13.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

20. mál, fræðsla barna

Jón Magnússon:

Eg tók það fram við 2. umr. þessa máls, að hvorki eg né minni hluti nefndarinnar í heild sinni væri mótfallinn niðurstöðu nefndarinnar, sem sé þeirri, að fresturinn til að koma á fræðslusamþyktum sé lengdur um 2 ára tíma.

En það er nefndarálitið sjálft, ástæður meiri hlutans, sem minni hluti nefndarinnar gat ekki fallist á. Sérstaklega er það eitt í ástæðunum, sem mér virðist ómaklega og illa mælt; það er þar sem sagt er að meiri hlutinn á þingi 1907 hafi í þessu máli virt að vettugi vilja landsmanna. Þessi ummæli eru svo klunnaleg eða jafnvel ruddaleg, að þau hefðu ekki átt að koma fram í umræðum hér, því síður í ástæðum í nefndaráliti, enda alsendis óþörf til að byggja á framlenging frestsins á fræðslusamþyktum.

Auk þess er þetta ekki satt. Þingið 1907 tók það einmitt til greina, sem fram hafði komið við atkvæðagreiðslu landsmanna í þessu máli á milli þinga (1905-1907).

Frumv. neðri deildar 1905 var breytt allmikið af þinginu 1907 og var við þær breytingar einmitt tekið tillit til samþykta þingmálafunda og héraðsfunda og sýslunefndarfunda, eftir því sem auðið var, — þær voru nfl. margar mjög óljósar. Það er svo langt frá því, að lögð sé skólaskylda á utan kaupstaða, að sveitirnar eru ekki einu sinni skyldaðar til að hafa skóla, heldur geta fræðsluhéruðin komist af með að halda einn kennara til eftirlits með heimafræðslu, en ef sá kostur er tekinn, þá legst á aðstandendur barnanna engin ný byrði sérstaklega, ekkert annað en fræðsluskyldan, og hún hvíldi á þeim áður. Það er því dálítið undarlegt að vera að tala um kúgunarlög þar er fræðslulögin eru, eða að þau leggi fræðsluhéruðunum og foreldrum barna slíkar byrðar á herðar, að ekki verði undir risið. Hagi svo til í einhverju fræðsluhéraði, að ekki þyki fært að hafa aðra kenslu en eftirlit með heimilisfræðslu, þá er þetta eftirlit eitt, sem sveitarfélagið eða íbúar fræðsluhéraðsins þurfa að borga.

Hvað mundi nú þetta eftirlit með heimafræðslu kosta?

Einar 156 kr. á ári! Meira þarf ekki í meðal fræðsluhéraði — því gelt eða það ekki eftir heimilunum að gefa eftirlitsmanninum að borða um eftirlitstímann. Og mikið af þessum kostnaði fengist borgað annarsstaðar að, úr landssjóði. Það yrði því ekki meira en 50—100 kr. á ári sem útgjöld við fræðslulögin myndu nema í meðalhreppi, er léti sér nægja eftirlit með heimafræðslu. Nú segja sumir, að gagnið af eftirlitinu sé ekki svo mikið, að til þess sé kostandi neinu verulegu. Þetta er als eigi rétt. Góður kennari, sem ferðast milli heimilanna, kennir þar og leiðbeinir heimilunum með uppfræðslu barna, getur gert mjög mikið gagn, þótt hann dvelji stutta stund í hverjum stað. Auðvitað gerir þessi eftirlitsfræðsla eigi jafnmikið gagn sem reglulegur skóli, eins og hver getur sagt sjálfum sér. En hvað sem öðru líður, þá er það óþarft að vera að brigsla meiri hluta á þingi 1907 um að hann hafi beitt kúgun í þessu máli og virt að vettugi almenningsálitið, enda sönnu fjarri.

Þá er verið að tala um almenna óánægju út af fræðslulögunum. Þetta hygg eg að sé, svo að eg ekki taki dýpra í árinni, mjög svo orðum aukið. Það er auðvitað, að þegar um skipun slíks máls sem þessa er að ræða og þar sem þarf mikils framlags af almannafé, þá fer jafnan svo, að ekki verða allir sammála um, hvernig þessu skuli háttað, né hve mikils virði það sé yfirleitt. Og langt yrði að bíða þess, að allir verði á eitt sáttir í þessu efni. Nú er rétt að reyna fræðslulögin (1907). Þau fengu mjög góðan undirbúning; eru bygð á rannsókn og tillögum þess manns, Guðmundar Finnbogasonar, er þingið fékk til þess að athuga þetta mál bæði hér og annarsstaðar; þau eru þá einnig bygð á reynslu nágrannaþjóða vorra í þeim efnum, sérstaklega Norðmanna, þar er líkast hagar til og hér, og þeirra fræðslulög höfð að fyrirmynd að nokkru leyti. Síðan eru lög þessi athuguð á tveim þingum og hafa þess í milli sætt mikilli athygli hjá þjóðinni. Má því með sanni segja, að til fárra laga hefir verið vandað betur en til hinna nýju fræðslulaga.

Skal eg svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, en að eins geta þess, að þótt eg ekki greiði atkvæði með tillögu meiri hlutans um frestun, þá er engin ástæða fyrir mig að mæla á móti henni; það getur alt af verið álitamál, hvort frestur sá, er settur er fræðslunefndum til að koma sér niður á og fá samþyktar fræðslusamþyktir, eigi að vera heldur 4 ár en 2 ár. Hitt hefði verið skaðlegt og með öllu óforsvaranlegt, ef lögunum annars hefði verið frestað, eða kröfur þeirra á nokkurn hátt linaðar, því að fara nú að hopa á hæli í þessu mesta velferðarmáli þjóðarinnar, það hlyti að verða til óbætanlegs tjóns.

Um leið og eg hefi leyft mér að finna að orðalagi meiri hlutans í nefndarálitinu, finn eg ástæðu til þess að þakka honum fyrir þá hófsemi, sem hann hefir sýnt í framkvæmdinni, að því er sjálfa tillöguna snertir og finn eg mér skylt að láta þess getið, að eftirlitsmaður fræðslumálanna er als ekki óánægður með það, að fresturinn sé lengdur um tvö ár, eins og meiri hluti nefndarinnar leggur til. Þeir hreppar, sem hvorki þurfa eða vilja nota frestinn allan, heldur geta fyr komið á fræðslusamþyktum — og þeir eru margir—geta haldið því áfram eins fyrir því, því að lögin eru í fullu gildi að öllu öðru leyti, bæði að því er fræðslukröfurnar snertir o. s. frv.; tillagan nær að eins til að veita þeim héruðum lengri frest til að koma á fræðslusamþyktum, er eigi hafa þegar gert það.