30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

16. mál, aðflutningsbann

Magnús Blöndahl:

Eg hafði ekki ætlað mér að tala, af því eg hefi verið dálítið lasinn og er það enda enn þá, en þó get eg ekki stilt mig um að segja nokkur orð, ef ske kynni að þau mættu verða til að hnekkja stærstu vitleysum þeirra manna, sem berjast móti lögum þessum með hnúum og hnefum. Eg skal geta þess strax, að eg get gengið inn á breyt.till. minsta hl. að nokkru leyti.

Það er broslegt að heyra andmælendur laganna kannast við það í öðru orðinu, að vínið sé eitur en neita því í hinu orðinu. Mér skildist á fyrri ræðu háttv. framsm. minni hl. (J. J.), að hann áliti að vínið væri eitur, en á síðari ræðunni að hann áliti að það væri ekki eitur. Ef við gætum orðið sammála um að vínið sé eitur, þá er mikið fengið. Þá hljótum við líka að vera sammála um það, að nauðsynlegt sé að eitthvað verulegt sé gert til að stemma stigu fyrir því, að þetta eitur eitri út frá sér þjóðlífið hér meir en það er búið að gera.

Sami háttv. þingm. virtist, að því er eg skildi ræðu hans, draga það nokkuð í efa að mikið væri byggjandi á atkv.-greiðslunni síðasta haust. Mér skildist, að hann vildi beina því að bindindismönnum, að þeir hefðu beitt ljótri aðferð og máske keypt atkvæði. Slíkar getsakir eru óhæfilegar og það verður að mótmæla þeim. Sumir háttv. þm. tóku það einnig fram, að almenningur hefði ekki vitað, hvað bann væri. Eg álít, að enginn kjósandi sé svo skyni skroppinn, að hann viti ekki hvað hann er að greiða atkvæði um og verð eg því að álíta þetta og annað eins miður góðgjarnlegar getsakir til kjósendanna. Því næst héldu sumir háttv. þm. því fram, að kjósendur hefðu enga hugmynd haft um það, hvernig bannlögum væri háttað yfirleitt og hvernig aðflutningsbannslögin hér á landi mundu verða. Eg vil spyrja þessa háu herra: Hvað kemur það málinu við? Sé þjóðin samdóma um nauðsyn bannlaganna, þá er það nægilegt og það verður auðvitað hlutverk þingsins að ákveða lögin í öðrum efnum.

Eg efast ekki um það, að þótt frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu, hefði legið fyrir kjósendum síðasta haust, að atkv. hefðu ekki orðið færri með banninu en þau voru. Það vill líka svo vel til að atkvæðagreiðslan var leynileg, og því engin ástæða til að greiða atkv. öðruvísi en sannfæring hvers eins sagði honum. Þetta vona eg, að allir sjái að er stór kostur við þessa atkvæðagreiðslu og útiloki því allar getgátur um keypt atkvæði og óheiðarlegar hvatir og það er enginn, sem veit hverjir ? af þjóðinni það eru, sem hafa greitt atkv. með málinu. Það er svo þungt á metunum þetta atriði, að það er enginn, sem þess vegna getur með ástæðum borið brigð á, að atkvæðagreiðslan sé heiðarleg og ábyggileg.

Eg man ekki hvaða háttv. þm. það var, sem sagði að það hefði verið skemtilegra að fara skemra í bráðina og leggja ekki stóra hegningu við því, þótt menn sæjust ölvaðir. Eg get ekki verið þm. samdóma í þessu efni. Eg verð að álíta það blett á hegningarlögum vorum, að skoða það sem málsbót, ef maðurinn, sem fremur glæpaverk, er drukkinn. Eg álít, að svona ákvæði séu fremur til að hvetja menn en letja til glæpa.

Það hefir verið þrásinnis tekið fram í háttv. deild, hvílík ábyrgð það væri, sem þjóðin gengist undir — ef bannlögin kæmust á — að sjá um að þau væru ekki stöðugt brotin. Eg veit þetta vel, en svona er það með öll lög.

