30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

16. mál, aðflutningsbann

Pétur Jónsson:

Það sem kom mér til að standa á fætur var það, að mér þótti háttv. framsögum. (B.Þ.) gera það ómaklega að draga fjarverandi menn inn í þessar umræður og heldur ekki skýra rétt frá. Hann fer að skýra frá orðum, sem féllu á prívatfundi og skírskotar til skjala, sem ekki liggja fyrir þinginu. Hann segir, að Steingrímur bróðir minn hefði sagt í gærkveldi á stúkufundi, að háyfirdómarinn væri á móti aðflutningsbanni. Það sem Steingrímur lýsti var það, að háyfirdómarinn væri á móti þessu frumv., sem hér er um að ræða. En annars skal eg ekki blanda mér inn í það.

Þá skal eg fara örfáum orðum um málið sjálft. Háttv. framsm. (B. Þ.) sagði, að það mundi ekki vera meira en ?10 hluti af fermdum mönnum á móti aðflutningsbanni. (Björn Þorláksson: Eg sagði ?). Eg ætlaði ekki beinlínis að fara mótmæla þessu. Einungis vildi eg benda á hitt, að mál þetta hefir verið flutt af miklu kappi, og »agiterað« mikið frá hálfu bannmanna, en ekkert verið gert frá hinna hálfu, sem því hafa verið andstæðir. Menn þekkja að eins aðra hlið málsins, áfengisbölið, og það vilja menn fegnir losast við eftir mætti, og því er það létt verk að fá menn til þess að greiða atkvæði til að vinna bug á því böli, ekki sízt þegar gert er jafn mikið úr því böli og gert hefir verið af bannmanna hálfu. En það verður að gæta að því, sem ekki virðist hafa verið gert hingað til, að það eru fleiri leiðir til að vinna á móti áfengisbölinu en bannleiðin, og skal eg þá fyrst nefna frjálsan félagsskap. Má þar til nefna Good-Templarafélagið, það og önnur bindindisfélög hefir komið miklu áleiðis í því að breyta hugsunarhætti manna, svo að nú þykir það ekki sæmandi að vera ölvaður á almannafæri. En nú er sem þeim þyki örðugasti hjallinn eftir, en það er að losast algerlega við áfengið úr landinu. Annar vegurinn er að hindra vínbölið með löggjöf á einn eða annan hátt, án þess að um aðflutningsbann sé að ræða, t. d. lögskipa hegningu fyrir ósæmilegt athæfi og framferði sökum ölvunar; ennfremur að hindra vínsölu.

Þessi vegur hefir verið notaður hér að nokkru. Það hafa verið lögð mikil höft á vínsölu, svo að á stórum svæðum landsins er engin vínsala. Þetta hefir allmjög dregið úr vínbrúkun. Nú mætti ætla, að áður en þriðja leiðin, bannlagaleiðin, væri reynd, væri komið í lög fyrir nokkru að hegna fyrir velsæmisbrot í stað þess að virða mönnum til vorkunnar, þegar þeir í ölæði gera þetta eða hitt, sem ódruknum mönnum er naumast þolað og hafa ölæði jafnvel til mildunar lagahegningu. Það hefir verið talað um hve margir séu með bannleiðinni og atkv.gr. höfð til sönnunar. En hve margir eru, sem þekkja þriðju leiðina, algert aðflutningsbann? Hve margir eru þeir, sem vita, hvað bannlög eru? Í stuttu máli: hve margir af þeim sem greiddu atkvæði með aðflutningsbannsleiðinni þektu hana, eða gátu dæmt um hana í sambandi við hinar leiðirnar, sem talsvert eru kunnar?

Það mun óhætt að fullyrða, að ekki ?10 þeirra manna, sem greitt hafa atkvæði um þetta mál, þekkja það og geta um það dæmt. Hvað er þá að byggja á atkvæðagreiðslu, sem byggist sjálf á slíkri vanþekkingu? Fyrst þarf að sanna og gera öllum ljóst, sem greiða eiga atkvæði í málinu, að hverju leyti og hvernig lögin muni gripa inn í athafnir einstaklingsins. Þetta er enn sem komið er engum vel ljóst, jafnvel eigi flytjendum þessa máls. Hve margir hafa jafnvel séð þetta frumv., sem hér liggur fyrir. Eg held það hefði komið hik á margan að játa aðflutningsbanni, ef hann hefði séð þetta frumv., og þó myndi athugavert að hafa það mildara, en það er.

Eg hefi orðið var við nógu mikinn alvöruskort hjá almenningi þessa lands, til þess að eg veit, að þótt hann í orði sé einhverju meðmæltur er hann það ekki alt af í verki. Og ilt er að reka sig á það þá fyrst, er þetta frumv. er orðið að lögum, að þjóðin fylgir því eigi með alvöru til framkvæmda. Þjóðin þarf að sjá þetta frumv., svo hægt sé að byggja á atkvæði hennar, treysta því loforði hennar að hún sé reiðubúin að halda þessi lög og halda þeim í heiðri. Hve margir af þeim, sem játað hafa og játa nú aðflutningsbanni, eru albúnir að standa á verði fyrir hlýðni við bannlög? Eg hefi talað við ýmsa Good-Templara og bindindismenn, sem helzt vildu að aldrei kæmi til þessa lands nokkurt áfengi, en álitu þó algert aðflutningsbann óheppilegt fyrir þjóðina. Þessir menn líta á ábyrgðarhlið þessa máls. Og það er rangt að telja alla bindindismenn vínbannsmenn, og alla sem eru á móti aðflutningsbanni Bakkusarvini, eins og hér hefir klingt í umræðunum.

Dæmið, sem tekið var hér um Friðþjóf Nansen, er hann bannaði alla vínnautn í heimskautaför sinni, er heldur eigi heppilegt. Það er engin þræta um að vínnautn er skaðleg oft og tíðum og í sumum tilfellum alveg hættuleg, eins og t. d. í norðurförum. Þar var því rétt, að banna hana af því líka að vandalaust var að framfylgja því banni, svo það væri haldið. Nansen er því í engri mótsögn við sjálfan sig, þó hann viðhafi vínbann í þessum kringumstæðum, en sé á móti í almennum kringumstæðum.

Eg fyrir mitt leyti vil heldur ekki hafa áfengi á mínu heimili, og hefi heldur ekki haft það. En þeir sem vanir eru að brúka vín og fara með það án skaða fyrir aðra álíta það skerðing á frelsi sínu, að þeim sé alveg varnað vínnotkunar, sem er að öllu leyti á þeirra ábyrgð, og í alla staði óskaðleg að þeirra áliti. Meðan það eru margir mentaðir og vel siðaðir menn, sem þannig eru hugsandi, er algert aðflutningsbann nauðung fyrir þeirra réttlætistilfinning, og skerðing á réttmætu einstaklingsfrelsi, og þess vegna er eg á móti því.