08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

21. mál, vígslubiskupar

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Nú held eg að einhverjir menn, sem orð mín heyra í dag kunni að súpa hveljur eða taka andköf, þegar svo djúpt er tekið ár í sjó, að þeim gefur að heyra talað um það að stofna eigi nýtt biskupsdæmi, er kosta eigi á ári landið 4000 kr., þó að ekki sé ætlast til, að til þessa sé tekið fyrri en næst verða biskupaskifti hér á landi, og það enda þótt verja eigi þessu fé til eflingar sjálfstæðis, sóma og dýrðar guðs kirkju hér á landi voru. Það situr nú að vísu ekki á mér að ganga hér fram fyrir skjöldu og berjast einn fyrir sæmdarauka kristninnar á landi hér, úr því þeir hávirðulegu prelátar, sem með mér voru í nefndinni um varabiskupinn treystu sér ekki til að fylgja mér né höfðu djörfung til að hefja nú með mér merki hins forna Hólastóls. En eg fæ þó eigi að mér gert, úr því að eg varð við mál þetta riðinn, fæ ekki fullnægt sjálfum mér, nema með því einu móti að reka þetta mál svo langt sem eg álít að það eigi að komast, þegar fram líða stundir, þó að byrlítið kunni að vera nú í fyrsta róðri. Eg skal ekki fara mörgum orðum um það, hvaða þýðingu það hefir fyrir Norðurland og þjóðina í heild sinni að endurreisa hið forna Hólabiskupsdæmi og með því vekja hjá þjóðinni endurminningu fornrar frægðar og þjóðmenningar. En geta vil eg þess strax, að svo hefir fásinnan og skammsýnin verið mikil meðal sumra á þingi hér eigi alls fyrir löngu í sumum málum kirkjunnar, að fram hafa komið tillögur um það fyrir nokkrum árum, að biskupsdæmi landsins yrði lagt niður, og það hefir jafnvel verið borið fram af þeim, sem þótst hafa viljað sjálfstæði landsins. Að mínu áliti hefir ekki verið framin öllu verri pólitísk glópska á alþingi Íslendinga á hinum síðari árum. Ef Ísland hefði verið svift biskupi sínum og það hætt að vera sérstakt biskupsríki, þá hefði það í kirkjumálum án efa orðið líkt statt og Færeyjar, orðið vesalt prófastsdæmi og aum undirtylla undir Sjálandsbiskupi Dana. Biskupsembætti vort er hið elzta og sæmilegasta embætti hér á landi og undir það eru runnar rammar og fornar stoðir frá elztu og beztu tímum þjóðveldisins.

Biskupsstól fengum vér fyrstan í Skálholti 1056, og varð Ísleifur son Gizurar hvíta fyrstur biskup hér á landi. En sem stundir liðu fram, tóku Norðlendingar að una því lítt að hafa ekki biskup fyrir sig; fóru þeir því þess á leit við Gizur biskup Ísleifsson, að hann léti af höndum þann fjórðung landsins, sem mestur var þá og mannflestur í biskupsdæmi hans, en það var Norðlendingafjórðungur, og væri þar nýtt biskupsdæmi; lét hann tilleiðast að verða við beiðni þeirra. En þá virtist svo um stund sem þetta ráð ætla að stranda á því, að enginn höfðingja norðanlands vildi upp standa og leggja bújörð sína eða höfuðból til biskupsseturs. Sjálfgefið var að biskupssetrið mundi verða í Eyjafirði eða Skagafirði. En loks varð Illhugi prestur Bjarnason til þess að gefa höfuðból sitt og föðurleifð Hóla í Hjaltadal til biskupsaðseturs 1107, og varð þá biskup þar Jón hinn helgi Ögmundarson. Síðan voru Hólar biskupsstóll Norðurlands nær 700 ár.