Það er dálítið undarlegt og óskiljanlegt að h. minni hluti skuli ekki vilja líta á alt það tjón og böl, sem landið hefir haft af vínsölunni. Eg ímynda mér samt, að ef hann vildi gefa sér næði til að renna augunum aftur í tímann og líta til margra efnilegra manna, sem foreldrarnir litu til með ást og von um að mundu verða stoð og stytta sín og landsins, en sem vínið hefir eyðilagt og oft lagt undir græna torfu löngu fyrir tímann, að þá myndu þeir líta nokkuð öðrum augum á þetta mál. Það verða allir að játa, að mörg mannslíf hafa tapast fyrir áfengisnautnina, og þetta hefir ekki einasta átt sér stað, heldur á það sér stað enn þann dag í dag. Landssjóðurinn hefir einnig fengið að reyna þetta, og hann er enn ekki laus við þau útgjöld, sem af því hafa stafað að starfsmenn hans hafa neytt áfengis um of og síðan hröklast frá embættum og dembst á eftirlaun. Annars er það ofætlun fyrir þm. eða aðra að sanna það, að þetta eða önnur lönd bíði ekki stórtjón af áfengisnautninni og það er ekki tölum talin öll sú armæða og böl, sem áfengið hefir leitt yfir einstaklingana og þjóðirnar í heild sinni.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) var að tala um sterka hreyfingu, sem ætti sér stað gegn aðflutningsbanninu meðal hinna mentuðu manna í Rvík. Eg hefi nú ekki orðið þessa var og hefi þó átt 9 ár hér heima, að það sé alment verið að mótmæla því, en þó nú eitthvað kynni að vera hæft í þessu, sannar það ekki nokkurn skapaðan hlut gegn málinu, miklu fremur það gagnstæða. Eg verð því að álíta, að þessi staðhæfing þm. sé með öllu bygð á sandi.

Þeir háttv. þm., sem barist hafa mót málinu, og þó af veikum mætti, hafa fjargviðrast um, að bindindismönnum hafi aldrei verið andmælt.

Hví hefir þeim ekki verið andmælt af Bakkusarvinum? Á hvað bendir það? Eg hygg, að það bendi á það eitt, að málstaður þeirra sé óverjandi. Eg veit, að sumir andmælendur eru þeir kappsmenn, að þeir myndu ekki hugsa sig tvisvar um að gera það, ef þeir gætu.

Í nefndaráliti minni hlutans er vitnað til Norðmanna og þar sagt að ekki muni hægt að neita því, að það muni vera hinir beztu menn þeirra, sem nú sporna á mót bindindishreyfingu Norðmanna. Eg get frætt þá herra á því, að það má nefna jafngóð nöfn, sem líta öðrum augum á málið, t. d. ráðgjafa Abrahamsen, sem er fylginn maður sér og í miklu áliti meðal Norðmanna og annara þjóða og hans nafn vegur jafnmikið og sumra hinna og þá get eg einnig nefnt forsætisráðherrann Gunnar Knudsen; hann þekkja víst allir. Það þýðir ekki að neita því, að þessi nöfn eru jafngóð hinum og svona mætti halda áfram að telja. Eg hefi sjálfur átt tal við Abrahamsen, og veit að hann er eindreginn fylgismaður bindindismálsins.

Eg vil einnig leyfa mér að benda á, að það er annað félag, sem er nýmyndað í Noregi og nær því nær yfir alt landið. Það er lífsábyrgðarfélag og heitir Andvaki. Í stjórn þess er Abrahamsen, er eg nefndi áður og Andersen forstjóri samgöngumála Norðmanna, mjög þektur maður. Félag þetta hefir sett á »program« sitt útrýming áfengis. Menn geta nú, ef til vill, vigtað hvor nöfnin muni vera betri. Eg ímynda mér að þau nöfn séu ekki betri, sem eru í mót bindindismálinu en þau, sem fylgja því.

Það er ekki hægt að neita því, að það rekur sig dálítið á og að það eru nokkur ósannindi í 3. aths. minni hlutans. Þar er það sagt, að hingað til hafi landssjóður haft töluverðar tekjur af aðflutningsgjaldi áfengis og seinna í sömu grein er það sagt, að þennan toll borgi mest efnaðri hluti þjóðarinnar. (Jón Jónsson, S.-Múl. Já!) Háttv. þm. segir já, að þetta sé rétt, en hann verður að játa, að hann hefir ekki fært nægar ástæður fyrir þessu, og mundi þær þó ekki hafa verið sparaðar, ef til hefðu verið, þegar hann var að skrifa þetta.

Hann verður að játa það, að það er brennivín, sem mest er drukkið hér á landi, og að það sé drukkið mest af þeim mönnum, sem engir ríkismenn eru. Brennivínsnautnin er mest hjá almenningi og hvílir þyngst á honum; það eru fátæklingarnir, sem neyta þess. Hér hefir minni hlutanum skjátlast all-hraparlega, og svo dregur hann þá ályktun út af þessu, að tollurinn lendi ekki á fátæklingunum heldur á efnamönnunum. En tollurinn lendir einmitt á þeim, sem drekka brennivínið — fátæklingunum —. Dæmin eru deginum ljósari, því í Reykjavík og alstaðar þar sem brennivíns er neytt, er þess einmitt neytt af fátæklingum og sjómönnum. Þetta er því svo mikil og auðsjáanleg fjarstæða, að eg veit ekki, hvernig jafnskynugir menn, og þeir eru, sem standa undir álitsskjali minni hlutans, hafa getað flaskað á þessu. Þeir hafa víst ekki búist við, að nokkur mundi reka augun í þetta, og að það mundi því vinna sitt verk í því að hindra framgang málsins.

