13.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

20. mál, fræðsla barna

Jón Magnússon:

Það var öldungis óþarft fyrir háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) að koma með þessar upplýsingar, er hann gat um í lok ræðu sinnar.

Eg sagði það við 2. umr. og eg sagði það áðan, að eg er í rauninni ekkert óánægður með frv. meiri hluta nefndarinnar. Eg hefi þvert á móti tekið það fram, að það gæti vel verið álitamál, hvort ekki væri rétt að lengja frest þann, er hér ræðir um.

Þessar aths. hins háttv. þm. voru því alveg ástæðulausar. Eg var að eins óánægður með ástæður meiri hluta nefndarinnar, þar kom fram alveg óþörf árás á meiri hluta þingsins 1907.

Eg verð enn að átelja það, að háttv. meiri hluti þessa þings lætur sér sæma að álasa meiri hluta síðasta þings fyrir gerðir sínar. Þetta þing er á engan hátt sett yfir hin fyrri þing, hefir engan rétt til að knesetja þau. Það fer betur á, að hvert þing fyrir sig sýni í orði kveðnu að minsta kosti öðru þingi tilhlýðilega kurteisi, enda þótt meiri hluta annars þingsins þyki ekki alt heppilegt, sem hitt hefir gert.