30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Jónsson (N.-Múl.):

Eg beið með að tala þangað til eg fengi að heyra álit lögfræðinganna. Eg get ekki neitað því, að mér finst gengið fullnærri stjórnarskránni í 9. gr. frv. Að vísu er þó nokkuð bætt úr með breyt.till. nefndarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir, sem vínveitinga- og vínsöluleyfi hafa, skuli fá tiltölulega uppbót, ef leyfistíminn verður ekki útrunninn, þegar lögin ganga í gildi, en enga uppbót eiga þeir að fá á þeim tolli, sem þeir hafa borgað af vörum þeim, sem þeir eru skyldaðir til að láta flytja af landi burt. Eg sé ekki betur en hér sé gengið nokkuð nálægt þeim rétti, sem menn hafa samkvæmt stjórnarskránni. Í 10. gr. er talað um það, að heimilisrannsókn skuli fram fara hjá hverjum þeim, sem grunaður er með rökum um óleyfilegan aðflutning eða óleyfilega sölu áfengis, og finnist áfengi í vörzlum hans, skal hann skyldur að sýna vottorð um, hvaðan hann hafi fengið það. Við þessa gr. vill meiri hluti nefndarinnar gera breytingu, sem eg verð að segja að er að mínu áliti til þess verra. Í frumv. eru engin ákvæði um sektir, en í breyt.till. nefndarinnar er það talið brot gegn 1. gr. frumv., ef maðurinn getur ekki sýnt sönnunargögn þess, hvaðan honum eru komnar birgðirnar, og varðar því í fyrsta skifti sektum frá 200—2000 kr. í augum þeirra, sem óttast hörð ákvæði, er þessi breyting til hins verra. Auk þess hefi eg litið svo á, að hér væri gengið nærri stjórnarskránni, sem segir »að heimilið sé friðheilagt«. Auðvitað verð eg að sæta úrskurði lögfræðinga um þetta, en eg vil þó gjarnan heyra álit fleiri áður en eg sannfærist. Við 13. gr. hefir nefndin, meiri hlutinn, komið með þá breyt.till., að hámark sektanna sé hækkað. í frv. gr. er það ákveðið, að hver sá, sem sést ölvaður, skuli skyldur að skýra frá því, hvar hann hafi fengið áfengið, en sæti ella sektum alt að 100 kr. í breyt.till. meiri hluta nefndarinnar er ákveðið, að sekta megi frá 50—200 kr. Þessi breyt.till. er í samræmi við br.-till. við 10. gr., hún gerir ákvæðið harðara. Eg sé ekki ástæðu til að fara frekara út í sektarákvæðin; þau eru öll hörð, í samræmi hvert við annað. Heldur ekki felli eg mig við breyt.till. við 2. gr., um skottulæknana. Eg er meiri hlutanum ekkert þakklátur fyrir hugulsemina við þá læknastétt í landinu.

Eins og mönnum er kunnugt, er eg mótfallinn aðflutningsbanni á áfengi, og er eg það af ýmsum ástæðum. Okkur sveitamönnunum þykir alt af ilt, þegar löggjafarvaldið fer að setja lög, sem takmarka persónulegt frelsi manna, skipa mönnum að hlýða boði eða banni, hvort sem það er í fjárhagslegum efnum eða viðkemur athafnarétti manna. Mér getst ekki að þessari stefnu, það er ávalt slæmt, ef lögin ganga nærri persónulegu frelsi manna.

Eins og kunnugt er, eru tvær leiðir til að koma í veg fyrir, að brotið sé á móti slíkum lögum. Önnur leiðin er að auka löggæzluna, en hafa ákvæðin um hegningar fyrir brot væg, en hin leiðin er, að hafa hegningarákvæðin hörð. Meiri hluti nefndarinnar vill fara þessa síðari leið, álítur að það nægi að hafa hegningarákvæðin sem hörðust. Eg er ekki á sömu skoðun um það. Lögin verða brotin þrátt fyrir það þó hegningarákvæðin séu hörð, og afleiðingin getur orðið, að ýmsir menn, sem annars eru nýtir borgarar, verði fyrir þungum refsingum fyrir brot á lögunum, og við það aukast óvinsældir laganna.

Því hefir verið slegið fram, að það væru mest drykkjumenn, sem væru móti bannlögunum, eða menn, sem ekki væri ljóst, hvert siðgæðisböl væri falið í áfengisnautninni. En þetta er hreinasta fjarstæða. Hér í Reykjavík er sterk hreyfing móti lögunum meðal mentamanna. Það eru ekki einungis við sveitakarlarnir, sem líkar illa að svipan sé brúkuð á þjóðina, heldur einnig skólagengnu mennirnir.

Nefndarálit okkar minni hlutans er þyrnir í augum meiri hlutans; en í því eru færðar góðar ástæður fyrir okkar máli. Það hefir verið sagt, að það væri engin ástæða, að bannlög hefti persónulegt frelsi manna. En þó hefi eg ekki heyrt það hrakið. Á fundi einum í gær, heyrði eg einn ræðumann segja, að það gæti ekki verið ástæða af því að einn maður sem talað hefði móti bannlögum hefði ekki tekið það fram. Það þótti mér skrítin röksemdaleiðsla.

Tollástæðan finst sumum veigalítil. Þó er það aðgætandi, að hér er um talsverða fjárupphæð að ræða, sem landið misti árlega, ef aðflutningsbann kæmist á. Menn segja, að tollinn megi bæta upp á öðrum sviðum. Það er satt, en þó má líka auka tekjur landsins, eins og nú er á sama ótiltekinn hátt, svo að peningamissir verður það alt af fyrir landssjóð, ef bannið kemst á.

Framsm. meiri hl. (B. Þ.) tekur hart á okkar skoðun í þessu máli, og sparar ekki að taka andstæðinga sína óþyrmilegum tökum. Eg hirði ekki um það, þó hann sé harðtækur, en reyni að spyrna í móti, þó hann sé sterkur.