Íslenzku biskuparnir, Skálholts og Hólabiskup, stóðu fram á miðja 12. í öld undir erkibiskupnum, fyrst í Hamborg, síðan Brimum og þar næst í Lundi. Alla þá tíð stóð biskupsdómurinn á Íslandi með miklum blóma. En 1154 var erkibiskupsstóll settur í Niðarósi og undir hann voru þá íslenzku biskupstólarnir lagðir. Kom þá brátt annað hljóð í bjölluna, því að Þrándheimsbiskupar tóku brátt að verða mjög afskiftasamir um skipun biskupanna og hlutsamir um íslenzk kirkjumál á ýmsan hátt, og leyfðu sér jafnvel, þegar fram í sótti, þá dirfsku, að fara að stefna utan íslenzkum veraldarhöfðingjum, og loks kom svo, að norrænir biskupar urðu skipaðir að tilhlutan hins norska kirkjuvalds og Noregskonungs bæði að Hólum og Skálholti. Hafði það hinar háskalegustu afleiðingar, því að það er yfirleitt tvísýnt, hvort landið hefði nokkurntíma komist undir erlend yfirráð, ef útlent kirkju- og konungsvald hefði eigi náð undir sig yfirráðum íslenzku kirkjunnar. Útlendu biskuparnir gengu alveg í þjónustu konungsvaldsins og gerðu alt, sem í þeirra valdi stóð, til að fá yfirráð konungs hér á landi aukin sem mest í öllum greinum og sjálfstæði og frelsi landsmanna skert að sama skapi. Má þetta út af fyrir sig vera mönnum góður lærdómur um það, hve mikilvægt það er, að íslenzka kirkjan sé óháð erlendu valdi, og nái sínu forna frelsi aftur.

Enda þótt eg viti, að mál þetta nái ekki fram að ganga fullum fetum að sinni, þá hefi eg þó viljað hreyfa því til þess, að menn fari að íhuga þetta efni og gefa því gaum. Mönnum verður og að skiljast, hve mikilvægt það er þjóðlífi voru, að vekja upp aftur fagrar endurminningar fornra og góðra daga. Endurminningarnar frá Hólum og Hólamönnum eru líka svo fagrar og oss svo kærar, að nauðsynjalaust er, að þær skuli liggja í gleymsku. Hólar hafa átt svo marga nýta menn, bæði biskupa og aðra, sem varpað hafa frægðarljóma á ættland sitt og þjóð. Eg nefni svo sem að fornu þá biskupana Jón Ögmundsson, Brandana báða. Jörund og Laurentius, sem allir voru mætir menn og miklir fyrir sér, að eg nú ekki tali um aðra eins ágætismenn sem Jón Arason og Guðbrand Þorláksson; þeirra hróður fer með himins röndum, og þeir eru ógleymanlegir alla daga, meðan nokkur man eitthvað til sögu þessa lands og bókmenta.

Skálholt var eiginlega lagt niður sem biskupssetur 1786. Þá var skólinn fluttur þaðan og hingað suður, en stólsjarðirnar seldar, og rann andvirði þeirra alt í ríkissjóð Dana. Hinn síðasti Skálholtsbiskup, Hannes Finnsson, fékk að vísu leyfi til að sitja í Skálholti til dauðadags (1796) og þá jörð hafði hann keypt. En ætluð hafði honum verið jörð hér fyrir neðan Heiði, og var þar til nefnt eitt af tvennu: Elliðavatn eða Skildinganes.

Á Hólum sátu biskuparnir lengur, fram undir 1800.

Þó var áður farið að brydda á því, að ýmsum mönnum var mjög hugleikið að fá öllu komið hingað suður, að »centralisera« hér syðra öll yfirráðin, andleg og veraldleg.

Þetta, sem menn aðhöfðust um 1800, var eitt hið hvimleiðasta verk og eitthvert hið ósvikulasta einveldis brennimark, sem hægt var að setja hér á land og þjóð.

Hið forna þing vort — frá 10. öld — var lagt niður; sambandinu og samhangandi framhaldi milli gamla þingsins og þess núverandi var slitið. Það var gerð 45 ára eyða í sögu þessa elzta löggjafarþings í veröldinni, sem enn stendur.

Þeir miklu menn, sem að þessu verki unnu, hafa sett þann blett á minningu sína, að hann verður aldrei af þveginn um aldurdaga. Verk þeirra hér um voru bæði ógóð og óþjóðleg.

Aðalstyrinn sýnist ekki hafa staðið um sjálfan biskupsstólinn, heldur um prentsmiðjuna; með henni vildi Magnús Stephensen leggja undir sig og Landsuppfræðingarfélagið allar bókmentir landsins.

Beztu menn norðanlands, eins og Stefán amtmaður Þórarinsson á Möðruvöllum, settu sig af öllu afli á móti því, að Hólastóll og skóli væri lagt niður og prentsmiðjan suður flutt. En nefnd sú, er skipuð hafði verið til þess að ræða um afdrif Hólastóls, komst loks að þeirri niðurstöðu, að stóllinn skyldi lagður niður og fluttur suður með þeim plöggum, sem honum heyrðu til.

