16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

19. mál, lífsábyrgð sjómanna

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Herra forseti Eins og eg tók fram við framhald 1. umr. þessa máls, þá höfðu komið fram breyt.till. í málinu, sem nefndin þá ekki hafði fengið athugað — ekki haft tíma til þess né tækifæri — en nú hefir nefndin athugað breyt.till., og fallist á sumar þeirra. Það er þá fyrst að geta breytingatill. eða öllu réttara viðaukatill. aftan við 1. gr. um það, að skylt sé að vátryggja líf hérlendra sjómanna, er reka fiskiveiðar á vélabátum eða opnum bátum, er stunda fiskiveiðar minst eina vertíð á ári. Nefndinni hefir þótt rétt, að sjómönnum á mótorbátum og opnum bátum veittist kostur á því, að tryggja líf sitt alveg eins og sjómönnum á þilskipum, því eins og allir vita, þá hætta þeir lífi sínu eins og sjómenn á þilskipum og meira að segja öllu meir. Þetta er því í alla staði réttmæt breyting.

Breytingar- eða viðaukatillagan við 2. gr. er sjálfsögð afleiðing af viðaukatillögunni við 1. gr.

Þá eru breytingarnar við 3. grein. Þá fyrstu um það, að orðin »frá 1. okt. — — — 30. sept.« falli burt, hefir nefndin komið fram með af þeirri ástæðu, að henni fanst ekki ástæða til þess, að vera skifta þessu gjaldi, heldur hafa það eins yfir allan tímann. Gjaldið er líka svo lágt, að engum sjómanni mun það í augum vaxa, þótt það hækki upp í 18 aura um vikuna, í stað 15 aura. Slíkt smáræði getur engri óánægju valdið meðal vátryggjenda, en vátryggingarsjóðinn getur þó hins vegar munað um það, og stuðlar þannig að því, að tryggja það, að sem minst eða sjaldnast þurfi að grípa til landssjóðs samkvæmt 7. gr.

Nefndin hefir og lagt það til, að í staðinn fyrir »helming« í 3. gr. komi »þriðjung«. Eins og sést af 3. gr., átti útgerðarmaður að greiða vátryggingargjald í landssjóð helming á móts við gjald allra skipverja. Þetta er nokkuð hart fyrir útgerðarmann, sérstaklega, þegar litið er á þá miklu fjárhagslegu áhættu, sem hann hefir á allri útgerðinni, og sem er enn meiri en sjálfra skipverjanna.

Þessi breyting stafar frá bendingu, sem yfirmaður á »Islands-Falk« gaf nefndinni, og henni virtist full ástæða til að taka til greina.

Breyt.till. við 5. gr. fann nefndin ástæðu til að koma fram með eftir að hafa talað við menn, sem gott skyn báru á málið. Því miður hafði nefndin enga nákvæma skýrslu, sem séð yrði af, hvernig sjóðurinn mundi hafast við í framtíðinni. Undanfarandi reynslutími hefir verið svo stuttur, að ekki er enn unt að segja um, hvort hækka þurfi iðgjöldin til sjóðsins, en eftir þeim upplýsingum, sem vér fengum, stendur hann svo enn, að engin líkindi eru til, að hann þurfi að leita til landssjóðs að sinni. Vér nefndarmenn settum upp dæmi til þess að sjá, hvernig viðgangur sjóðsins mundi líta út, en eftir þeim upplýsingum, sem vér síðar góðfúslega fengum í stjórnarráðinu, munum vér hafa sett tölurnar nokkuð háar, miðað við undanfarandi ár, því þegar skipin, er út voru gerð voru flest, árið 1906, voru þau 203 og um 13 manns að meðaltali á hverju. Vér gerðum ráð fyrir um 200 skipum og nokkru fleiri mönnum. En það hefir ekki mikið að segja, hvort þau eru nokkru fleiri eða færri, því það raskar ekki útkomu dæmisins. Okkur vantaði þar að auki skýrslu um, hve margir mótorbátar hefðu gengið, en láta mun nærri, að þeir hafi verið um 400. Gerðum vér ráð fyrir að alls mundi ganga um 500 mótorbátar og opnir fiskibátar, og mun það eigi skakka miklu. Eftir því sem dæmt varð af þeim litlu gögnum, sem vér höfðum, álitum vér sjóðinn því nægilega trygðan með gjöldum þeim, sem til hans er ætlað að greiða, og engin líkindi til að þurfi að grípa til hjálpar landssjóðs. Nú hafa líka á þessum síðustu árum komið fyrir miklir og óvanalegir skipskaðar og er ólíklegt að annað eins komi fyrir oftar en einu sinni eða tvisvar á öld hverri. Þannig er meðaltalið af druknuðum vátrygðum sjómönnum á árunum 1904—08, 32 menn árl., eða tæpl. 1½%. Eftir því sem séð verður af þeim upplýsingum, sem nefndin góðfúslega fékk hjá stjórnarráðinu og alþingism. Eiríki Briem er því alt útlit fyrir að landssjóði eigi þurfi að verða neinn byrðarauki að þessu frumv., þótt það verði að lögum, né sjóðurinn komist í fjárþröng. Það sem frelsað hefir sjóðinn á þessum áður um töluðu mannskaðaárum eru ákvæði þau, sem leyfa honum að borga út vátryggingarupphæðina á 4 árum, og gátum vér því eigi fallist á þá till. yfirmannsins á »Islands Falk«, sem fór fram á, að helmingur upphæðarinnar kæmi til útborgunar strax á fyrsta ári, því í því væri einmitt talsverð hætta fólgin.

Að svo mæltu vænti eg þess, að hv. deild sýni máli þessu sama velvilja og áður og greiði því gang gegn um deildina.