01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

16. mál, aðflutningsbann

Sigurður Gunnarsson:

Eg heyrði háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), bera það á þingdeildarm., að þeir hefðu aldrei getað í þessu máli tekið einföldustu rökum.

Þetta þótti mér helzt til hörð orð og óviðeigandi af jafn skýrum manni. Það er vitanlegt, að hann hefir sjálfur stöðugt borið á móti þeim sannindum að vínið væri eitur, og að það væri þjóðartjón. Hann taldi enn ýmsa galla vera á frumv., er gerði það illa fallið til staðfestingar. En eg segi honum það hreinskilnislega, að eg ber fult svo mikið traust til lögfræðisþekkingar h. þm. Vestm. (J. M.), er telur enga þá galla á því, er setja þurfi sérstaklega fyrir sig. Aðfinslur 1. þm. S.-Múl. (J. J.) eru sprottnar af hinni rótgrónu óbeit hans á málinu í heild sinni. Hvert sem við lítum erlendis, meðal mentaþjóðanna, sjáum vér, að alt af er verið að gera meira og meira til þess að losa þjóðirnar við áfengisbölið. Alt af er verið að stagast á því, að aðflutningsbann gangi of nærri persónufrelsi einstaklinganna. En hvað mundu þá þeir sömu menn segja um socialista-stefnuna, sem ávalt er að vinna meira og meira fylgi í mentalöndum heimsins? Skyldi þá ekki líka mega segja um þá stefnu, að hún gangi of nærri persónulegu frelsi einstaklinganna?

Að öðru leyti tel eg þýðingarlaust að lengja umr. frekar, en lýsi að lokum gleði minni yfir því, að alþingi Íslendinga gefst nú kostur á, að leiða þetta velferðarmál lykta.