12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

21. mál, vígslubiskupar

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Það er með öllu óþarft að fara hér um mörgum orðum.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) hefir eiginlega svarað því að fullu, sem svara þarf. Við vorum báðir upphaflega á sömu skoðun um að nægja myndi 1 vígslubiskup, en vildum aftur á hina hliðina ekki gera það að neinu kappsmáli, er gæti máske komið því til leiðar, að frv. næði ekki framgangi. Og þegar svo var komið og það orðið að samningsmáli að hafa 2 vígslubiskupa, sinn fyrir hvort hinna fornu biskupsdæma, þá sá eg heldur ekki fyrir mitt leyti ástæðu til að halda því til streitu, að þeir skyldu vera launaðir, með því útgjöldin hefðu þá verið tvöföld í þessu skyni, og gekk því inn á till. meðnefndarmanna minna að láta þá hvorn um sig fá 500 kr. í eitt skifti fyrir öll til vígslukostnaðar, sem eru útgjöld, er ekki nema svo miklu fé, að um dragi. Hvað það áhrærir, að það sé ekki skýrt fram tekið í frv. hvernig, kosningu þessara manna skuli hátta, þá finst mér það liggja í hlutarins eðli, að klerkastéttin í hvoru biskupsdæmi um sig hafi einungis rétt til að tilnefna biskup, er þeir lúta undir, rétt eins og prestar í því og því prófastsdæmi hafa rétt til að tilnefna þann prófast, er þeir eiga að lúta undir, en kemur ekki á neinn hátt þeim prestum við, er fyrir utan það prófastsdæmi eru. Annars man eg ekki eftir neinum stórvægilegum atriðum, er um þurfi að ræða, og vona að frv. komist með heilu út úr deildinni, þar telja má það til stórra bóta.