Maine, og alt á það að vera að þakka banninu. Þar á nefnilega ekkert að vera drukkið og engu eytt fyrir vínföng og ölföng, og því er fólkið orðið svo ríkt og því líður því svo einstaklega vel. Undur er skemtilegt að heyra þetta, og óskapleg fyrirmunun má það vera, að til skuli vera þeir Íslendingar, sem ekki láta sér segjast við þetta.

En það er dálítið að athuga við þetta, og sýnir allgreinilega, hve ráðvandlega hér er fylgt máli. Aðflutningsbanni hefir aldrei verið framfylgt í Maine. Aðflutningsbann hefir ekki verið reynt til þessa dags nokkurstaðar í víðri veröld.

Það, sem mönnum hér á landi hefir að undanförnu verið talið trú um að væri aðlutningsbann á ýmsum stöðum í Ameríku og víðar, er ekki annað en sölubann og »local option«, eða nokkurnveginn sama sem á sér stað á voru landi.

Eg get hér borið fyrir mig blaðið »Scotsman« 5. þ. m. Þar segir frá því, að einmitt daginn áður, 4. marz, hafi farið fram atkvæðagreiðsla í St. Johns í Newfoundland um það, hvort þar skyldi komast á »local veto«, það er, hvort það skyldi lagt undir almenning, að veita vínsöluleyfi eða

synja um það. Sú atkv.gr. fór svo, að tillagan um »local veto« var feld með rúmlega ?. Í sambandi við þetta getur blaðið þess, að hefði tillagan verið samþ., þá hefði þar með fengist hin fyrsta verulega tilraun með land, þar sem enginn mætti selja vín. Innflutningur og neyzla er þar öllum heimil sem annarsstaðar.

Svona er þetta, en hvað hefir fólkinu verið sagt og hvað hefir verið prédikað? Jú, sölubann hefir lengi verið í Maine, og fyrir löngu tóku ýmis önnur af Bandaríkjunum upp þetta Maine-system. Einu sinni voru þau 15, sem höfðu leitt það í lög. Hve mörg þau eru nú, veit eg ekki; en árið 1900 voru þau ekki orðin nema 5 að Maine meðtöldu, og það er víst öðru nær en systeminu sé beitt stranglega. Í Manchester í New- Hampshire, einu þessara ríkja, sem talið er, að hafi haldið við Maines-systemið, er vínsala leyfð fyrir mjög hátt gjald, og er á þann hátt aflað fjár svo mikils, að nægir til að standa straum af mjög verulegum hluta af hinum opinberu gjöldum, og í hinum 3, Vermont, Kansas og North-Dakota, er lögunum ekki beitt nema í sveitahéruðum. Þetta, sem eg hefi sagt hér, er tekið eftir skýrslu frá 1901, og má vera, að það sé eitthvað öðru vísi nú. En eg skal taka það fram, að sú skýrsla, sem eg hefi nú vitnað til, er gefin af áhugasömum bindindismönnum.

Það er ekki ófróðlegt að heyra það, að árið 1900 var drukkið í Bandaríkjunum öllum öl, sem nema mundi hér um bil 30 pottum á mann til jafnaðar. En í Portland, höfuðborginni í Maine, sjálfu bannríkinu, komu það sama ár um 57 pottar af öli á hvert mannsbarn, og þetta eigum vér svo að

taka til fyrirmyndar, vér, sem ekki drukkum 1906, síðasta ár, sem eg hefi séð skýrslur um, nema tæpa 5 potta á mann, það er hér um bil 1/12 af því, sem drukkið er í höfuðborginni í mesta bannríkinu í Ameríku, sem mest er vitnað í.

Enn má geta þess til fróðleiks og líklega til eftirbreytni, af því að það er í Maine, að í höfuðborginni Portland voru 1901 250 knæpur, þar sem selt var öl og annað áfengi til drykkjar, hverjum sem hafa vildi.

Í ritum þeirra Péturs Zóphóníassonar, og D. Östlunds, sem verið var að útbýta meðal þingmanna um daginn, er það sagt fortakslaust, að aðflutningsbann hafi lengi verið og sé enn í Maine, og ættu þó þeir leiðtogar lýðsins að vita betur. Svona er ráðvendnin í agitationinni. Engum dettur víst í hug að halda því fram, að fortölurnar sem hafðar hafa verið fyrir fólkinu út um landið, hafi verið yfirleitt vandaðri eða betur rökstuddar, en það sem forhleypismenn bannstefnunnar eru látnir gefa út í prentuðu máli, til þess að hafa áhrif á skoðanir alþingismanna. Miklu fremur verður að telja líklegt, að þinginu sé einmitt boðið það besta, rökstuddasta og mest sannfærandi, sem til er — og það er þá svona, eins og eg hefi sýnt fram á. Og nú vona eg að flestir geti nokkurn veginn myndað sér ákveðna skoðun um það, hvernig atkvæða þjóðarinnar er aflað, um hve sannan og ábyggilegan þjóðvilja hér er að ræða, og hvað góða ástæðu háttv. meiri hl. hefir til þess að segja í nefndarálitinu með mesta hátíðabragði: »Þjóðin vill það«.

Og svo loksins þetta: Séu fylgismenn bannsins hér á þingi fyllilega sannfærðir um sannleiksgildi og réttmæti þess máls, er þeir flytja, og séu þeir ennfremur sannfærðir um fylgi kjósenda landsins með því, hví þá í ósköpunum vilja þeir ekki fallast á till. minni hlutans, um að leggja mál þetta af nýju undir atkv. almennings?