01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

16. mál, aðflutningsbann

Jón Magnússon:

Eg get ekki látið þetta mál fara svo frá þinginu, að eg ekki geri grein fyrir atkv. mínu á því, þótt þess ætti reyndar varla að þurfa.

Eg greiði atkv. með frv. þessu, með aðflutningsbanni á áfengi, af því að mjög mikill hluti kjósenda minna vill það, þjóðin vill það, og eg álít að sá dagur verði heilladagur fyrir landið, þegar girt er fyrir það, að áfengi geti framar flutst til landsins.

Það hefir í umræðunum hér í dag verið talað um eða bent til þess, að frumv. hafi tekið breytingum í háttv. Ed., sem séu til skemda. Þykir mér rétt, að það komi fram, að þetta sé ekki skoðun allra hér í háttv. deild.

Það verður að viðurkenna það, að þegar frv. fór héðan úr deildinni, þá var frágangurinn mjög langt frá því að vera góður, en breytingar þær, er Ed. hefir gert á frumv. hafa gert það að verkum, að það er vel frambærilegt og er eg breytingum Ed. flestum samþ. fyrir mitt leyti.

Ekki er eg hræddur um, að það stafi nokkur hætta af því, þótt ákvæði 7. gr. frumv. og 9. gr. í fljótu bragði sýnist ekki koma vel heim. Eg hygg að það geti ekki verið um það að villast, að hugsunin sé sú, að 7. gr. komi ekki fyllilega til framkvæmda fyr en 1. jan. 1915.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um að hætta gæti stafað af því, að frumv. leyfir að selja áfengi á 3 ára tímabilinu 1912—1914, sú að menn komist upp á að flytja inn áfengi á laun. Eg er ekki svo hræddur við þetta, mín skoðun er sú að ekki sé sérleg hætta á, eftir því sem hér hagar til, að áfengi verði flutt hingað til landsins að mun, eftir að aðflutningsbannið er komið á.

Það er sannfæring mín, að hin hv. deild geri réttast í því, að samþ. frv., eins og það nú liggur fyrir.