15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður minni hlutans (Jón Jónsson S.-Múl.):

Háttv. framsm. (B. Þ.) sagði, að tillaga okkar um nýja atkvæðagreiðslu í málinu væri einungis til að gabba þjóðina. Eg mótmæli slíkum ummælum, sem ekki hafa við minstu rök að styðjast. Við förum að eins fram á, að þjóðinni sé leyft að greiða atkvæði á ný um þetta mál, því að hún hefir ekki enn fyllilega áttað sig á því. Það eru margir, sem enn þá hafa ekki tekið »parti« í þessu máli, ekki enn látið það koma til afskifta sinna. Þessir menn eiga sanngjarna kröfu til að fá að leggja sitt atkvæði á metaskálarnar. Annars hefir framsm. verið svo óheppinn að gera sig sekan í ýmsum hugsunarvillum og mótsögnum í þessu máli. Hann sagði, að þeir, bannmennirnir, hefðu þjóðarviljann að baki sér í þessu máli, mikill meiri hluti þjóðarinnar vilji hafa aðflutningsbann, en þó sagði hann í öðru orðinu, að tillaga vor um að leita atkvæða þjóðarinnar á ný um þetta mál, væri banatillaga við bannlögin. Sjálfir forgöngumenn þessa máls eru þá orðnir hræddir um, að sigurinn myndi ganga þeim úr greipum, því að ekki er hægt að skilja þessi orð framsm. á annan veg, en að hann treysti ekki að meiri hluti þjóðarinnar fáist til að fylgja þeim á ný í þessu máli. Nú hafa þeir æst þjóðina upp með ósönnum »agitationum« og uppdiktuðum fregnum um bannlög í öðrum löndum og nú ætla þeir að taka hana á orðinu og láta hana nauðuga viljuga við svo búið sitja. Drengileg aðferð!

Annað er líka einkennilegt við framkomu flutningsmanna, það eru þessar mörgu breytingartill. Það er svo með sumar þeirra, að síðari villurnar verða argari þeim fyrri. Þær hafa sumar farið í öfuga átt við það sem átt hefði að vera. Þegar flutnm. eru búnir að semja breyt.till. sínar, þá koma þeir með margar nýjar breyt.till. við þær breyt.till. og það með sumar þeirra jafnvel ekki fyr en núna á fundinum. Þessar breyt.till. þeirra eru ekki að eins miklar að tölu, heldur líka að efni til. Ef eg skil rétt, þá var það um stund meining meiri hluta nefndarinnar að heimila veitingamönnum og vínsölumönnum að selja áfengi í 3 ár eftir að aðflutningur væri bannaður, að aðflutningur víns skyldi bannaður 1912, en birgðir mætti selja í 3 ár til (til 1915). Þetta var allskynsamleg tillaga, en líklega þess vegna hafa þeir tekið hana aftur. Svona er hringlandinn.

Eg skal enn reyna að skýra málið. Það hefir ef til vill ekki mikið að þýða, en eg geri það þá mest vegna minnar eigin samvizku, því að eg vil ekki af vita að hafa vanrækt nokkuð, sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að lagaákvæði þessi verði samþykt. Eg skal þá fyrst minnast á »agitationina« í þessu máli, bæði meðal þingmanna og þjóðarinnar utan þings. Alt af hefir það verið viðkvæðið, að svona bannlög hefði fleiri þjóðir og bent á Ameríku. Eg benti þegar við

2. umr. á, að þetta mundi ekki vera rétt, en með því að eg þá ekki hafði óræk skilríki með höndum, fór eg ekki frekar út í það mál þá. Síðan hafa bannmenn alt af verið að ympra á þessu sama og veifað Ameríku hátt sem bannlandi og jafnvel »Templar« og sjálft ráðherrablaðið (Ísafold) hafa fullvrt, að svo væri. Slíkar sannanir, sem þeir hafa þótst hafa frá Ameríku, hafa verið notaðar mikið í »agitationinni« og eflaust ráðið miklu um úrslitin við atkvæðagreiðsluna í haust 10. sept. Annaðhvort vita þessir menn ekki, hvað þeir eru að segja eða þeir þá fara vísvitandi með ósatt mál og er hvorugt ætlandi þeim mönnum, sem þykjast hafa gott mál að flytja, og sýnir það ofurkapp, sem enginn góður drengur má láta sér verða að brúka.

