12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

21. mál, vígslubiskupar

Jón Sigurðsson:

Það er nú að vísu búið að breyta þessu frumv. þannig, að verstu agnúarnir eru af, en þó virðist það hafa gengið gegnum deildina, án þess, að til þess hafi í rauninni verið ætlast.

Og við atkvæðagreiðsluna var það ljóst, að menn vildu halda hinu fyrra frumv. Þá var það sýnt, að menn hölluðust fremur að því, að einn væri vígslubiskup hér á landi, enda þungamiðja þessa máls, að biskupar þurfi ekki að fara utan til þess að taka vígslu, heldur eigi þeir jafnan kost á, að vígjast hér á landi, og er það bæði þjóðlegra og auk þess réttmætt.

Það virðist því nóg, að vígslubiskupinn sé að eins einn, og það því fremur, sem litlar líkur eru til þess, að sú drepsótt eða bráðafár geysi svo mjög, að báðir biskupar (aðal-biskup og vígslu-biskup) látist í senn.

Að öðru leyti er ekki þörf að gera athugasemd við þetta frumv., nema ef vera skyldi, að þessi tilhögun gæti orðið vísir til nýrra launaðra embætta. Gæti þá svo farið, að á næstu þingum kæmi sægur af launa-bitlingum, bæði launahækkun og ný laun.

Ef 2 yrðu vígslu-biskupar, þá yrði annar þeirra auðvitað í Norðurlandi; en þá mundi hann all-oftast verða látinn vígja presta norðanlands og fengi sín ómakslaun. Þetta gæti orðið mjög kostnaðarsamt, í stað þess, að aðal-biskupinn framkvæmdi vígsluna, að öllum jafnaði, ef ekki væri nema einn vígslu-biskup; því að þá yrði þessi eini vígslu-biskup að eins látinn vígja í beinum forföllum aðal-biskups. — Hins vegar er ekki ástæða til þess að færa vígslu-athöfnina úr höfuðstað landsins; það virðist eiga bezt við, að hún fari fram í Reykjavíkur dómkirkju eins og verið hefir hingað til.

Eg lít svo á, að réttast væri, að fella þetta frumv., en samþykkja stjórnarfrumv. með hæfilegum breytingum, og halda sér við 1 vígslu-biskup, með því, að aðal-markinu er þá náð, að draga vígslu-valdið inn í landið. Það skiftir mestu.