En þeir eru ekki af baki dottnir, þeir segja, minni hlutinn: Hér er stefnt að því að láta þá fátækustu bera hæstu gjöldin, en létt þeim af efnaðri. Þetta er hin mesta fjarstæða, sem ekki má vera ómótmælt.

Þá er þessi makalausa perla, sem minni hlutinn hefir upp eftir öðrum þm. þó, sú, að stofna sérstakan sjóð, og að það ætti svo dæmalaust vel við og væri svo heppilegt að láta Bacchus berjast við berklaveikina. En hinn hv. minni hluti gætir ekki að því, hvort það gætu ekki orðið eins margir, sem Bacchus drepur, gætu ekki orðið eins margir og þeir sem frelsast kynnu á þann hátt við berklaveikina. Háttv. frmsms. minni hlutans (J. J., S.-Múl.) tók það fram, að ofsi Good-Templara hafi verið svo mikill í þessu máli, að andmæli hafi ekki getað fram komið. Eg held að það sé óverðskuldað að öllu leyti að bregða Good-Templurum um ofsa, að minsta kosti gátu þá bann- andstæðingar beitt þá hinu sama, en auðvitað hafa þeir ekki lagt út í það, þar sem röksemdir vantar. Þá skal eg víkja lítið að því sem eg sagði í byrjun ræðu minnar, að eg get ekki lagt annan skilning í það sem minni hlutinn segir í áliti sínu, en að atkv. hafi verið keypt af hálfu bindindisvina. — Þeir segja að þetta, að veita fé úr landssjóði, til þess að vinna að því, að fá ákveðinni »stefnu í ákveðnu löggjafarmáli sem mest fylgi, er nýtt með oss, og, að því er okkur sýnist, vel þess vert, að það sé athugað dálítið, því það er víst, að hægt er að hafa áhrif á úrslit mála með fé«. Eg held að hver sem les þetta fái ekki annað út úr því, en það sem eg hefi sagt, og eg verð að mótmæla þessum orðum háttv. minni hluta sem gersamlega ósæmilegum og ástæðulausum í garð bindindismanna. Einnig skal eg leyfa mér að mótmæla því, að margir hafi greitt atkv. nauðugir með bannlögum, því það hefir æfinlega verið hin fasta stefna Good-Templara að fá bannlög og er það enn þá.

Þá kemur háttv. minni hluti fram með það í nefndaráliti sínu, að kjósendur hafi ekki verið spurðir um það, hversu fljótt lögin skyldu komast á. En þá vil eg spyrja? Hvað kemur það þessu máli við? Það hefir minst verið deilt um það, hvort lögin fái gildi árinu fyr eða síðar. Þá segir hinn háttv. minni hluti, að atkvæðagreiðslan í haust sé engin sönnun fyrir vilja þjóðarinnar, því að undirbúningurinn hafi verið svo meingallaður. — Vill hinn háttv. minni hluti ekki benda á þessa meingalla? En að neita því, að við atkvæðagreiðsluna í haust hafi lýst sér vilji mikils meiri hluta kjósenda, er ekki til neins, því tölurnar tala þar skýrt og greinilega og taka þar af allan efa, svo að ekki er til annars, en að berja höfðinu við steininn, að vera að þrátta um það.

Eg vil ekki láta það ómótmælt, sem háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) sagði, að drykkjuskapur væri ekki minni nú, en þegar bindindishreyfingin hófst. Það er enginn leyndardómur, að drykkjuskapur hefir nú minkað stórmikið síðan bindindishreyfingin hófst, og fram á þennan dag. Sami þm. sagði, að það væri gott dæmi fyrir hina ungu, að drekka sig svínfulla. Eg fæ ómögulega séð, að slíkt geti haft nein góð áhrif, því mannlegur breyzkleiki er nú einu sinni svo mikill, að mörgum verður tamara að nema það, sem að miður má fara, og held eg þess vegna að það væri hál leið, að draga þá ályktun út af orðum þingm., að það mundi minka drykkjuskap, þótt þeir ungu sæju hina eldri ölvaða, þvert á móti. Annars getur háttv. 2. þingm. Rangv. (E. J.) gert slíka tilraun á sínum eigin börnum, ef hann langar svo mjög til. Nei, eini öruggi vegurinn er þessi: Burt með áfengið úr landinu, og látum það aldrei koma inn fyrir landsteinana, — og í þá átt fer frumvarp það, sem hér liggur fyrir, og sem eg er ekki í minsta efa um, að verði samþykt hér á þinginu. Það hefir verið ýmislegt fundið frumv. þessu til foráttu, og eg segi fyrir mitt leyti, að eg mun geta gengið inn á ýmislegar breytingar.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni, og sest niður í þeirri öruggu von, að máli þessu reiði farsællega af, ekki einungis til 3. umr., heldur einnig út úr þessari deild.