Eg hefi nú sett mig dálítið inn í þetta mál, og skal eg með órækum sönnunum sýna fram á, að aðflutningsbann hefir aldrei verið reynt í Ameríku enn þann dag í dag, og aldrei hefir þar komið á dagskrá að lögbanna að neyta víns eða veita áfengi. Eg skal strax geta þess, að upplýsingar þær, sem eg hefi um þetta efni eru frá árinu 1906, úr skýrslum, sem lagðar voru fyrir brezka þingið 1907, eftir ransóknum sem enska stjórnin hafði gera látið um reynslu, sem menn hefðu fengið í Ameríku um þetta efni. Skjal þetta er því »autoritativt« og að minsta kosti fult eins mikið á því að byggja og skilríkjum þeim, sem Templar, aðalmálgagn bannmanna, hefir til heimilda.

Að því er snertir reynslu einstakra ríkja skal eg hér nefna fáein, en fyrirkomulagið er svo mismunandi í ýmsum ríkjum og í sama ríkinu hefir þeim verið svo margbreytt, að fádæmum sætir. Í ríkinu Suður-Caroline (South-Caroline) voru einna ströngust lög um tíma. Þau óheimiluðu öllum öðrum en stjórninni eða tilkvöddum mönnum að flytja inn vín. Það var sjálft ríkið, sem hafði »monopol« á sölunni. En þessi aðferð reyndist svo óvinsæl, að lögin voru margbrotin og loks leiddi þetta til upphlaupa og manndrápa, svo þeir sáu þann kost vænstan að leyfa aftur með lögum innflutning víns til eigin neyzlu. Eitt sem var eftirtektarvert í lögum þessum var, að heitið var háum uppljósturslaunum fyrir að koma upp brotum; annað þótti ekki tækt, og það reyndist svo, að einmitt það ákvæði var áhrifamest allra, til þess að ná í lögbrotamennina. Nú eru uppljósturslaun alveg numin úr þessu lagafrumv. okkar, og segi eg sannarlega ekki, að eg sjái eftir því ákvæði, en hins ber að gæta, að við það verða lögin vafalaust miklu fjær því að ná tilgangi sínum, þeim, að sporna við aðflutningi og nautn áfengis. Það sem menn hér hafa kallað aðflutningsbannslög í Ameríku er ekkert annað en vínsölubann, »prohibition«.

Í Jowa-ríki voru bannlög sett um 1882, en eftir 10 ár reyndust þau svo illa, að þau þóttu óhafandi. Þar voru þá hinar hagfeldustu og beztu kringumstæður fyrir bann. íbúarnir lifa mest á landbúnaði og lítið gefnir fyrir áfengi, en samt voru brotin svo afskapleg, að lög þessi varð að nema úr gildi, og ný lög, og miklu mildari komu í staðinn. Þau létu sér nægja að lögleiða að eins »local option« í ríkinu og batnaði ástandið þá mikið.

Í ríkinu Kansas hefir »prohibition« verið að lögum um c. 30 ár, en þó hafa lögin aldrei verið framkvæmd í stærstu bæjunum, og 1907 var tala þeirra bæja orðin um 25; í sumum þessum stærri bæjum var vínið selt ólöglega, og menn svo teknir einu sinni í mánuði og sektaðir um 50 — 100 dollara. Banninu var með öðrum orðum snúið upp í mánaðarlegt gjald fyrir vínsölu. —

Í ríkinu Maine voru líka til vínsölubannslög, en lögunum var ekki hlýtt. 1901 var skipuð sérstök nefnd til að sjá betur um framkvæmd laganna. Var þá veitingastöðum í höfuðbænum Portland lokað, og yfirleitt lögð meiri áherzla á, að lögunum yrði beitt, en þó hélst leynileg vínsala áfram einkum með verri og ódýrari víntegundir, og eftir að nefndin hafði starfað að eins eitt ár, hafði hún kostað 4000 doll., en sektafé hafði að eins fengist inn um 600 doll.

