26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

19. mál, lífsábyrgð sjómanna

Jón Þorkelsson:

Framsm. þessa máls (M. Bl.) er lasinn í dag, og verða menn því að gera sér að góðu, þó að eg mæli fyrir málinu í þetta skifti. Breytingin sú, er nú er farið fram á, er í því fólgin, að þessi lög gera ráð fyrir, að taka alla sjómenn í líftryggingu, hvort sem þeir eru í förum landa á millum eða í kringum strendur landsins eða stunda fiskiveiðar, þar sem hin eldri lögin taka einungis þá menn undir vátrygginguna, er fiskiveiðar stunda.

Þá er lítils háttar breyting Önnur, að í staðinn fyrir 30. apríl til 1. október komi vetrarvertíð og sumarvertíð.

Í 5. grein var það svo, að líftrygging átti að greiða á þessu tímabili, ef þeir, sem vátrygðir voru, dæju, án þess, að tillit væri tekið til þess, á hvern veg þeir gengju af veröldinni. — Þetta þótti nefndinni viðsjárvert, og þótti, sem það gæti orðið sjóðnum þungbært um of, ef þessi ákvæði næðu einnig til sjómanna, er létust á landi, og vill hún því láta orða það svo, að vátryggingin gangi ekki lengra en svo, að henni nái, ef maðurinn druknaði af skipi eða veiktist um borð á skipi.

Þá er í 7. grein sú breyting, að tillag landssjóðs megi eigi minna vera en 12000 kr., í stað þess, sem áður voru lögmælt 15000 kr.

Eftir að nefndin hafði lokið við nefndarálitið, barst henni tillaga um það, hvort þeir, sem stunda fiskiveiðar á opnum bátum og mótorbátum gætu ekki komist undir þessi lög.

Nefndin mun taka það til íhugunar og við 3. umræðu koma fram með væntanlega tillögu þar um.