30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður minni hlutans (Jón Jónsson, 1. þm. S.-Múl.):

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði margt og mikið til að hnekkja skoðun okkar minnihluta manna, er við höfum látið í ljósi bæði í nefndaráliti okkar og hér í deildinni. Eg skal nú ekki fara að rekja lið fyrir lið alt það, er hinn hv. þm. sagði, heldur að eins benda á einstök atriði.

Fyrst vil eg þá benda á það, að hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að drykkjuskapur og brot á lögum þessum væri glæpur. Þetta endurtók hann svo síðar í ræðu sinni.

Eg veit það vel, að Good-Templarar vilja kalla þetta glæp, en það er engan veginn viðurkent af réttarmeðvitund íslenzku þjóðarinnar. Og ekki munu þeir menn margir utan Good-templar-reglunnar, er vilji kalla þau brot, sem framin kynnu að verða móti lögunum, óheyrilegan glæp — það er langt frá því! Eg vil því vekja athygli hinna háttv. flutnm. þessa frumv. á því, að það er langt frá réttarmeðvitund þjóðarinnar, að skilja þetta mál á sama veg og þeir, og eg vona fastlega, að þess verði langt að bíða.

Þar sem eg tók það fram, að staðfesting frumv. væri skerðing á persónulegu frelsi manna, þá tók háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) þar dæmi til samanburðar: Það væri ekkert nýmæli í löggjöf þjóðanna, að gerðar væru ráðstafanir til að vernda verkamenn. En fyrir hverju? Líklega fyrir auðvaldinu (Skúli Thoroddsen: fyrir þekkingarskorti sjálfra þeirra). En þetta dæmi fór algerlega fram hjá — það snerti engan veginn setningar okkar, heldur ræðir um takmörkun á atvinnufrelsi. Okkar setningar standa óhraktar, og geta ekki orðið hraktar.

Hinum háttv. þm. þótti ekki mikið í það varið, að merkir Norðmenn væru á móti bannlagastefnunni. Hann sagði, að það sannaði ekki annað en það, að þessir menn væru skamt á veg komnir, að því er siðgæði snertir. Tek eg þetta hér upp til þess að það falli ekki niður, þessi dómur er svo einstaklega einkennilegur. Fleiri voru setningar hins háttv. þm. eftirtektaverðar.

Þar sem varatillaga okkar fer fram á, að framkvæmd laganna sé frestað og að málinu sé skotið til þjóðarinnar á ný, þá finst hinum háttv. þm. þetta vera hið sama sem að fella frv. Þetta bið eg menn að athuga vel, því að meiningin getur ekki verið önnur en sú, að bannmenn treysta því ekki, að málið yrði samþ. á ný og vilja því ekki sleppa þessu tækifæri. Og þegar þeir eru búnir að æsa þjóðina til þessarar atkv.gr. með hinni alkunnu »agitation«, þá segja þeir: »Þjóðin vill það«. En þetta sýnir ljóslega, hve lítt þeir treysta þjóðinni, er þeir þora ekki að bera málið undir hana á ný.

Þá sagði hinn sami háttv. þm., að þjóðin mundi láta sig litlu skifta, hvernig lögin yrðu úr garði gerð. En þetta er að eins spádómur, og eg spái þar alt á annan veg, því að þegar þjóðin sér lögin, þá mun henni áreiðanlega finnast, að hana skifti þetta miklu.

Hitt má að vísu til sanns vegar færa, að lítið hefir verið unnið á móti bannlaga-»agitationinni«, en ekki stafar það af því, að vér höfum ekki treyst oss að andæfa því. Eg get sagt það hreinskilnislega frá mínu brjósti, að mér er þetta kappsmál, mér er það kappsmál að enginn klafi sé lagður á þjóðina; hins vegar hefi eg ekki áður barist neitt móti þessari stefnu vegna þess að eg trúði ekki, að nokkur mundi dirfast að bera fram þannig lagað frv. Mér kom það sannarlega á óvart, og öllum Íslendingum má koma það á óvart.

Má í þessu sambandi minnast á ávarp Stórtemplars fyrir hönd Stórstúkunnar fyrir kosningarnar í haust. Þar var það tekið fram, að kjósendur skyldu ekki láta bannmálið hafa nein áhrif á þingkosningar, heldur skyldi þar ráða sambandsmálið eitt.

Þessi ummæli hljóta að hafa vakið þær tilfinningar hjá mönnum, að þessu máli, bannmálinu, yrði ekki haldið fram nú; það gat því ekki hafa vakað fyrir þjóðinni, að nú yrðu úrslit þessa máls.

Í riti einu, er út kom á dögunum, er komist þannig að orði, að »stolist« hafi verið að þjóðinni. Eg vil þó ekki gera þessi orð að mínum, en hinu held eg fram, að þjóðin hafi ekki getað búist við því í haust, að málið skyldi nú útkljáð á þinginu.

Skal eg þá ekki fara frekar út í það sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, en vil minnast á ýms atriði úr síðari ræðu háttv. frmsm. (B. Þ.). Það verða að eins sundurlausar athugasemdir. — Hann fór mörgum orðum um það, sem honum þótti óviðurkvæmilegt í nefndaráliti okkar minnihluta mannanna, t. d. þar sem þar segir á einum stað, að almenningur mundi oft ekki telja brot á þessum lögum ósæmilega athöfn. — En þessi orð okkar færði hann út úr réttu sambandi. Við höfum þar að eins gert ráð fyrir, að lögin yrðu brotin og að hegning lægi við, er mönnum mundi þykja ósanngjörn — og alls ekki álíta athöfnina ósæmilega.

