30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

16. mál, aðflutningsbann

Einar Jónsson:

Þó langar umræður breyti varla skoðunum manna í þessu máli, þá er rétt að ræða málið frá sem flestum hliðum. Eg er nokkurskonar miðlunarmaður í þessu máli. Eg fylgi fram aðflutningsbanni, en eg vil ekki hafa lögin ósanngjarnlega hörð. Menn munu segja, að lögin verði að vera hörð. Það má vera, en af öllu má þó ofgera. Eg álít það væri fremur til ógagns en gagns, að hafa ákvæðin eins hörð og þau voru upprunalega í frumv. En hér þarf ekki að tala um frumv. sjálft, þar sem allmargar breyt.till. eru komnar fram. Af nefndarálitunum felli eg mig sízt við minsta hluta álitið.

Eg er fylgjandi aðflutningsbanni, af því eg skoða skaðsemi vínsins svo mikla, að nauðsynlegt sé að stemma stigu fyrir nautn þess í landinu. Eg þarf ekki að fara nánar inn á það, að hvaða leyti vínið sé skaðlegt; það er öllum kunnugt. En eg vil þó minnast þeirra orða, sem höfð voru yfir hér í deildinni fyrir nokkru eftir hinum stórmerka stjórnvitring, Gladstone: að allar styrjaldir og drepsóttir heimsins til samans hafi ekki gert eins mikinn skaða og áfengisnautnin ein.

Andstæðingar bannsins hafa komið með margar ástæður máli sínu til stuðnings. Eg skal minnast á nokkrar þeirra. Þeir segja, að Good-Templurum sé vel trúandi til að eyða áfengisnautninni í landinu. Þessi ástæða er að mínu áliti einskis virði. Þó ámæli eg als ekki Good-Templurum og neita ekki, að þeir hafi gert gagn. En eg get ekki kannast við, að þeir hafi gert eins mikið og þeir láta sjálfir af. Mér finst þeir vera dálítið of montnir. Í 25 ár hafa þeir lagt kapp á að útrýma áfengisnautninni, en þeim hefir ekki tekist það til neinna muna. Það sem þeim hefir verið mest hrósað fyrir er, að þeir hafi komið því til leiðar, að minna beri á drykkjuskap nú en áður. Eg játa, að þetta er satt. En það er vafasamt, hvort það er verulega þakklætisvert. Það er drukkið hér um bil jafnmikið og áður hér á landi. Og þá er víst að einhver drekkur, þó farið sé í felur með það, og jafnmikill er skaðinn eða meiri, en ef ekki væri farið leynt með það. Áður var mönnum sama, þó þeir sæjust fullir, en nú ekki, og það er eini munurinn. Eg hefi í því sambandi hugsað um Spartverja, sem höfðu þá venju og hafa ef til vill enn, að láta þræla sína drekka sig svínfulla og sýna unglingum aðfarir þeirra, þeim til viðvörunar og til að vekja viðbjóð hjá þeim á óhóflegri vínnautn. Eins mundi ungum mönnum hér geta verið það góð viðvörun, ef þeir sem drekka færu ekki í felur með það. Það er því fremur ókostur en hitt, að menn drekki í laumi, því að mér er jafnsárt um drykkjumanninn, konu hans og börn, hvort hann liggur drukkinn við bakdyrnar á húsi sínu eða götudyrnar.

Önnur ástæða andstæðinganna er sú, að slík bannlög hefti persónulegt frelsi manna. Eg get eiginlega slept að svara þessari ástæðu, þar er háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir svarað henni og sagt það, sem eg ætlaði mér að segja. Eg get tekið undir með honum í því, að ófrelsi skapar mörg lög, sem þó eru talin þörf og nauðsynleg. Það er haft á persónulegu frelsi þjófsins, að honum er bannað að stela, en þó eru þjófalög nauðsynleg fyrir þjóðina.

Þriðja ástæða andstæðinga bannsins er, að útrýma megi áfengisnautn með fræðslu um skaðsemi hennar. Sú ástæða er einskisvirði í mínum augum Við vitum það, að öllum börnum eru kend boðorðin. En hve mörg brjóta þau? Öll, meira eða minna. Og það er enginn vafi á því, að þó einhver unglingur lofaði, að neyta ekki áfengis, þá mundi hann ekki halda það loforð betur en boðorðin sín.

Eg tel sjálfsagt, að samþykkja þessi lög nú. Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefir óskað þess. En hins vegar skal eg játa, að þjóðin hefir óskað þess, án þess að vita til fulls, hvað hér er um ræða, og því er eg með því, að leggja lögin fyrir þjóðina aftur og fresta framkvæmd þeirra um nokkur ár. Eg álít hyggilegra að halda sér við 1916, heldur en þau verði ekki samþykt, en kysi helzt að þurfa eigi að bíða lengur en til 1912.

Ómögulega get eg aðhylst tillögu minni hlutans, að ? atkvæða skuli ráða úrslitum laganna. Það nær ekki nokkurri átt, að svo lítill minni hluti taki fram fyrir hendur allra hinna.

Umræður eru orðnar mjög langar. Eg skal því ekki þreyta menn meira, enda býst eg við að eg hafi skýrt skoðun mína svo, að það verði ekki misskilið.