Í ríkinu New-Hampshire hefir um tíma verið vínsölubann, til 1903. Þá lögleiddi fylkið »local option« og voru há gjöld sett fyrir söluleyfi. Niðurstaðan hefir orðið sú, að í bæjunum hefir atkvæðagreiðslan leyft vínsölu, en í meiri hluta sveitahéraðanna er vínsala bönnuð; af 240 sveitahéruðum var synjað um leyfið í 150. Héruðin eru mörg fámenn og fundir oft illa sóttir. Á einum atkvæðafundi í smábænum Waterville, sem »Frækorn« nefndi um daginn, mætti að eins einn atkvæðisbær maður, og þar var vínsölubann samþykt í einu(!) hljóði. Tekjur þær, sem ríki þetta hefir haft af vínsöluleyfinu, námu um 1906 c. 318 þús. doll. að frádregnum kostnaði. Í skýrslum þeim, sem eg hefi úr þetta yfirlit yfir almenna reynslu í Bandaríkjunum, segir, að löggjafarvald hinna ýmsu ríkja hafi einatt verið að reyna nýjar og nýjar leiðir, sífeldar breytingar og tilraunir hafi verið gerðar, og það svo mjög, að á árunum 1904—06 hafi verið gefið út hvorki meira né minna en segi og skrifa — 161 sérstök lög, sem snerta vínsölu.

Í Bandaríkjunum hafa það að eins verið 17 ríki als, sem reynt hafa »prohibition« (vínsölubann), en 1907 eru eftir að eins 3 ríki og er ekki hægt að segja að bannlögin hafi reynst þar vel enn þá, því að í þessum ríkjum er vín selt leynilega, og það í all-stórum stíl; í þessum þrem ríkjum hefir vínsalan jafnan verið arðsöm, og ávalt hægt að fá nóg vín til að drekka, en sjaldan hafa lögbrot þótt þar svívirðileg (disreputabel) að almenningsdómi, og þó hafa lögin staðið í langan tíma. Sú reynsla kemur og heldur ekki vel heim við fullyrðingar h. framsm. (B. Þ.), að ekki mundi þurfa langan tíma til að venja menn á að skoða brot á þessum lögum, sem hvern annan glæp. En slíkt er heldur ekki að furða. Menn hafa þæft mál þetta áfram án sérlegrar þekkingar, og meira að segja ekki kynt sér þá reynslu, sem aðrar þjóðir höfðu í þessu efni, og sem þeir sjálfir í fásinnu voru að vitna til.

Í þeim þrem ríkjum, sem vínsölubann (aðflutningsbann hefir aldrei komist á eða verið reynt að koma á, ekki einu sinni á pappírnum), er enn í lögum, Kansas, North Dak. og Maine hafa lögbrotin verið mikil — eins og áður er sagt — og það ekki sízt upp á síðkastið. Menn brjóta þau líka svo djarflega, svo opinskátt, að auðsætt er, að þann siðferðislega grundvöll laganna, almenningsálitið vantar algerlega. Sem dæmi þess skal getið, að árið 1906 voru í ríkinu Kansas 4019 menn, í North Dak. 1582 og í Maine 594 menn, sem borguðu skatt til alríkisins fyrir smásöluverzlun með vínföng, og þetta voru sjálf bannríkin, bið eg menn að taka eftir.