Hann fór einnig mörgum orðum um það — eins og mönnum er tamt í þessu efni — að takmörkun áfengisnautnarinnar væri nú mjög á dagskrá, og skal eg ekki rengja það. En hann fór þar of langt, sagði t. d. að engilsaxneska þjóðin hneigðist algerlega að banni. Eg veit nú ekki betur — þótt eg sé ekki vel fróður í því efni — en að Englendingum sé þetta mjög fjarri skapi, og miklar líkur til, að á Englandi geti aðflutningsbann aldrei orðið lögleitt.

Þá get eg heldur ekki verið hinum háttv. þm. samdóma um það, að ekki ætti við að verja þessum blóðpeningum — áfengistollinum — til styrktar heilsuhælinu. Munu þessi ummæli aðallega stýluð móti frumv. því, er nú er hér á ferð í deildinni um þetta efni. En eg er hér á gagnstæðri skoðun, lít svo á, að hinn háttv. þm. tali hér meira af tilfinningu en »praktiskri pólitik«. Því að mér finst það einmitt hyggilegt, að láta einn óvininn yfirstíga annan, láta Bacchus ráðast á berklana. Þetta virðist mér hyggilegt og heillavænlegt.

Hinn háttv. þm. talaði mikið um það, að við minnihluta menn vildum beita ofsa og kúgun. Eg fæ ekki skilið, hvernig honum dettur slíkt í hug, því að það, sem hann hefir fyrir sér í þessu efni eru þau ummæli okkar, að við krefðumst verndar þingsins gegn því, að meiri hlutinn kúgaði minni hlutann í þessu máli. En hann komst að þeirri niðurstöðu, að það væri óhæfa, ef minni hlutinn beygði sig ekki hér sem annarstaðar fyrir meiri hlutanum. Þó að það sé oftast talið sanngjarnt, að minni hlutinn ráði ekki, þá hefir hann þó oft veto, þ. e. hann getur neitað framkvæmd þess, er kemur í bága við hagsmuni hans. Þessa eru mörg dæmi, bæði í »privat«félögum og í lífinu.

Eg held því fast fram, að það er sanngjörn krafa, að þingið verndi þessa ? hluta gegn bráðræði hinna ?, svo að málið verði þó að minsta kosti íhugað rækilega.

Þá lét hinn sami háttv. þm. undrun sína í ljósi yfir því, hve þroskalaus eg væri eftir þeirri æfingu, sem eg hefði þó fengið á þingi. Skal eg alls ekki neita því að svo sé, eg vildi óska að eg væri þingstörfunum betur vaxinn en eg er, en eg mun nú ekki einn um slíkt þroskaleysi. Hinn háttv. þm. hefir sjálfur sagt, og allir vita það líka, að hann hafi mikið unnið að þessu máli, en þó er hann ekki kominn lengra en það, að hann ruglar hér saman vínsölubanni og aðflutningsbanni. Hann sagði t. d. áðan, að 40 miljónir manna væri undir banni í Bandaríkjunum, en þetta snertir alls ekki það, sem eg sagði, því að þar er sölubann, en ekki aðflutningsbann. Það er sá mikli munur. Og aðflutningsbannið gengur mjög nærri persónulegu frelsi manna, en sölubannið er aðeins skerðing á atvinnufrelsinu.

Eg get naumast skilið, hvernig jafnvitrir menn og margir þeirra eru, er hér eiga hlut að máli, hafa getað komist upp á þetta sker.

Hinn háttv. þm. blandaði enn fremur saman bindindi og aðflutningsbanni. Þetta er nú reyndar ekki nýtt, það hefir oft verið gert. Í fyrstu ræðu sinni mintist hann á ungmennafélögin í þessu sambandi, og af því að hann hefir ekki svarað spurningu minni viðvíkjandi þeim ummælum, þá verð eg að líta svo á, að hann hafi lagt að jöfnu bindindi og aðflutningsbann.

Munurinn er þó mikill, eins og eg hefi margtekið fram.

Hann gerði heldur ekki greinarmun á aðflutningsbanni og bindindi, þar sem hann mintist á, að Friðþjófur Nansen hefði ekki leyft að hafa áfengi í norðurheimskautsför sinni.

Það var að vísu rétt, að Nansen bauð bindindi á sjálfri förinni, en hann vildi ekki þar með banna heilli þjóð aðflutning eða neyzlu áfengis. Þar var því mikið djúp í milli, og er furða að menn skuli þráfaldlega gera sér lítið fyrir og stökkva yfir það djúp. Eg get nú látið hér staðar numið að sinni, en mun síðar taka til máls, ef þörf gerist.

Í tilliti til þess, hve miklu Íslendingar eyða í áfengiskaup árlega, skal eg geta þess, að fyrir nokkrum árum var í Englandi drukkið á einu ári svo mikið af vínföngum og ölföngum, að það nam yfir 40 kr. á hvern mann, en árið 1906 var á Íslandi drukkið fyrir 1½ kr. á mann, ef frá er dreginn kaupmannshagnaður, tollur og það er útlendingar neyta og borga. Það var ekki mikið í samanburði við Englendinga.

Þegar svona stendur nú á, virðist ekki ástæða til að gera viðsjála löggjafartilraun, sem gæti orðið hættuleg þjóðinni. Aðrar þjóðir sitja hjá á meðan vér brjótum ísinn og stara á oss eins og eitthvert heimsins furðuverk.