12.03.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

6. mál, aðflutningsgjald

Ágúst Flygenring:

Eins og br.till. á þgskj. 196 ber með sér, þá gengur hún út á, að færa þennan berjasafa (súrsaft) úr 4. lið og setja hann sem sérstakan lið (15. lið) á frv. Eg álít að þetta sé rétt, vegna þess, að með því að láta þennan berjasafa standa undir 4. lið, þá er því um leið slegið föstu, að hann sé áfengi. Eg verð að álíta þetta mjög óheppilegt, því að það er víst flestum háttv. þm. kunnugt, að þessi vörutegund er nauðsynjavara, t. d. alveg eins og kaffi og sykur, og að hún er notuð á fjölmörgum heimilum í landinu til matar. Það er að eins á hinum síðustu og verstu tímum, að hún hefir verið misbrúkuð. Dæmin eru þó svo tiltölulega fá, að eg tel ómögulegt að löggjafarvaldið fari þess vegna að færa hana undir áfenga drykki, enda væri það skoplegt, þar sem þó má selja hana alstaðar og öllum.

Ef súrsaftin er því látin standa undir þessum lið og svona geypi-hár tollur settur á hana, þá geta kaupmenn hér eftir ekki flutt hana inn í öðru skyni en til þess að selja hana sem áfengi, því hún yrði þá alt of dýr til heimilisnotkunar. Þetta er þess vegna að »leiða asnann inn í herbúðirnar« og kenna drykkjukránum óleyfilega notkun þessa forboðna ávaxtar; ekkert annað en snara, sem lögð er fyrir fáeina aumingja menn, sem eru svo breyskir, að þeir festa sig í henni. Eg skil ekkert í því, að bindindisvinir geti verið slíku hlyntir.

Þeim, sem vilja stemma stigu fyrir, að súrsaftin sé notuð á þennan hátt, með því að hækka tollinn, skjátlast mjög mikið. Kaupmenn munu sjá um, að styrkleikinn svari til verðsins, og það dettur engum manni í hug að kaupa hana, nema sem áfengi. Fjarri fer því líka, að landsjóður muni hafa hagnað af svona háum tolli, því að salan verður margfalt minni, en ef tollurinn væri að eins 25 aurar, og með þeim tolli gæti verið von um að ná töluverðu fé í landsjóðinn.

Eg býst við að mér muni svarað, að lögreglustjóri og aðrir eigi að hafa eftirlit með því, að ekki sé farið í kring um lögin, og óleyfileg sala eigi sér stað. En eg vil spyrja: hvernig eiga þeir að fara að því? Alkohol-mælirinn mælir ekki styrkleika saftarinnar, því að hún er of þykk; það yrði því að snúa sér til efnarannsóknarstofu t. d. í Reykjavík, en eg hygg að það yrði fremur snúningasamt.

Eg hefi ekki mikið meira að segja í þessu máli, og ætla mér ekki að gera það að kappsmáli, en eg gat að eins ekki gengið fram hjá því, að benda hinu háttv. þingi á það, hver afleiðingin mundi verða, ef tollhækkunin væri lögleidd. Landsjóðurinn missir tekjumar að miklu leyti, og saftin verður að eins notuð af óheiðarlegum kaupmönnum o. fl. til áfengissölu, og eykur þannig siðspillingu í landinu.