08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

89. mál, varabiskup

Sigurður Gunnarsson:

Eins og h. framsm. nefndarinnar 1. þm. Rangv. (E. P.) tók fram, erum við samdóma í aðalstefnunni. Okkur tvo greinir einungis á um það, að hann vill halda (varabiskups-)laununum, en eg tel það óþarfa. Eg hygg það sé hégómi að vera að launa það starf, sem ekki verður ástæða til að inna af hendi, nema örsjaldan, og ekki sé eg að það sé neinn sæmdarauki í því fyrir vígslubiskup að hirða þessi laun. Árni Helgason stiftprófastur — í daglegu tali oftast nefndur Árni biskup —, hafði engin laun og hélt þó fullri sæmd sinni. Eg fæ heldur ekki séð neina brýna þörf þess, að vígslubiskup búi nálægt Reykjavík. Í þá stöðu ætti að tilnefna einhvern ágætasta og virðulegasta kennimann kirkjunnar, án tillits til þess, hvar á landinu hann væri, en auðvitað þarf vígslubiskup að fá sér endurgoldinn ferðakostnað og annan kostnað, er hann vígir nýjan biskup. Það er svo sjálfsagt, að eg álít öldungis óþarft að taka það fram í frumv.

Hins vegar felst eg á þá breytingu á stjórnarfrumv., að konungur skipi vígslubiskup eftir tillögum prestastéttarinnar í landinu. En ráðherra þarf ekki hér til að nefna, því það er sjálfgefið, að skipun vígslubiskups gengur gegnum hans hendur, svo sem er um öll mál, er fyrir konung eru borin.

Að öðru leyti vona eg að háttv. deild taki þessu litla frumv. vel.

Með frumv. á að eins að tryggja það, að biskupsvígsla geti jafnan fram farið í landinu sjálfu.