Það virðist því hafa reynst með öllu ómögulegt að finna siðferðisgrundvöll til laganna eða að fá almenningsálitið til að skoða lögbrotin sem ljót og ósiðleg. En án stuðnings almenningsálitsins hafa bannlög ekki getað orðið framkvæmd, nema þá með því að vekja mjög alvarlegar deilur og óeirðir. Kviðdómendur hafa orðið eiðrofar, dómarar ekki dirfst að beita hegningarákvæðum laganna, fé hefir verið hrætt út úr mönnum, mútum beitt og annað ilt athæfi framið. Lögin hafa því komist í fyrirlitning, en af því hefir aftur leitt, að vaninn að óvirða bannlögin hefir vanið menn á ólöghlýðni í öðru, Öll þessi bannlög hafa verið afaróvinsæl og fljótt dottið úr sögunni. Að eins »local option« hefir orðið æ algengari, og reynist yfirleitt fremur vel. Það er ekki ófróðlegt að taka eftir því, að árið 1896 námu gjöld fyrir vínsöluleyfi í Bandaríkjunum 49 milj. dollara eða hér um bil 3 kr. á hvert nef. 1907 er það talið að vera miklu meira. Borgunin er alt að 4000 doll. á ári fyrir leyfið, viðast þó miklu lægri.

Upplýsingar þessar um Bandaríkin hefi eg úr merku riti, sem fullvel má treysta. Það er skýrsla, sem enska stjórnin lagði 1907 fyrir parlamentið, þegar byrjað var á því á Englandi að reyna að setja harðari lög en þar hafa verið áður, um veitingar og sölu áfengra drykkja. Stjórnin hafði útvegað þessar skýrslur og ransóknir gegnum sendiherra Breta í Washington. Það er annars dálítið gaman að bera saman undirbúning þessa máls hér og í Englandi. Hér hefir fólkið í skjótri svipan verið upp-agiterað, æst með mjög ofsafenginni smalamensku og einhliða frásögnum, þar sem mjög oft hefir verið hallað réttu máli og enda óspart notuð bein ósannindi. »Þjóðviljinn«, þannig fenginn, er síðan notaður sem ástæða til að knýja lögin áfram og smeygja klafanum umsvifalaust á þjóðina. En á Englandi aftur á móti byrja menn með að safna sönnum og áreiðanlegum skýrslum og öðrum upplýsingum, sem unt er að fá þar aðlútandi. Hér varðar okkur ekki um slíkt!

Eins og sýnt hefir verið fram á er í flestum ríkjum Bandaríkjanna lögleitt að selja vín, með þröngum takmörkunum þó; vínsölubann (prohibition) var 1906 að eins í þrem ríkjum. Þegar vel er að gáð, þá vonast eg til að menn sjái og viðurkenni með mér, að við hér á Íslandi höfum alt það sama sem Bandaríkin, sem bannvinir hafa bent á sem fyrirmynd. Vér höfum alt þetta þrent, sem Bandamenn: prohibition, local option og license.

Við höfum:

1. Bann um tilbúning áfengra drykkja,

2. Ákvæði um að sveita- eða bæjarfélög með atkvæðagreiðslu geti veitt eða synjað um vínsöluleyfi og

3. License, þar sem leyfð er vínsala gegn sölugjaldi. Þetta verður alt skýrara eftir 1915.

Eftir því sem mér skilst er þá, þótt lög þessi nái ekki fram að ganga, eftir 1915 komið svo langt í takmörkun áfengis með lögum, sem þar er bezt er annarsstaðar.

Með þessum skýringum um áfengislöggjöf í Bandaríkjunum hefi eg viljað sanna og vonast til að hafa tekist það.

1. Að aldrei hafi verið bannaður innflutningur víns í nokkurt ríki og því síður lögbannað að neyta víns eða veita það.

2. Að »agitationin«, sem hér hefir verið drifin að undanförnu og sem að sjálfsögðu hefir ráðið úrslitum atkvæðagreiðslunnar í haust, hefir að allmiklu leyti verið bygð á ranghermum og enda beinum ósannindum,

3. Að þar afleiðandi er það með öllu óforsvaranlegt og rangt að halda því fram, að þjóðarviljinn standi á bak við þessi bannlög, þar sem og enn er þess að gæta, eins og við áður höfum haldið fram, að almenningur hefir aldrei, fyr en nú, fengið neitt að vita um það, hvernig þessi löggjöf ætti að verða — og raunar veit enginn það enn, þegar litið er á hringlanda flutningsmanna með þessar mörgu breyt.till. hverja ofan í aðra.

Eg á raunar töluvert eftir af því, sem eg ætlaði að segja, en læt þó hér staðar numið.