Það þarf ekki mikið að rýna í bækur og skjöl frá árunum eftir 1800 til þess að sjá það, hvílíkur harmur var þá í Norðurlandi, sem og var að vonum, er Norðlendingar höfðu nú í einu mist biskupsstólinn, skólann og prentsmiðjuna. Og það er átakanlegt að heyra orð margra gamalla Skagfirðinga þá, þeir geta varla ógrátandi minst á þessar aðfarir. Manni verður nær á að klökna við orð þeirra.

Það væri ekki meira en skylt, að minnast hér ýmsra ágætra Hólamanna frá þessum hermdardögum. Má þar fyrsta nefna þá Hjálmarssonu, Pál og Halldór, er báðir voru hinir merkustu menn. Páll varð síðar prestur á Stað á Reykjanesi, en Halldór andaðist skömmu eftir fyrri aldamót (1805) í Hofstaðaseli í Skagafirði.

Enginn af hinum síðustu Hólamönnum hefir verið þvílíkur ræktarmaður sem Halldór. Áður en skjalasafn Hólastóls er sent suður, skrifar hann það upp, blað fyrir blað, eins og hann orðar það sjálfur, til þess að fróðleikur þessi allur fari þó ekki úr Norðurlandi. Þá er Halldór kominn í elli, og varla er annað hægt að sjá, en að hann hafi blátt áfram skrifað sér dauða af rækt við stólinn og menjar hans.

Þeir bræður Páll og Halldór voru helztir til fyrirsvars af hinum síðustu Hólamönnum, því að officialinn, síra Þorkell Ólafsson, var þá gamall, enda friðsamur maður og lét því ekki mjög til sín taka.

Eg er ekki Norðlendingur og mætti því ætla, að ekki sæti á mér, að halda þessu efni svo mjög fram; eg er heldur ekki kennimaður, og mundi öðrum því standa þetta nær.

En eg get blátt áfram ekki orða bundist, úr því að svo nærri þessum málum er nú stefnt, og eg lít svo á, að sóma kirkju og kristni hér á landi verði ekki með öðrum bætti fullborgið, eigi ríki og kirkja framvegis að verða í sameiningu hvort við annað, en með því að endurreisa Hólastól hinn forna fyrr eða síðar.

Þótt eg að vísu geri mér ekki neinar gyllingar um það að þessu máli verði nú ráðið til þeirra lykta, sem æskilegastar eru, þá finst mér það þó skylda mín að gerast talsmaður þess, ef ríki og kirkja annars eiga að verða í sambandi framvegis, sem litlar líkur eru til að nokkur breyting verði á fyrst um sinn.

Og enn sýnist ekki vera dautt í öllum kolum í Norðurlandi um það, að fá Hólastól endurreistan. Eða hvað merkja prestafundirnir þeir annað, er þar hafa nú verið haldnir um allmörg undanfarin ár, og hefir ekki hið mikla skáld Norðurlands nýlega sungið hinum forna Hólastól og minningunni um hann lof og dýrð einmitt við þau tækifæri? Er þetta ekki að virða sem eins konar viðleitni til þess að kveða upp — hafði eg nærri sagt — biskupsdæmið norðlenzka?

Það sem eg vil fá og vona að geta fengið framgengt að sinni, og er að minsta kosti í áttina í þessu efni, er það, að skipaðir verði 2 officiales (vígslubiskupar), annar fyrir norðan land, en hinn fyrir sunnan; hefir mér og öðrum meðnefndarmanni mínum (S. G.) komið saman um það að laun hafi þeir engin, en þó vil eg að þeir fái »gratiale« (500 kr.) þegar þeir vígjast, og svo borgun eftir reikningi fyrir starfa sinn.

Þetta er svo sanngjörn krafa, að eg vænti þess fastlega, að þingið fallist á hana.

Væri eg klerkur og í sporum hinna virðulega presta og preláta, er í nefndinni hafa setið með mér, þá myndi eg fyrirverða mig fyrir að hafa ekki viljað eða þorað að fylgja fram jafnsjálfsagðri kröfu og þeirri að sýna hinu forna Hólabiskupsdæmi hæfilegan sóma.

En nú mun eg ekki fara frekar út í þessa sálma að sinni, og að eins mælast til þess að málinu verði vísað til 2. umr. Trúi eg því ekki fyrri en eg tek á því, að ekki rísi allir þeir þm., sem nú eru hér í sætunum norðan yfir fjöll, eins og einn maður með aðalefni þessa máls.