10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

21. mál, vígslubiskupar

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eg hefi við 1. umr. þessa máls tekið flest það fram, er þurfa þykir frá almennu sjónarmiði.

Vil eg nú fara nokkrum orðum um einstök atriði þessa máls.

Í 1. gr. þessa frumv. er farið fram á, að endurreist verði Hólabiskupsdæmi hið forna, þegar biskupaskifti verða næst. Er ætlast til að skiftingin verði hin sama og áður var, svo að Skálholtsstifti nái frá Lönguhlíðarkambi á Langanesi til Hrútafjarðarár.

Eg skal að öðru leyti ekki gera 2 fyrstu greinar frumv. að kappsmáli, með því að það mun vera í fyrsta skifti, er þessu máli er hreyft hér á þingi og menn munu ekki hafa gert sér enn ljósa grein fyrir því, hve nauðsynlegt þetta er fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og kirkjunnar.

Hins vegar legg eg meiri áherzlu á 3. greinina. Þar segir svo:

»Þangað til fyrirkomulag það kemst á, sem getur um í 1. og 2. gr., skulu auk biskups landsins, vera tveir officiales, er nefnast vígslubiskupar, annar í Skálholtsbiskupsdæmi, en hinn í Hólabiskupsdæmi«.

Skulu þessir vígslubiskupar engin laun hafa, en endurgoldinn fá þeir kostnað þann, er flýtur af verkum þeirra í þarfir kirkjunnar, og þeim er ætlað að vinna í forföllum biskups landsins.

Meðnefndarmenn mínir hafa ekki getað orðið mér sammála um þetta frumv., en um það kom okkur þó öllum ásamt, að nafnið varabiskup væri óheppilegt.

Eg gat þess við 1. umr. þessa frv., að þetta nafn væri eitthvert fyrsta einveldisbrennimarkið á landinu.

Þórður, er síðar gerðist biskup í Skálholti, var hinn fyrsti varabiskup. Næstur honum var Jón Vigfússon, er biskup varð á Hólum.

Ljós vottur þess, hve illa var þegið varabiskupsheitið og aðferð sú, sem höfð var til þess að ná slíkum heitum með embættisvon síðar, er meðal annars það, að þegar Brynjólfur biskup, sem var alvörumaður og hugarþungur, skyldi vígja Jón Vigfússon (1674), þá valdi hann alleinkennilegan vígslutexta.

Biskupar voru áður kosnir — sem kunnugt er, og var Brynjólfur hinn síðasti þeirra.

Vígslutextinn, sem hér ræðir um, er að lesa trúi eg hjá Jóhannesi og hljóðar hann þannig:

»Ef hirðirinn kemur ekki inn um dyr fjárhússins, þá er hann þjófur og morðingi«.

Svo mörg eru þessi heilögu orð, og segir ekki af útleggingu biskups á þeim, en um textann er ekki að villast, hann er ekki óviljandi valinn.

Útnefning varabiskups var yfir höfuð að tala mjög óvinsæl, enda öndverð lögum og landsvenju.

Hinn síðasti varabiskup mun verið hafa Björn Þorleifsson, síðar biskup á Hólum.

Var hér fyrrum hinn mesti sægur af alskonar varaembættismönnum, einkum lögmönnum og öðrum varaskeifum.

Í sambandi við tillögur háttv. meðnefndarmanna minna, skal eg taka það fram, að það yrði einmitt ódýrara að hafa 2 vígslubiskupa.

Stjórnarfrumv. leggur til, að varabiskup sé einn og hafi 500 kr. árlega þóknun.

Annar meðnefndarmanna minna (E. P.) félst á það, en hinn (S. G.) vildi ekki láta hann hafa nein laun.

Eg hefi aftur á móti stungið upp á 2 vígslubiskupum, ólaunuðum að öðru en því, að starfa sinn fá þeir endurgoldinn eftir reikningi.

Og eg er sannfærður um, að sú tilhögun yrði einmitt til sparnaðar.

Annar vígslubiskupanna situr í Norðurlandi og annast vígslustörf þar, ef á þarf að halda, en hinn er í Suðurlandi og gegnir sínum störfum þar. Þá yrði komist hjá að sækja vígslubiskup norðan að hingað o. s. frv., er kostað gæti mörg hundruð króna, þar sem að eins getur verið um lítilræði að tala, ef þeir eru 2 og ekki þarf að sækja þá langar leiðir.

Eg hefi átt tal við núverandi biskup landsins um þetta efni; hann er þjóðrækinn í lund sem kunnugt er, og fellur honum einmitt vel, að tveir séu vígslubiskupar.

Þykir fara vel á því að officialis Norðurlands verði vígður í Hóladómkirkju á sumri komandi, kringum 30. júlí, því að þann dag kvað hafa verið vígður hinn síðasti Hólabiskup árið 1798. Það var Geir Vídalín, er síðar varð biskup landsins.

Eg skal svo ekki fjölyrða öllu frekar um þetta mál, enda situr það ekki á mér framar klerkalýð þessa lands að kosta svo mjög kapps um þetta.

Málið er nú á valdi hinnar háttv. þingdeildar, og mætti við 3. umr. breyta því sem þurfa þykir.

Eg vil þó geta þess, að bent hefir verið á það, að ekki væri nógu ljóslega tekið fram í frumv., hvernig kosning vígslubiskups fari fram af hálfu klerkalýðsins.

Þetta má satt vera, en auðvitað vakti fyrir mér, að hér yrði farið eins að og þá er prófastur er kjörinn. Þá er það venja, að hver prestur í prófastsdæminu sendir biskupi sitt »votum« eða atkv. í lokuðu bréfi.

Þann, sem flest hefir atkv. (meðmælin) fengið, skipar svo biskup, eða veitir honum skipunarbréfið. Eg er því enganveginn mótfallinn, að sett verði inn í frumv. ákvæði um þetta atriði, ef mönnum virðist þá betur.