30.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður minni hlutans (Jón Jónsson, 1. þm. S.-Múl.):

Þótt margt hafi nú verið sagt til mín, þá skal eg þó láta mér nægja að gera að eins örstuttar athugasemdir við tvær setningar í ræðu hins h. framsm. meiri hlutans (B. Þ.). Eg vil ekki tefja tímann með því að svara ræðum hins háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) og hins h. þm. Snæf. (S. G.). Þeir sögðu hvorugur neitt það, er ekki hefir verið sagt áður, enda þótt annar þeirra segði margt betur en áður hefir verið gert. En eg ætla nú samt að ganga fram hjá því. Við erum ekki enn þá búnir að jafna með okkur muninn á sölubanni og aðflutningsbanni, hinn háttv. framsögum. og eg. Hann blandaði þessu tvennu alveg saman í dag, og hann gerir ekki mikinn mun á því enn; hann sagði berum orðum, að það væri að eins stigmunur. En eg get ómögulega fallist á þá skoðun, og það hygg eg rétt mál, er eg segi að þar sé að ræða um verulegan »princip«mun. Eg sagði þetta í dag og eg endurtek það nú, enda hefir það ekki verið hrakið og eg er þess fullviss, að það verður ekki hrakið.

Endatakmarkið, þ. e. aðflutningsbannið, fer of nálægt persónulegu frelsi manna, þar sem það fyrirmunar mönnum að neyta þess, er menn óska að neyta; það fer nær því, segi eg, en ráðlegt er eða holt löggjöfinni. En sölubannið kemur þar ekki ofnærri, það er að eins haft á atvinnurétti manna. Hér er því um gersamlega tvær stefnur að ræða: sölubannið er alt annað en það, sem hér er farið fram á.

Hinn háttv. framsm. (B. Þ.) gat þess, að það væri alveg þýðingarlaust að bera þetta mál undir alkvæði þjóðarinnar á ný, nema því að eins að konur fengju þá líka að greiða atkvæði. Þá mætti það. En hvers vegna? Ætli það sé af nokkru öðru en því, að hann teldi þá sigurinn vísari. (Björn Þorláksson: Konur eiga að hafa þar atkvæðisrétt). Þá virðist ástæðan blátt áfram sú, að hann hefir ekki trú á framgangi málsins, (Björn Þorláksson: Þetta er ósatt — ófaktist), enda er það ekki undarlegt, því að sú myndi raunin á verða, að það næði þá ekki fram að ganga.

Eg skal ekki fara mikið út í viturleik fyrirskipana Múhameðstrúar. En ekki tel eg hyggilegt að sníða vor lög eftir bannlögum Múhameðstrúarinnar, því að það er kunnugt, að þau eru alment brotin, og ef bannlög vor verða einnig brotin, þá væri takmarkinu ekki náð að heldur.

Hinn háttv. framsm. (B. Þ.) hneykslaðist á því í dag, að við minni hluta mennirnir vildum ekki í áliti okkar kalla vínnautnina þjóðarböl — eins og hún er nú. En þjóðarböl er ekki, finst mér, rétt að kalla annað en það, sem er mjög þungbært og mjög alment. Nú er áfengisnautnin als ekki almenn, langt frá því; þetta vita allir, og sömuleiðis er áfengisnautninni svo háttað, að það eru fremur undantekningar að hún skapi það, sem rétt er að kalla böl. En það er því miður margt annað, sem rétt er að kalla þjóðarböl: óskilvísin, eyðslusemin, fáfræðin — og eg vil bæta við: sá hugsunarháttur, sem getur af sér frumv. það, er hér liggur fyrir, og aflar því fylgis.